Zombie Iceland

Ár: 
2011
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Zombie Iceland

Það vildi svo skemmtilega til að um leið og ég las spánnýju bókina Zombie Iceland eftir spánnýju skáldkonuna Nönnu Árnadóttur, var ég að lesa öllu aldraðri skáldsögu eftir þekkt skáld, Jóhannes úr Kötlum; Dauðsmannsey frá árinu 1949. Ekki er nú beint hægt að segja að þessi verk séu lík, en þó fjalla bæði um landflótta og það hvernig þjóðin er að bugast undan afætum. Og titill sögu Jóhannesar á ákaflega vel við bók Nönnu.

Zombie Iceland er, eins og titillinn gefur til kynna, skrifuð á ensku, en höfundurinn hefur búið lengi erlendis og sagðist einfaldlega vera vanari að tjá sig á því máli - þó að hún stefndi á að flytja hingað til lands sem fyrst. Sagan er skilgetið afkvæmi þess zombíu-æðis sem hefur geisað í afþreyingariðnaðinum undanfarin ár, en zombíur hafa leikið lausum hala í kvikmyndum, sjónvarpi og myndasögum. Mögulega má sjá þessa vakningu zombíunnar sem mótvægi við þá rómantíseringu sem einkennt hefur skáldskap um vampýruna á sama tíma, en vampýran og zombían eru náskyldar að því leyti að báðar tegundir eru lifandi dauðar. Helsti munurinn liggur þó í því að vampýran er að einhverju leyti mennsk og heldur persónuleika sínum meðan zombían er gersamlega heillum horfin, lifandi dauður líkami sem hefur það eitt að markmiði að nærast á líkömum annarra, helst þeirra sem enn eru lifandi.

Zombían á sér heilmikla sögu sem ekki verður farið út í hér (sjá nánar um zombíur í grein minni „„Dauði! Maður er verðlaunaður með dauða”: Af ódauðum, hálfdauðum og lifandi dauðum eða bara almennt um doða og deyfð”, í Ritinu 3:2003), en segja má að sú útgáfa hennar sem liggur þessari bók til grundvallar hafi fyrst birst árið 1968 í kvikmynd Georges Romeros, Nótt hinna lifandi náa. Líkt og í þeirri kvikmynd byrjar zombíplágan í Zombie Iceland sem mengunarslys. Og líkt og í kvikmynd Romeros má sjá undirtóna pólitískrar ádeilu í sögu Nönnu, en slysið verður í nýbyggðri virkjun. Almennt séð er þó ekki verið að velta sér upp úr mikilli samfélagsgagnrýni þó vissulega búi sagan yfir skemmtilegri úttekt á Íslandi í dag.

Aðalpersónurnar eru systkinin Barbara, Jónsi og Lóa, en þau eru óvenjulega vel búin undir zombíplágu, þarsem slík hefur verið helsta áhugamál föður þeirra lengi. Þau eru því bæði vopnuð og vel vistuð, auk þess að hafa útbúið kjallaraherbergi sem byrgi. Það eina sem vantar eru lyf og því brjótast þau inn í apótek. Þar koma gallar þjálfunarinnar í ljós, því þrátt fyrir allt eru yngri systkinin bara unglingar og þarmeð vandræðagemsar. Sérstaklega þó Lóa, en hún er 16 ára og ekki sérlega fær í fínlegri hliðum samskipta - né þeim grófari, ef út í það er farið. Að auki er hún fullkomlega ábyrgðarlaus og því að öllu leyti ákaflega kunnugleg persóna úr hrollvekjum (og þó víðar væri leitað). Lóa freistast sumsé til að skjóta á zombíu sem dregur athygli zombíanna að hópnum og þau verða að leita í skjól í Melabúðinni, en þar eru þrír eftirlifendur og ein dauð zombía. Barbara, sem er öflug kvenhetja, tekur þetta fólk undir sinn verndarvæng og kemur öllu liðinu heim, en þar hefjast svo frekari flækjur.

Nönnu tekst á sannfærandi hátt að heimfæra zombípláguna yfir í íslenskan veruleika, en halda jafnframt alþjóðlegum einkennum, því sagan fylgir öllum formúlum samviskusamlega og nær þó að virka fersk. Fyrir utan að vera bráðskemmtileg er bókin líka áhugaverð sem innlegg í íslenskar bókmenntir og þá sérstaklega fyrir ungt fólk. Fyrir það fyrsta er eftirtektarvert að sagan er gefin út á ensku og engum virðist hafa dottið í hug að láta þýða hana á íslensku, fyrst höfundur veigrar sér við að skrifa á því máli. Þvert á móti er það að bókin er á ensku nýtt til hins ítrasta því í fótnótum er að finna ýmsar skýringar á séríslenskum fyrirbærum og virkar sagan því að hluta sem einskonar Íslandskynning. Þessar skýringar eru afar hversdagslegar (skyr, lopapeysa, pylsur, sundlaugar) og mynda því áhugaverða andstæðu við ævintýralegan söguþráðinn. Ennfremur er kafli sem lýsir færslum á fésbókinni, fyrstu 24 stundirnar. Prentunin fylgir svo þessum „netstíl”, með bili á milli efnisgreina.

Í það heila tekið er þetta verkefni vel heppnað og þó að ég hafi pirrað mig aðeins á frágangi þá náði skortur á yfirlestri og stöku smáorði, að ekki sé talað um rangt staðsett tilvísunarnúmer, ekki að skyggja á þá einlægu skemmtun sem ég hafði af uppátækjum zombía og eftirlifenda.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2011