Víghólar

Víghólar eftir Emil Hjörvar Petersen
Ár: 
2016
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Víghólar

Emil Hjörvar Petersen kom fyrst fram á sjónarsviðið með ljóðabókina  Gárungagap (2007) og ári seinna kom Refur (2008).  Hann hefur einnig gefið út  þríleikinn Sögu eftirlifenda , sem samanstendur af bókunum Höður og Baldur (2010), Heljarþröm (2012) og Níðhöggur (2014).

Víghólar er ríflega 400 blaðsíðna skáldsaga sem blandar saman fantasíu og hefðbundinni glæpasögu með norrænu ívafi. Við kynnumst huldumiðlinum Bergrúnu Búadóttur, sem hefur verið verkefnalaus lengi og því átt erfitt með að greiða húsaleigu og láta laga gleraugun, sem hún hefur límt saman með teipi. Hér mætir norrænn raunveruleiki lesandanum, blokkaríbúðin, harkið og afleiðingar hjónaskilnaðar. Bergrún á í erfiðu sambandi við dóttur sína, Brá, en hún er tvítug og við það að falla á mætingu í MH.

En Brá er einmitt stödd hjá móður sinni þegar hún er kölluð út í verkefni fyrir lögregluna við Víghóla í Kópavogi, þar sem skemmdir hafa verið unnar á vélum í námunda við huldubyggð og skera þarf úr um hvers vegna, sökum trygginga. Bergrún tekur verkefninu fegins hendi í von um að geta gert upp húsaleiguskuldina og Brá fær að fljóta með. Málið er þó mun umfangsmeira en Bergrúnu grunar, það eru lík við hólinn og eitthvað grunsamlegt á seyði sem tengist þeim 14 víghólum sem staðsettir eru umhverfis landið.

Framvindan er ör og lesanda er kippt með í hættuför um bæði hulduheima og mannheim.  Við hittum tröll, tröllaveiðara, svartálfa, vætti og skrímslafræðinga, og hólar og klettar opnast til að sýna okkur hulda heima.

Það þarf að miðla miklum upplýsingum til lesenda í upphafi bókarinnar svo forsendur hennar séu skýrar en það bitnar á stílnum og hann er eilítið óþjáll í upphafi. En hann tekur fljótt við sér og verður leikandi og hraður. Þrátt fyrir rúmar 400 blaðsíður er verkið í raun stutt, það er ekkert verið að tvínóna við lýsingar, það er farið hratt yfir og þannig verður frásögnin bæði lifandi og spennandi.  Við sjáum atburðarrásina á víxl frá sjónarhorni móður og dóttur og þessir tveir sögumenn gefa frásögninni aukna dýpt.

Emil Hjörvar nýtir sér vel hið klassíska form  spæjarasögunar. Bergrún tekur málin í sínar eigin hendur þegar hún rekur sig á verkferla og reglugerðir  lögreglunnar.  Eins og svo margir aðrir rannsakendur í bókmenntasögunni fær hún litla aðstoð frá stjórnvöldum og þarf oft að fara huldu höfði í óþökk yfirvalda.  „Ef  lögreglan krukkar í málið núna væri hætta á að  það færi í rangan farveg, ég fengi þá aldrei nein skýr svör“ (bls. 127)

Höfundur vinnur skemmtilega með þjóðararfinn,  sögur af álfum og vættum. Hann er uppfærður í takt við væntingar nútímalesenda en þó alltaf kunnulegur. Höfundur tekur rökréttar afleiðingar af meintri álfatrú Íslendinga og gerir ráð fyrir henni í stjórnsýslunni, með stofnunum líkt og Vættavörnum Ríkisins og sérstakri deild  hjá lögreglu sem sér um huldumál. Sú síðarnefnda glímir við fjársvelti: „Eftir að Guðfinna tók við sem yfirmaður rannsóknardeildarinnar minnkuðu sem sagt fjárveitingar til huldumála smám saman, allt þar til deildin leystist upp.“ (bls. 78)

Þannig vinnur Emil Hjörvar jafnhendis með hulduheima og raunveruleikann eins og hann birtist okkur árið 2016. Bókin tekur fyrir einkavæðingu, hælisleitendur og virkjanaframkvæmdir, en á allt annan hátt en við höfum átt að venjast.

Í Bergrúnu kynnumst við líka útivinnandi móður sem hefur mikinn faglegan metnað og ástríðu fyrir starfi sínu. Hún lýsir því einna best þegar henni býðst að velja á milli mann- og hulduheima og þrátt fyrir að hennar sé beðið með eftirvæntingu í mannheimum íhugar hún hinn kostinn: „Dveljast þar, hafa samskipti við álfa og huldufólk , verið meðal vætta og skilið þá betur, reynt að fá svör við öllum þeim spurningum sem hafa svo lengi brunnið á mér.“ (bls. 54)  Áhugi hennar á starfinu hefur ekki einungis einangrað hana félagslega, heldur einnig skaðað samband mæðgnanna. Staðreyndin er sú að huldumiðilinn Bergrún hefur, þegar lesandinn kynnist henni, lítinn félagsskap af öðru en skræðunum sínum. Og þó að þeir óvæntu atburðir sem hún og Brá hrífast með hristi þær saman er það ekki nóg til þess að vega upp á móti vonbrigðum tveggja áratuga. Þetta er eitt af meginþemum bókarinar, samband mæðra og barna; mæðra sem eru haldnar óvenjulegum ástríðum sem gefa ekki alltaf tóm fyrir akvæmi þeirra. Höfundur varpar ljósi á vandann frá ýmsum sjónarmiðum í gegnum huldumiðlana Bergrúnu, Aðalbjörgu og Hildigunni.

Í Víghólum tekst einstaklega vel að flétta saman sígildri spæjarasögu, norrænum raunveruleika og fantasíu. Bókin hefur verið flokkuð með unglingabókum og hentar ágætlega fyrir þann lesendahóp án þess þó að takmarkast við hann: hún er skemmtileg og spennandi fyrir lesendur á öllum aldri. Emil Hjörvar tekst að lífga við gamlar hefðir og barnatrú undir formmerkjum fantasíunar.  Við fáum góða innsýn í líf og tilveru aðalsöguhetjanna og fylgjumst með þeim takast á við erfiðar aðstæður og vaxa við það.  Það er því viðbúið að lesendur vilji fylgja þeim frekar eftir og í því ljósi er athyglisvert að bókinni lýkur á orðinu byrjun.

Rósa María Hjörvar, desember 2016