Vetrarsól

Ár: 
2008
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Á tjá og tundri

Glæpasagan er meðal viðfangsefna skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Vetrarsól. Jólin nálgast og sögukonan Sunna starfar á litlu forlagi sem allrahandamanneskja, sem meðal annars þarf að selja heimspekilegar barnabækur í stórmarkaði og sjá um glæpasagnanámskeið í tilefni af útkomu nýrrar bókar eftir íslenskan höfund sem hlotið hefur alþjóðlega frægð fyrir sögur sínar. Af námskeiðinu lærum við að sögur sem fjalla um glæpi eru ekki endilega allar glæpasögur og svo er um Vetrarsól, því þar eru glæpir en sagan er þó ekki glæpasaga.

Vetrarsól er fimmta skáldsaga Auðar fyrir fullorðna og fylgir í kjölfarið á tveimur geysisterkum verkum, Fólkinu í kjallaranum og Tryggðarpanti. Það verður að segjast strax að þessi nýja bók stendur þessum að baki, það vantar hér eitthvað uppá þá ögun og það stranga utanumhald sem einkennir hinar sögurnar tvær, sem eru báðar ótrúlega þétt og sterk verk. Hér er meiri óreiða, enda rímar það ágætlega við þá óreiðu sem ríkir í lífi Sunnu og einnig má segja að hér fái húmor Auðar að njóta sín betur, en sagan er skemmtileg aflestrar, pínleg og leikandi til skiptis eftir því í hvaða ógöngur stúlkan kemur sér.

Sunna er 32 ára og líf hennar er í dálítilli óreiðu. Sambýlismaðurinn Axel er veðurtepptur úti á landi að sinna óljósu fyrirtæki meðan hún þarf að sinna tíu ára gömlum syni hans, en honum hefur hún aldrei aðmennilega kynnst. Ofaná hin ýmsu verkefni vinnunnar les hún um hvarf gamallar vinkonu sinnar og rifjar upp tíma þeirra saman í Barcelona, þar sem þær stunduðu báðar nám fyrir tíu árum. (Það er ákaflega eftirtektarvert að bera saman þær ólíku myndir af Barcelona sem birtast í bókum Auðar og Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, en það væri efni í annan pistil.) Inní söguna blandast svo samband Sunnu við móður sína, einstæða verkakonu og minnir sá hluti nokkuð á fyrstu bók Auðar, Stjórnlausa lukku, en sú bók fjallaði á nokkuð áhugaverðan hátt um mæðgnasamband útfrá kynslóðaskiptum. Sá samanburður gefur reyndar einnig ánægjulega innsýn í feril höfundarins, hér eru tökin mun áhrifameiri og átakanlegri.

Í kjölfar glæpasagnanámskeiðsins hvetja stjúpsonurinn og móðirin Sunnu til að rannsaka hvarf vinkonunnar sem hún og gerir með nokkuð skrautlegum afleiðingum. Inní það mál blandast síðan frægur og dauður fyrrum eiginmaður týndu vinkonunnar, en sá starfaði fyrir fyrirtæki sem hafði á sér vafasamt orð fyrir stofnfrumurannsóknir og líffæraflutninga í þróunarlöndum. Að auki kemur við sögu minning Sunnu um aðra vinkonu frá Barcelona, Fatímu frá Marokkó. Og svo elta hana þrír grunsamlegir, hörundsdökkir menn. Og mitt í öllu þessu er Sunna að reyna að ná taki á lífi sínu, sambandinu við sambýlismanninn og móðurina, rithöfundinn fræga og svo auðvitað að ná endum saman í fjármálum. Fleira mætti týna til, eins og til dæmis landsbyggða-framkvæmdir vinkonunnar og eiginmannsins, og það er kannski þar sem gallinn liggur, hér er of miklu af efni þjappað saman í of stutta sögu. Kannski er það meiningin - að því leyti að sagan er að einhverju leyti paródía á glæpasögu - en ef svo er þá hefðu tökin þurft að vera sterkari. En, einsog áður sagði þá kemur þetta ekki í veg fyrir að Vetrarsól sé bráðskemmtileg bók sem þjónar hlutverki sínu sem ljós í myrkrinu dável.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008