Beint í efni

Ævinlega

Ævinlega
Höfundur
Guðbergur Bergsson
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
1994
Flokkur
Skáldsögur

Úr Ævinlega:

Tilvonandi eiginkona mín og væntanleg fyrirmyndar húsmóðir varð ólm í að fá að vita hjá Kötu eitthvað nánar um þá eldamennsku sem hún hafði aldrei hvorki heyrt um né kynnst áður. Frænka leit á það sem hrós og lét ekki ganga lengi á eftir sér. Sú tilgerð er ekki til í ættinni og hún sagði hreinskilningslega:

Ég er góð húsmóðir en hef verið fremur lítið fyrir að elda mat á lífsleiðinni, aðallega á þetta við um kjötið. Samt er það hvorki af leti né bældum ótta við eldavélina, vegna þess að ég sletti oft köku í ofn.

Vinkonan og ég kinkuðum ákaft kolli á traustvekjandi hátt, til að hvetja hana til að halda áfram að hrósa sér. Hún lét ekki segja sér það tvisvar.

Fyrst ég viðurkenni að ég er þannig gerð, hvað átmat og súpur varðar en ekki brauðmatinn, þá kom mér ágætis ráð í hug á fyrstu búskaparárunum. Einn góðan veðurdag á laugardagskvöldi, þegar ég var komin í kippinn, stakk ég af tilviljun kindalæri í ofninn í staðinn fyrir köku og stillti á lægsta straum, líkt og ég ætlaði að seiða rúgbrauð. Það var eins og við ofninn mælt, þótt ég hafi gleymt lærinu, hann steikti yfir nóttina það mikið utan á beininu að nægði í hádegismatinn fyrir okkur tvö næsta dag; krakkarnir voru þá ókomnir í heiminn. Eldamennskan í ellinni var síðan leyst með þessu móti á mínu heimili, svo ég verð ekki hrukkótt í andliti yfir pönnunni.

Mikið er þetta sniðugt, sagði kærastan yfir sig hrifin.

Hún leit eflaust þannig á málin að með sama móti gæti hún gift sig sallaróleg án þess að lenda í vandræðum með matargerð á sunnudögum, hún styngi læri í ofninn áður en hún byrjaði að fá sér í glas og gæti verið að létta sér upp fram undir morgun, þegar hún vaknaði undir hádegi þyrfti hún aldrei að horfast í augu við hræðilegasta vanda nútímahjóna að vakna þræltimbruð á sunnudagsmorgnum og eiga ekkert heitt og soðið til að éta. Með þessu móti biði maturinn heitur í ofninum.

Þetta er ekki sniðugt, heldur hagsýni, öðru fremur hugvit, sagði frænka en fór ekki nánar út í þá sálma.

Við brögðuðum varlega á kjötinu. Það var á bragðið örlítið svipað seiddu rúgbrauði, enda hugmyndin komin frá því, en annars bæði ætt og þokkalegt. Frænka átti þess vegna hrós skilið. Hún ráðlagði okkur að hefja búskapinn með sömu eldamennsku, en ekki smáréttavafstri og fiskisúpunum sem núna eru í tísku og svo mikill tími fer í að laga, þótt öllu sé dengt í pottinn, að fólk hefur varla tíma til að gægjast í glas á eftir.

(s. 80-81)

Fleira eftir sama höfund

De l'exil

Lesa meira

Svanurinn á kínversku

Lesa meira

Hin eilífa þrá

Lesa meira

Smásaga í Icelandic Short Stories

Lesa meira

Als isländischer Autor im Ausland

Lesa meira

Androclus und der Löwe

Lesa meira

Die Frau mit dem Proviantkasten

Lesa meira