Stormsker

Höfundur: 
Ár: 
2018
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið

Stormsker – fólkið sem fangaði vindinn eftir Birki Blæ Ingólfsson hlaut Íslensku barnabókaverðlaunanna í ár. Áður hefur Birkir gefið út efni hjá Partusi en þetta er fyrsta skáldsaga hans í fullri lengd og það er óhætt að segja að þetta sé höfundur sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.

Stormsker er ævintýri – unga hetjan þarf að sigra illmennið og vinna hjarta prinsessunnar um leið og hann bjargar heiminum. Þetta er líka dæmisaga – og sem slík hefur hún boðskap Boðskapur er yfirleitt óheppilegur í barnabókmenntum en því er þó öðruvísi farið með dæmisögur sem reyna alls ekki að fela boðskap sinn heldur halda honum þvert á móti á lofti. Í Stormskeri þarf hetjan að skilja að græðgi mannsins er að tortíma honum sjálfum og jörðinni og einng að (öfugt við það sem flestir halda) er til alveg nóg af tíma – spurningin er bara hvað fólk gerir við hann. En það er ekki nóg að hetjan skilji þetta sjálf – hún verður að koma öllum heiminum í skilning um það líka.

Sögusviðið er ónefnd lítil eyja norður í hafi þar sem vindar blása alla daga. Þar býr hinn tólf ára gamli Ópus ásamt móður sinni í lítilli blokkaríbúð. Móðir Ópusar þarf að vinna tvær vinnur til að ná endum saman og hann sér hana þar af leiðandi lítið og saknar hennar mikið. Kvöld eitt þegar hann er sem oftar einn heima, berst litskrúðugt hitabeltisfiðrildi inn um þakgluggann hjá honum með vindinum og þar með hefst ævintýrið. Vindurinn reynist lifandi og getur tjáð sig og með hjálp gamla veðurfræðingsins Súsönnu skilst Ópusi að hann sé útvalinn af vindinum til að bjarga jörðinni. Forstjóri stórfyrirtækisins Stormskers hefur nefnilega fundið upp leið til að hægja á snúningi jarðarinnar og fjölga þannig fleiri klukkutímunum í sólarhringnum. Þar rætist langþráður draumur allra fullorðinna og fyrir hann er heimsbyggðin tilbúin að greiða stórar fjárhæðir. En svo merkilegt sem kann að virðast þá virðist þrátt fyrir það samt aldrei vera meiri tími til að eyða með börnunum, þess í stað þarf að vinna enn meira. Á meðan snýst jörðin hægt og rólega af sporbaug sínum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir alla.

Stíll Birkis er á köflum örlítið flatur og hættir honum til að útskýra eða endurtaka óþarflega mikið. Þá er persónusköpun nokkuð ábótavant og sérstaklega hefði mátt vera skarpari blæbrigðamunur á tali fólks. Foreldrarnir hljóma allir eins, reiðir og þreyttir og aðalsöguhetjurnar Ópus og Fífa hljóma líka svipuð – það er helst að Árni bekkjarfélagi þeirra tali öðruvísi framan af þar sem hann er alltaf andstyggilegur! Súsanna gamla stendur gjarnan „teinrétt“ og augun „skjóta gneistum“ en einnig þar hefði verið gott að fá meira kjöt á beinin. En raunar mætti færa rök fyrir því að Ópus eigi að vera örlítið óspennandi persóna,   aðalsöguhetjur í miklum ævintýrum eru það gjarnan svo auðveldara sé að fyrir lesendur að spegla sig í þeim.  Enda skilur Ópus ekki af hverju hann er útvalinn – af hverju ekki frekar Fífa sem er (að hans mati) miklu klárari og hugrakkari en hann sjálfur. En þar liggur hundurinn grafinn og Súsanna útskýrir fyrir drengnum: „Maður þarf ekki að vera neitt sérstakur til að eiga mikilvægt hlutverk fyrir höndum. Það er enginn annaðhvort útvalinn eða ekki […] Það er svo undir þér sjálfum komið hvort þín bíður mikilvægt hlutverk eða ekki.“  (bls. 150) Hins vegar hefði persónugalleríið í kringum Ópus að ósekju mátt vera fjölskrúðugra og áhugaverðara. Tvær persónur skera sig raunar úr og eru afskaplega skemmtilegar; áðurnefnt hitabeltisfiðrildi og litli kólíbrífuglinn Karabía sem eru upphafið að ævintýrinu hjá Ópusi og fylgja honum þar til yfir lýkur. Þau eru bæði óvenjuleg og vel útfærð og reynast ótrúlega úrræðagóð á ögurstundu.

Höfundi tekst hins vegar afskaplega vel að skapa spennandi og frumlega atburðarás. Hér er engum að treysta, öll eyjan er undir hælnum á forstjóra hins illa stórfyrirtækis og ekki má styggja hann þegar íbúar landsins eiga skyndilega allt sitt undir honum. Barátta barnanna og Súsönnu gömlu við hinn brosmilda og grimma forstjóra er æsispennandi,  svo spennandi að undirrituð samþykkti fúslega að lesa „einn kafla í viðbót“ fyrir tæplega sjö ára hlustanda þótt löngu væri komið fram yfir háttatíma.

Hugmyndin um risastóru seglin sem fanga vindinn og skelfilegar afleiðingar þess er sannfærandi og vel útfærð. Hér verður til skemmtileg blanda af goðsögu og vísindaskáldskap með sterkar rætur í raunveruleikanum. Á köflum verður vindurinn raunar eins og guð sem þarf að friðþægja eða að öðrum kosti mæta reiði hans, en mögulega má lesa úr því að mennirnir skyldu aldrei falla í þá gildru að telja sig húsbónda náttúrunnar. Þá er hugmyndin um að fólk geti borgað fyrir fleiri klukkutíma í sólarhringnum ekkert minna en snilldarleg og eitthvað sem flestir fullorðnir tengja skuggalega vel við. Þótt söguröddin fordæmi endalausa græðgi mannsins er þó skilningur á þeim muni sem felst í því að móðir Ópusar hafi lítinn tíma með honum af því hún berst í bökkum við að ná endum saman og svo þeim sem fá aldrei nóg. Það er alveg sama hvað fólk hefur mikinn tíma – ef ekki er staldrað við má alltof auðveldlega eyða honum öllum í vinnu í stað þess að verja honum með þeim sem eru raunverulega verðmætari en tími, peningar og völd – börnunum. 

Einhverjum kann að þykja heimurinn sem hér er skapaður heldur svart/hvítur með valdasjúkum forstjóra „ills“ stórfyrirtækisins sem er tilbúinn til að fórna öllu fyrir meiri völd og meiri gróða. En meðan fréttir af hlýnun jarðar, plastmengun í sjó, útdauða dýrategunda og loftmengunar eru eins og þær eru er afskaplega erfitt að atyrða höfund fyrir að taka stórt upp í sig. Það virðist vera hárrétt metið hjá honum að um líf og dauða sé að tefla og skæruliðasveit barna kannski okkar eina von.
 

Marianna Clara Lúthersdóttir, 2018