Sólhvörf

Sólhvörf
Ár: 
2017
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Sólhvörf

Emil Hjörvar Petersen er að festa sig í sessi sem eitt helsta fantasíuskáld íslendinga. Hann hefur gefið út fantasíuþríleikinn Saga eftirlifenda og ljóðabókina Gárungagap ásamt fleiri verkum. Sólhvörf er sjálfstætt framhald af Víghólum sem kom út 2016, en þar kynntumst við Brá og Bergrúnu móður hennar sem báðar búa yfir skyggnigáfu og eru í sambandi við hulduheima.

Í Víghólum beindist kastljósið að Álfatrú og tókst höfundi vel að flétta saman klassískar hugmyndir um álfheima, nútímasamfélag okkar og fantasíuhefðina. Í Sólhvörfum eru jólasveinar komnir á kreik, en af miðlum eða sjáendum eru þeir reyndar betur þekktir sem drýsiltröll og eru alls ekki þeir krúttlegu klaufar sem við eigum að venjast. Þvert á móti eru þeir stórhættulegar vættir og grunaðir um fjögur barnsrán sem eiga sér stað á aðventunni. Í kjölfarið er eðlilegt að spyrja, eins og svo mörg íslensk börn hafa gert á jólunum: er Grýla í alvöru dauð?

Mæðgurnar vinna náið með rannsóknarlögreglumanninum Ólafi sem hefur sérhæft sig í hulduheimum. Við kynntumst honum í Víghólum, hann er vinnualki sem á í erfiðleikum  með samstarf við yfirmanninn Guðfinnu, sem sýnir hulduheimum takmarkaðan áhuga – en kemur mæðgunum engu að síður á óvart í þessari bók. Þannig kallast sagan á við hefðbundin reifaraminni, þar sem spæjarinn og eða lögreglumaðurinn þarf að vinna að góðum málum í óþökk yfirvalda, sem skilja ekki og þora ekki að fylgja málum eftir.

Við kynnumst líka fleiri fjölskyldumeðlimum og fáum innsýn inn í fjölskyldusögu mæðgnanna og fylgjumst með þeim takast á við hefðbundin hátíðarhöld í bland við vættaveiðar. Hér eru líka nýir vinir, vinveittar verur sem aðstoða mæðgurnar og Ólaf við að leysa úr málunum. Verurnar flækja hins vegar líka málin; samskipti á milli mismunandi menningarheima eru oft flókin og full tortryggni. Og það ekki að ástæðulausu, það er nefnilega aldrei að vita hver borðar hvern og hætturnar leynast allstaðar, svo það er um að gera að hetjunar okkar sofni ekki á verðinum.

Textinn er, líkt og í fyrri bókinni, svolítið stirður þegar verið er að rifja upp eða útskýra lögmál þessara heima, en ljómandi kvikur og skemmtilegur þegar hröð atburðarásin tekur völdin. Það er enn erfitt að greina á milli radda mæðgnanna, þær hafa svipað orðfæri og þær tala formálalaust á víxl, en höfundur hefur gert ráðstafanir með því að leggja áherslu á aðgreinandi aðstæður og eigindir. Brá er tölvuleikjaspilari að atvinnu, og það hefur áhrif á verkið: lýsingar og þrautir svipa til viðmóts tölvuleikja, sérstaklega í bardagaatriðum sem eru ófá.  Fyrri bókin, Víghólar, naut mikilla vinsælda og er væntanleg í formi sjónvarpsþátta, Sólhvörf er ekki minna sjónræn og auðvelt að ímynda sér að hún fari sömu leið. Eins og þessi bardagalýsing ber vitni um:

Þetta viðurstyggilega gerpi missir andann, hóstar upp blóði og starir trylltum augum á mig, en hleypir svo brúnum þegar hann áttar sig á því að hann er að deyja og andlitið breytist i eitt stórt spurningarmerki. Hann fellur ofan á mig, fætur og hendur kippast til og ég sé oddinn á rýtingnum stingast út í gegnum larfana á bakinu. (235)

Höfundur blandar sem fyrr saman hversdagslegum lýsingum á íslenskum veruleika og ævintýralegum lýsingum á öðrum víddum. Þannig fylgjum við hetjunum okkar bæði á Serrano‘s og á fund álfa og dverga.

Verkið speglar ágætlega íslenskan veruleika, þar sem almenningur þarf að endurskoða og -hugsa rótgrónar hugmyndir og það á miklum ólgutímum þar sem hver heimsenda-fyrirsögnin eltir aðra. Í verkinu er það sjálf alþýðutrúin sem er undir, saklaus hjátrú sem stunduð er til hátíðarbrigða, en er í raun stórhættuleg og þá sérstaklega börnum.

Bókin fjallar líka öðrum þræði um fíkn og við kynnumst mismunandi birtingarmyndum hennar, hvort sem það er vinnu-, tölvu- eða vímuefnafíkn. Og í ringulreið fíknar og heimaflakks hittum við fyrir þessar mæðgur sem virðast fjarlægjast hvor aðra jafnóðum og þær nálgast. Brá upplifir miklar breytingar á sjálfri sér og gáfu sinni og þessari sögu er augsýnilega ekki lokið þegar við kveðjum þær mæðgur í bókarlok.

En slíkar pælingar þurfa samt ekkert að þvælast fyrir lesendum sem geta vel lesið þessa fjörugu sögu án þess að velta fyrir sér uppgjörum við gamalgrónar hugmyndir eða fíknivanda.

Rósa María Hjörvar, desember 2017