Beint í efni

Innflytjandinn

Innflytjandinn
Höfundur
Ólafur Jóhann Ólafsson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Innflytjandi finnst látinn úti í Örfirisey á dimmum og köldum febrúardegi. Um sömu helgi verða landsmenn helteknir af hvarfi ungrar, íslenskrar stúlku sem gufar sporlaust upp í myrkrinu, snjónum og ófærðinni.

Hildur Haraldsdóttir sem búið hefur í New York um árabil kemur til Íslands með jarðneskar leifar vinar síns til að uppfylla hans hinstu ósk. Hún hefur þýtt Kóraninn á íslensku og leitar lögreglan ráða hjá henni í tengslum við lát innflytjandans. Sjálf á hún undir högg að sækja vestan hafs og sogast nú að auki inn í íslenskt skammdegi.

Innflytjandinn er mögnuð skáldsaga um mátt og árekstur menningarheima, um vegi ástarinnar og óblíð örlög, um lystisemdir lífsins, vonir manna og vonbrigði.

Úr bókinni

Það var tuttugu mínútna gangur að sjónum þar sem hann ólst upp. Ströndin var klettótt og straumhart úti fyrir en grunnt næst landi og gott að synda í lítilli vík þar sem fáir komu. Þar voru krabbar og þörungar í sandinum og viti úti á tanga sem Bretar höfðu reist í upphafi fyrri heimsstyrjaldar. Hann var fljótur að læra að synda og pabbi hans leiðbeindi honum og hvatti hann til dáða. Honum þótti skemmtilegast að stinga sér af klettunum, svífa í lausu lofti, smjúga vatnið eins og fiskarnir áður en hann neyddist til að koma upp á yfirborðið. Og sólin skein á klettana og öldurnar vögguðu geislum hennar og hminninn boðaði ekkert nema áframhaldandi sælu.
  Strætisvagninn stansar í Vonarstræti. Hann fer í símann til að athuga hvort ferðir liggi nokkuð niðri en forritið hikstar eins og svo oft áður. Þegar hann er búinn að leggja fyrir ætlar hann að fjárfesta í nýrri síma áður en þessi gefur sig endanlega.
  Hann er að klæða sig í útiskóna þegar barið er að dyrum. Kannski er Saad kominn að sækja hann, hefur fundið það út að strætisvagnar séu hættir að ganga eða bara séð aumur á honum eftir að hafa sjálfur barist við náttúruöflin í kvöld. Kannski eigandinn sjálfur. Hann gægist fram en sér bara rétt móta fyrir þeim sem stendur fyrir utan í gegnum móðuna á rúðunni, óljósar útlínur í hríðarbylnum. Hann fer fram og gætir þess að opna bara litla rifu svo snjórinn fjúki ekki aftur inn.

Þegar björgunarsveitarmenn finna hann úti í Örfirisey daginn eftir liggur hann á grúfu í snjónum fyrir aftan gamalt netaverkstæði. Veðrið hefur gengið niður en samt skefur yfir hann öðru hverju. Hann liggur þráðbeinn og teygir handleggina fram eins og hann sé að stinga sér til sunds, hafi náð góðri spyrnu af klettasyllu og svífi nú í lausu lofti, sé hvorki hluti af himni né jörð heldur fastur að eilífu í tóminu þar á milli.

(10-11)

 

 

Fleira eftir sama höfund

Málverkið

Lesa meira
játning

Játning

Tveir íslenskir námsmenn, Elísabet og Benedikt, kynnast í Leipzig skömmu fyrir hrun múrsins.
Lesa meira

Markaðstorg guðanna

Lesa meira

Aldingarðurinn

Lesa meira

Retour en Islande

Lesa meira

Sakleysingjarnir

Lesa meira

Minnenas palats

Lesa meira

Una passeggiata nella notte

Lesa meira

Fjögur hjörtu

Lesa meira