Við kvikuna: Örsögur frá Rómönsku-Ameríku

við kvikuna
Ár: 
2020
Flokkur: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Stór heimur lítilla sagna

Við kvikuna er gefin út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfunni  og er hluti af ritröðinni Einmála. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hefur frá upphafi sett sér metnaðarfull markmið í útgáfu og er þetta verk engin undantekning, en í því er að finna úrval örsagna helstu höfunda Rómönsku-Ameríku í þýðingu Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur ásamt fræðilegum inngangi þýðanda. Verkinu er ritstýrt af Ásdísi R. Magnúsdóttur. Í bókinni er að finna 156 örsögur frá 49 höfundum sem margir hverjir hafa ekki verið þýddir á íslensku áður.

 

Örsagan er eins og þýðandi bendir á bæði gamalt og nýtt bókmenntaform. Mannkynssagan hefur boðið upp á ótal tilefni til þess að höfundar beiti sér í stuttu máli og þó að hugtök og skilgreiningar á örsögunni sem slíkri geti verið nokkuð á reiki er engin vafi á að það hafa alltaf verið einhverskonar örsögur til.

 

Örsagan hefur mikla sérstöðu í Rómönsku-Ameríku. Þó að hún sé auðvitað alþjóðlegt fyrirbæri er eitthvað sem gerir það að verkum að hún nær mikilli fótfestu þar og verður vettvangur fyrir einhver helstu skáld þessa heimshluta. Eins og Kristín Guðrún bendir á er aðeins þriðjungur höfunda í safninu kvenkyns og telur hún það vera dæmi um karllæga bókmenntahefð þar sem konur voru lengi útilokaðar frá þátttöku.

 

Í inngangi er vitnað í höfundinn Ana María Shua sem segir:

 

stórt land örsagna vera umlukið mörgum löndum. Aðeins eitt þeirra er aðgreint með náttúrulegum mörkum, fljóti eða fjallgarði. Það er land smásagna í norðri. Þannig eru mörkin milli smásagna og örsagna skýr. Suðrið er heimkynni skrítlunnar; í austri eru víðáttumiklar gresjur hugleiðinga, heilræða og siðaboðskapar og afór­isma sem eiga það til að vera tilbreytingarlausir; í vestri er hið síbreytilega og ægifagra land ljóða. (28)

Þessi lýsing á örsögunni er einstaklega vel valin, bæði vegna þess hversu vel hún lýsir stöðu hennar, en líka vegna þess hversu vel lýsingin sjálf fellur að algengu þema í verkinu; kortlagningu og skilgreiningu fyrirbæra. Það er ekki skrýtið að þessi hluti heims sem á sér svo ríka nýlendu og eftirlendusögu sé upptekin af þemum sem flokkast undir arkív. Arkívið er eitt helsta einkenni heimsveldisins og niðurrif þess eitt af aðalsmerkjum frelsisbaráttu nýlendna. Þörf evrópskra landkönnuða til þess að skrá allt og skipuleggja blandast i Rómönsku-Ameríku við ótal önnur þjóðarbrot, trúarbrögð og hefðir í löndum sem hafa glímt við að skilgreina landamæri sín og menningu undanfarin 150 ár.

Það kemur því ekki á óvart að kortlagning og arkív séu algeng þemu í örsögunum. Við þekkjum vel leik argentíska höfundsins Jorge Luis Borges af arkívum sem mynda heilu völundarhúsin af þekkingu. Í þessu safni finnum við tvær örsögur eftir Borges sem snerta á skrásetningu og landamærum, annarsvegar hugleiðingar um landamærin milli Don Kíkóta og Cervantes (77) og hinsvegar söguna „Argumentum ornithologicum“ þar sem því er haldið fram að viti maður nákvæma tölu á fuglum í ímynduðum fuglaskara geti maður sannað tilvist Guðs.

En þema kortlagningar og skrásetningar fyrirfinnst líka í sögum eins og „Harmsaga“ eftir Vicente Huidobro frá Chile. En þar dregur aðalpersónan María Olga skörp landamæri á milli þess að vera María og að vera Olga, önnur er manni sínum trú – hin á sér elskhuga. Fyrir Maríu Olgu er þetta eðlileg afleiðing þess að vera skírð tveimur nöfnum. Þegar eiginmaðurinn svo skýtur hana verður honum það á að drepa eingöngu Maríu og Olga lifir af í örmum elskhugans (49).

Rými draumsins er dæmi um stað þar sem erfitt er að viðhalda landamærum og er þannig tilvalin til þess að leika sér að mörkum, við sjáum það í þessu verki í annarri sögu eftir Borges sem heitir einmitt „Draumur“(80). Þar hringsnýst textinn í höndum manna sem skrifa ljóð hver um annan allir í hringlaga gluggalausum turnum. Sömu viðfangsefni er að finna í „Draumur um sögu“ eftir Álvaro Menen Desleal frá El Salvadór þar sem segir:

 … og fyrst mig dreymdi að ég hefði skrifað þessa sögu, mun þá þann sem nú les hana einfaldlega dreyma að hann sé ekki að lesa hana? (90)

Þessi tilraun til þess að fanga draumheim með einhverskonar röklegri hugsun speglar afdrif nýlendustefnunnar í Rómönsku-Ameríku þar sem fastmótaðar hugmyndir heimsveldisins um heiminn hafa orðið síkvikar og þurft að taka sífelldum breytingum. Í því samhengi er áhugavert að velta fyrir sér hvernig á því stendur að svo margir höfundar Rómönsku-Ameríku hafi valið að nálgast menningu sína með jafn knöppum og brotakenndum hætti og raun ber vitni.

En þó að gaman sé að velta fyrir sér hlutverki og menningarlegri stöðu þessa bókmenntaforms er kjarni málsins að örsagan er skemmtilegt og aðgengilegt form og hefur líklega aldrei átt meiri rétt á sér en í hröðu nútímasamfélagi okkar. Bókin inniheldur sögur frá lokum nítjándu aldar til dagsins í dag og spannar þannig ótal tímabil og bókmenntahefðir. Sumar gefa manni augnabliks innsýn í nöturlegan raunveruleika eins og sagan „Og af hugrekki“ eftir Eduardo Galeano frá Úrúgvæ sem segir frá vændiskonu sem horfir aldrei í augu kónana:

– Veistu, sko, þegar ég er í rúminu, horfi ég aldrei í augun á mönnunum. Ég vinn með lokuð augu. Ef ég horfi í þau verð ég blind, skilurðu? (140)

Hið knappa form gefur höfundum tilefni til þess að vísa hvor í annan og í bókmenntahefðina eins og Kristín Guðrún bendir á og mikið er um vísanir í höfunda á borð við Hómer, Cervantes og Kafka. Þá er húmorinn líka í fyrir rúmi eins og sést á þessari örsögu eftir Edmundo Valadés frá Mexíkó sem nefnist „Leitin“:

Þessar brjáluðu sírenur sem æða um borgina og væla í leit sinni að Ódysseifi. (100)

Bókin er einstaklega skemmtileg og vel unnin og hægt að lesa hana á margvíslegan hátt. Hún er vel til þess fallin að gefa lesendum leið inn í bókmenntasögu Rómönsku-Ameríku og innblástur til þess að kynna sér einstaka höfunda betur. Vonandi er þetta aðeins upphafið af því að íslenskir lesendur fái að njóta þeirrar miklu bókmenningu sem þessi heimshluti hefur upp á að bjóða. Það er þannig full ástæða til þess að óska aðstandendum verksins til hamingju með fallega bók sem sómar sér vel á náttborði allra bókaunnenda.