Truflanir í vetrarbrautinni

Ár: 
2004
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Einhverskonar reimleikar

Eitthvað dularfullt er á seyði í Reykjavíkurborg, og já, um landið allt. Það skiptast á litir og grámi, myrkur og ljós, hús og götur færa sig úr stað og yfirvöld, gatnamálastjóri og borgarstjóri, standa ráðþrota frammi fyrir þessum tínkeringum.

Prósar og ljóð Óskars Árna hafa alltaf borið í sér fræ fantasíunnar, um það vitna hækurnar um tindátana á háaloftinu einna best, en af mörgu er að taka í bókum hans. Þó hefur raunsæið alltaf verið ríkjandi, fantasían svona meira stef, eða tónn. En hér hefur hann snúið blaðinu við, ef svo má segja, nú er það fantasían sem er allsráðandi og raunsæið sem er leynigesturinn.

Bókin er í þremur hlutum og nefnist sá fyrsti "Umbreytingar". Þar fara strax merkilegir hlutir að gerast, við kynnumst æstri konu frá Sálarrannsóknarfélaginu sem er mikið í mun að koma af sér happadrættisvinningi, búðarmanni í París sem selur vindla: "reykurinn frá þeim er bókarsíða sem þú ert nýbúinn að lesa". Í þorpi einu er aðeins ein þvottasnúra og enginn er á ferli í miðbæ Reykjavíkur nema regndroparnir. Heimsendi kemur við sögu – þar er enginn viti – ósýnilegur maður birtist – eða ekki, hús syngja og ilmur breytist í minningar breytist í ljósbrot. Umbreytingar vissulega, fólk hefur hamskipti, þykkt ryklag leggst yfir samskipti fólks. Það er dálítið þungur taktur í þessum fyrsta kafla, þrátt fyrir mjög kómískar senur inni á milli, svona eins og hér sé eitthvað þungt að mjakast af stað, eitthvað óafturkræft að hefjast. Sem fer svo á flug í þriðja hlutanum "Skekkjur", en þar er tónninn allur léttari. Í einni örsögunni, "Gímaldið", er reyndar allt svo létt að það svífur uppávið – umbreytingarnar eru orðnar og nú er gaman. Þó er ógnin aldrei langt undan en í þessum hluta er samspil þessara tveggja þátta mun smartara og liðlegra en í fyrsta hlutanum. Hér eru sagðar sögur af því hvernig roði breyðist hægt yfir borgina, þetta veldur augnsjúkdómum og brengluðu fjarlægðaskyni. Þessi roði er þó ekkert á við grámann í titilsögunni "Truflanir í Vetrarbrautinni", en í honum verða heilu þorpin gagnsæ og hverfa. Í "Myrkva" hættir sólin að koma upp, fólk venst þessu og kona hengir upp jólaseríu í tré; "til að lýsa upp tilveruna". Tilveran er hinsvegar ansi ljós í annari sögu, en þar segir frá því "Þegar hætti að rigna". Og allt venst þetta ágætlega, þó á stundum, eins og áður sagði, fylgi þessu nokkur ógn.

Millikaflinn heitir "Möguleikar" og samanstendur af prósum með fyrirsögninni "Ég vildi vera..." Þó hér sé margt skrýtið og skemmtilegt þá er þessi kafli í heild veikastur og virkar ekki alveg nógu vel sem millilending milli hinna kaflanna, þó vissulega sé hugsunin í möguleikunum skiljanleg í öllum þessum skemmtilegu – og ókennilegu –skekkjum og umbreytingum.

Þannig er heildarútkoman alveg barasta ágæt og rúmlega það, Óskari Árna fer vel að bregða á leik, á stundum við skáldið Sjón og á stundum við Braga Ólafsson, en mér fannst ég sjá þá í svip þarna á stundum. Borgin lifnar við í textum Óskars, en þetta er líklega mesta Reykjavíkurborgarbók hans til þessa. Mér fannst ég hafa borgina í fanginu við lesturinn og fann hvernig hún var leir í höndum skáldsins – og lesandans, en hér fær lesandinn heilmikið hlutverk við að sjá fyrir sér og halda áfram með að föndra við þessa alveg nýju borg sem hann er skyndilega fluttur til.

Bókmenntafræðingar hafa löngum gert sér það að leik að leysa úr fantasíum, sjá fantasíuna sem einskonar lykilsögu, sem fjalli í raun um eitthvað allt annað en ævintýralega atburði. Þannig mætti túlka roðann og grámann sem pólitísk átök, flakk húsa og gatna sem hræringar í húsnæðislánamálum, almyrkva og linnulausan bláma sem komment á geðheilsu landans... En mér finnast þessir leikir með lykilinn að fantasíunni óttalega lítið skemmtilegir. Þó Susan Sontag hafi ekki beint haft fantasíuna í huga þegar hún skrifaði fræga grein ''gegn túlkunum'', þá finnst mér alltaf ástæða til að hafa varnaðarorð hennar í huga og vara við oftúlkunum þegar kemur að fantasíum. Þetta þýðir ekki, og það þarf að ítreka, að ekki megi sjá þessa þjóðfélagslegu fleti í sögum Óskars Árna, heldur fyrst og fremst að það má ekki láta hið félagslega raunsæi yfirtaka fantasíuna, leikinn og ævintýrið. Mér finnst gaman að velta fyrir mér þessum praktísku víddum þegar ég mjatla sögurnar í mig, en ég vil ekki skipta þeim út fyrir furðurnar og undrin.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2004