Svikaskáld

sítrónur og náttmyrkur
Ár: 
2019
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
hérna eru fjöllin blá
Ár: 
2019
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Blæbrigði vonarinnar

Svikaskáld er ljóðkvenna kollektív sem samanstendur af sex skáldum, en tvær þeirra Ragnheiður Harpa Leifsdóttir og Melkorka Ólafsdóttir hafa gefið út ljóðabók í fullri lengd nú í haust.

Bók Ragnheiðar Hörpu Leifsdóttur, Sítrónur og náttmyrkur, inniheldur 42 stutt ljóð og er skipt í þrjá hluta. Ljóðin hverfast um umbreytingar, bæði þær sem gætu orðið eins og í ljóðinu “Vernd“ þar sem stendur: „það er ekki of seint að ganga af stað í aðra átt“, en líka þær breytingar sem verða ekki eins og í ljóðinu „Systir“ þar sem ljóðmælandi segir; „Ég finn ekki leiðina að heiman.“ Þessi síðari játning er skemmtilegur snúningur á klisjunni um að finna leiðina heim, en það eru vissulega líka margir sem glíma við að finna leiðina að heiman. Stíllinn er knappur, lítið um lýsingar á umhverfi, stöku fjall eða kirkjugarður, en oftast er lesanda gert að fylla inn í eyðurnar. Þannig er það til að mynda í ljóðinu „Þegar allt breytist fyrirvaralaust“. Ljóðmælandi virðist vera staddur á strönd og svo segir:

lít upp og sé sjóndeildarhringinn

klofna í tvennt, snúast á hvolf

Við fáum engar frekari skýringar á þessari breytingu, upplifum bara þetta samhengislausa andartak hjá einhverjum sem upplifir eitthvað sem okkur er ókunnugt um. Ljóðlin eru lágstemmd og hlédræg, landslagið er Reykjavík innan borgarmarkana; Hólavallakirkjugarður, Landspítalinn og sjávarsíðan. Grænlandsjökull kemur fyrir í einu ljóði og stundum ferðast ljóðmælandi úr borgarumhverfinu út í geim, eins og þegar dauf ljósapera í risi verður að sól sem tortímist. Eins og áður sagði hverfast ljóðin um umbreytingar, hvernig þær birtast, hvað þær skilja eftir sig og þær sem urðu ekki. En þriðji hlutinn er helgaðar einni af stærstu umbreytingu sem kona getur orðið fyrir, barneign eða „líf fæðir af sér líf“ eins og stendur í ljóðinu „Sársauki“. Ragnheiður Harpa er sjálf nýorðin móðir og endurspegla ljóðin þá reynslu. Áhrifaríkast er ljóðið „Fæðing“, sem sýnir einnig hæfileika höfundar til þess að draga upp stórbrotna mynd í fáum orðum:

Þessa nótt

reis nýtt fjall

í landslagi sem ég þekkti

áður sem heima

Þegar vel tekst til eru ljóðin falleg og hafa einhvern einlægan mátt til þess að hrífa lesanda með sér inn í hugarheim ljóðmælanda. Titill verksins, Sítrónur og náttmyrkur er meðal annars vísun í ljóðið „Sítrónur í myrkrinu“ en þar eru sítrónur vegvísar í gegnum erfiðar aðstæður. Sítrónur eru í hefðbundnum skilningi oft notaðar sem tákn erfiðleika, en hér eru þar andstæður við náttmyrkrið og í raun litlar lýsandi sólir. Bók Ragnheiðar Hörpu er hugljúf og ljóðin einskonar tilfinninga stilli myndir.

Bók Melkorku Ólafsdóttur Hérna eru fjöllin blá er hreinskilin og ljóðin eins og hreyfingar. Þetta er fyrsta ljóðabók hennar í fullri lengd en hún hefur áður gefið út ljóðahefti og ljóð undir merkjum Svikaskálda. Melkorka er tónlistarmaður, og áhrif þess finnast greinilega. Ekki bara er áberandi taktur í ljóðunum heldur þenur höfundur líka orðin og reynir stöðugt á þolmörk tungumálsins, beitir því eins og hljóðfæri.

Bókinni er skipt í fimm hluta og hefst fyrsti hluti á því sem mætti túlka sem  brotthvarf elskhugans. Eftir það er ljóðmælandi mikið ein í óreiðukenndum aðstæðum, en sólin birtist við og við. Í öðrum hluta tekst ljóðmælandi á við sjálfið og sjálfsmyndina, er stundum refur, stundum krabbadýr, draugahús eða köttur, eins og í ljóðinu „Hljómateppi“:

Stundum er ég köttur

margra lífa

lít um öxl og furða mig

á draugalestinni sem ég leiði

Í kjölfarið koma ljóð sem hverfast um missi og samveru, sorg og snjó. Í þeim birtist einstakur hæfileiki Melkorku til þess að draga fram sammannlega reynslu á nýjan og tæran hátt. Eins og í ljóðinu „Önd“ þar sem segir: „Ofankoman ítrekar stilluna“ og lýsir svo vel þeirri kyrrð sem stundum magnast upp í snjókomu en líka þeirri þögn sem magnast upp við áföll. Fjórði hluti nefnist mæður og fjallar ljóðmælandi um sambandið við móðurina og þær flækjur sem fylgja því. En þar er líka að finna ljóðið „Kapítal“ sem má kannski túlka sem samfélagsgagnrýni. Þar stendur:

Skerið af mér afleggjarana

svo ég tútni

svo ég fitni

svo ég beri ykkur mestan vöxt

Ljóðin í þessum hluta eru beitt, en bera líka vitni um einhverskonar uppgjöf með undirliggjandi reiði. Eins og í ljóðinu „Mót“, þar sem samlífi andapars er fylgt eftir og endar á vísun í að vefmiðlar fullyrði að konur séu hamingjusamari utan hjónabands.

Lokahluti verksins nefnist Skurn, og fjallar um allt það sem manneskjan gerir til þess að gera gagn og raungera draumana. Ljóðmælandi er þessi skurn, þessi himna á milli þess sem er og þess sem gæti orðið, og höfundi tekst á á ýmsan hátt að draga fram þetta samspil tilgangs og tilgangsleysis. Hér finnum við eitt fallegast ljóð verksins, „Bur“, þar sem ljóðmælandi íhugar það að eiga son og nefnir sjálfan sig; „dóttur aldalangra fórna“ og sýnir höfundur hér að hún er óhrædd við að takast á við háfleygar hugmyndir í ljóðagerð sinni. Náttúruminni eru fyrirferðamikil  en borgin er ávallt til staðar. Textinn er þétt ofinn textavenslum, eins og titill bókarinnar Hér eru fjöllin blá gefur til kynna. Fjarlægðin er orðin það mikil að fjöllin eru orðin blá. Við lestur þessara bókar birtist Melkorka lesanda sem þroskað og fjölhæft skáld sem hefur tök á að skapa texta sem fylgja manni löngu eftir að lestri er lokið.

Hér eru á ferðinni tvær mjög fallegar bækur gerðar af umhyggju og metnaði fyrir bæði ljóslist og bókaútgáfu. Bók Ragnheiðar Hörpu er falleg íhugun um Reykvískan raunveruleika nútímans á meðan Melkorka tekst á hreinskilin hátt á við hlutskipti kvenna í heimi væntinga og vonbrigða.

 

Rósa María Hjörvar, desember 2019