Undirferli

Undirferli: yfirheyrsla
Ár: 
2017
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Undirferli

Í nýrri skáldsögu Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur, Undirferli: yfirheyrsla, segir frá veirufræðingnum Írisi, sem hefur fengið það verkefni að rannsaka áður óþekkta veiru sem fundist hefur í ósnortinni náttúru Surtseyjar. Til að aðstoða sig fær hún æskuvininn Smára, sem er eðlisfræðingur og hefur gert tilraunir með að hanna mælitæki til þess að mæla manneskjur, ætlanir þeirra og manngæsku. Íris nefnir að Smári hafi alla tíð verið upptekinn af þessum fræðum og lýsir því hvernig hann hafi „bankað í barometer ömmu minnar á hverjum morgni í þeirri trú að loftvogin myndi segja mér eitthvað mikilvægt um lífið.“ (22)

Samband Írisar og Smára er eins og gefur að skilja mjög náið og endurfundir þeirra vekja afbrýðisemi hjá Aroni, fyrrum eiginmanni Írisar, sem einnig vinnur við verkefnið. Það hrindir af stað atburðarrás sem felur í sér bæði lögreglurannsókn, alþjóðleg orkufyrirtæki og forna galdra.

Hvað er á bakvið vísindin? Saga Undirferla er dulræn frásögn sem sviptir hulunni af þekkingarleysi okkar. Eins og því er lýst í bókinni hefur mannkynið byggt sér upp skýringakerfi sem það treystir á til þess skilja heiminn en vísindin geta aðeins að litlu leyti útskýrt allt það sem mestu máli skiptir og það sem mótar mannlegt líf. Verkið hafnar hugmyndum um að það sé hægt að hólfa tilvistina af og til sé hlutlaust rými vísinda þar sem annarlegum tilfinningum og kenndum sé úthýst. Veirufræðingurinn Íris útskýrir: „Margar vísindatilraunir eru unnar af fagþekkingu í bland við sterkt innsæi, þannig hafa mestu framfarir mannkyns orðið.“ (96) Og þegar á líður falla vígi vísindanna eitt af öðru þangað til sjálf lögmál eðlisfræðinnar leysast upp.

Sagan lýsir mannlegum samskiptum á frumlegan hátt með augum vísindamannsins. Íris veit hvernig veirur brjóta sér leið inn í frumur og lýsir því af mikilli nákvæmni: „Aðrar veirur nudda sér utan í frumuhimnuna og koma sér í mjúkinn þar til fruman veit ekki lengur hvað er hvað og telur veiruna ekki lengur vera utanaðkomandi heldur hluta af sjálfri sér.“ En hún hefur ekki aðgang að sambærilegum rannsóknum á mannlegu eðli. Það er vettvangur Smára og er hann þar í algjörri andstöðu við hugmyndir og heimssýn Arons sem virðist mest upptekin af eigin stöðu og veraldlegum gæðum.

Í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni í desember síðastliðnum sagðist Oddný skrifa „um fólk sem á það sameiginlegt að reyna að finna út einhvern mælikvarða á lífið og gjörðir okkar.“ Þessi leit leiðir af sér ýmsar tengingar þvert á líffræði, náttúru og hegðun fólks.

Náttúran og náttúruvernd eru fyrirferðamikil í þessari skáldsögu Oddnýjar líkt og fyrri bókum hennar. Surtsey verður einhverskonar táknmynd þess ósnerta bæði í manninum og náttúrunni, þess sem við erum kannski alltaf gjörn að gera tilraunir með og ófeimin við að glata. Þannig fjallar bókin líka um ofbeldi, græðgi og yfirgang og hversu berskjölduð við eru gagnvart slíku rétt eins og veirusýkingunum.

Verkið er fallega skrifað, textinn næmur, hugljúfur og hógvær, en laus við væmni. Það eru hreinskiptar og beinskeyttar lýsingar á atferli okkar og ekkert dregið undan. Bókin er samt alveg í stysta lagi. Höfundur teiknar upp umfangsmikla frásögn sem snertir mannlega tilvist og teygir anga sína bæði aftur í fornöld og út í alþjóðaviðskipti nútímans. Þetta er táknsaga og það væri jafnvel hægt að skilgreina verkið sem skáldverk þar sem lýst er hvernig náttúruöflin birtast í örlögum manna en jafnframt hvernig örlög mannanna hafa áhrif á náttúruöflin. Þetta er því eins og gefur að skilja, stór frásögn í mjög knappri mynd. Heimspekilegar vangaveltur, pælingar um eðli mannsins og ástarinnar fanga frekar athygli lesandans en persónurnar sjálfar sem verka stundum eins og leikmunir frekar en heilsteyptar manneskjur. Aron, fyrrverandi eiginmaður Írisar, er til að mynda alveg ofsalega vondur maður. Á einum stað segir: „Góður díll er gulli betri, segir Aron oft, hann elskar að gera góða díla. En í raun eru þeir alltaf slæmir. Svona í stóra samhenginu.“ (107) Hann er algjör skúrkur, birtingarmynd eigingirni og græðgi. En slík persónusköpun er einmitt einkennandi fyrir táknsögur. Það er því erfitt að mynda samband við persónurnar en eftir situr hjá lesanda tilfinning um jarðlíf á ystu nöf, á barmi harmfara sem virðast óumflýjanlegar.

Rósa María Hjörvar, desember 2017