Upp á líf og dauða

Ár: 
2011
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Upp á líf og dauða

Hvað gerir maður ef maður finnur mjög sorglegt ljóð í blaðarusli eftir verkefnavinnu með bekkjarfélögunum? Ef tilfinningarnar sem er lýst í ljóðinu eru áberandi vonleysislegar og birta mikla vanlíðan hlýtur manni að bera skylda til að finna þann sem skrifaði ljóðið og hjálpa honum, eða hvað? Og hvernig kemur maður einhverjum til hjálpar þegar maður veit ekki einu sinni hver það er? Í Upp á líf og dauða er tekið á þunglyndi og sjálfsvígshugsunum og því hvernig ekki er alltaf hægt að sjá utan á fólki hvernig því líður, alvarlegum málefnum sem snerta líf og hugsanir margra unglinga.

Aðalpersóna sögunnar er Hrönn, hún er í fyrsta bekk í menntó og hefur í fyrsta sinn á ævinni ákveðið að vera sjálfstæð og fara ekki í sama bekk og Hákon tvíburabróðir hennar. Hún kemst þó fljótt að því að það er ekki alltaf auðvelt að standa á eigin fótum, hvað þá þegar upp koma aðstæður sem maður veit ekki hvernig maður á að ráða fram úr. 

Nokkrir bekkjarfélagar Hrannar koma heim til hennar til að vinna hópverkefni, en þegar allir eru farnir finnur hún áðurnefndan blaðsnepil, sem veldur henni miklu hugarangri.  Ljóðið er ekki bara sorglegt heldur beinlínis óhugnanlegt að hennar mati. Hrönn er sannfærð um að sá sem orti ljóðið sé mjög þunglyndur og jafnvel í hættu en hún hefur ekki hugmynd um eftir hvern af krökkunum í hópnum það gæti verið. Þar sem hún þekkir bekkjarfélaga sína ekki vel ennþá er engin leið fyrir hana að giska og eina leiðin til að finna skáldið virðist vera að kynnast krökkunum betur. Hún fær Líneyju vinkonu sína í lið með sér og seinna slæst Hákon einnig í hópinn. Hrönn og Líney gera sér markvisst far um að kynnast krökkunum sem koma til greina en aðferðir þeirra eru þó gjörólíkar. Líney hefur virkilegan áhuga á því sem bekkjarfélagarnir eru að fást við, en fyrir Hrönn vakir aðeins að finna skáldið til að geta hjálpað því. Hún veður áfram og skilur stundum eftir sig furðulostna bekkjarfélaga. Þrátt fyrir æðibunuganginn kemst Hrönn að því að útlit og framkoma geta blekkt og einnig geta eigin fordómar litað viðhorf manns til annarra. Eftir því sem hún kemst að meiru um krakkana áttar hún sig á því að hvert og eitt þeirra gæti verið bréfritarinn. Fólk getur virkað hamingjusamt, en í raun verið dapurt, og þeir sem virðast eiga erfiðast eru kannski bara ágætlega sáttir. 

Inn  í frásögnina af stelpunum og samskiptum þeirra við félaga Hrannar úr hópverkefninu er reglulega skotið köflum úr upplýsingabæklingi Landlæknisembættisins um sjálfsvíg. Efnið brýtur söguna upp en kallast samtímis á við það sem stelpurnar komast að um bekkjarfélaga Hrannar. Það sem þær lesa í bæklingnum bæði hjálpar þeim að leita og fær þær til að velta fyrir sér sálarflækjum unglinga og ástæðum þeirra.

Hrönn er ekki hefðbundin aðalpersóna sem kallar fram samúð lesanda. Hún er frekar uppáþrengjandi við bekkjarfélaga sína, óþolinmóð, hranaleg og mjög sjálfmiðuð. Hún virðist vera þó nokkuð áttavillt eftir að hafa ákveðið að draga úr sameiginlegu lífi hennar og bróður hennar og sveiflast á milli þess að vilja félagsskap, samveru og aðstoð við leitina og að treysta bara á sjálfa sig og vilja gera allt sjálf. Í sögulok stendur hún ennþá uppi ein og jafnvel enn frekar en áður því hún hefur ekki lagt sig fram um að kynnast neinum sérstaklega. Leit hennar að skáldinu hefur hins vegar leitt saman aðra sem áður voru einir.

Þrátt fyrir persónuleikabresti Hrannar (og kannski einmitt vegna þeirra) er þetta bók sem vekur til umhugsunar og gerir það á afar yfirvegaðan og vandaðan hátt. Hvernig á maður að vita hverjum líður illa? Hvað getur maður gert til að hjálpa þeim? Hvað ef viðkomandi vill ekki hjálp? Lesandanum verður óneitanlega ljóst hversu mikilvægt er að staldra aðeins við og hlusta, hvort sem það er á sjálfan sig eða fólkið í kring, og hversu mikilvægt er að dæma fólk ekki eftir yfirborðinu. Umfjöllunarefnið er eins og áður sagði bæði alvarlegt og vandmeðfarið en hér er unnið með það á mjög skilningsríkan og skiljanlegan hátt. Skilaboðin eru skýr og það er gott því allt of algengt er að skilaboð til ungs fólks séu misvísandi og geri lítið til að hjálpa þeim að fóta sig í lífinu.

María Bjarkadóttir, desember 2011.