Beint í efni

Bærinn brennur

Bærinn brennur
Höfundur
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Fræðibækur,
 Ævisögur

Um bókina

Árið 1828 myrti Friðrik bóndasonur í Katadal nágranna sinn, bóndann og lækninn Natan Ketilsson á Illugastöðum í Húnavatnssýslu. Ráðskona Natans, Sigríður, og vinnukona hans, Agnes, lögðu á ráðin með Friðriki, eggjuðu og veittu dygga aðstoð. Þremenningarnir brenndu svefnhús Natans til að leyna verknaðinum sem framinn var í auðgunarskyni og hjálpuðust að við að fela þýfið svo að það yrði ekki eldinum að bráð. 

Björn Blöndal sýslumaður blés til dómþinga um málið í héraði. Nákvæmar yfirheyrslur yfir sakborningum og sveitungum þeirra eru hér raktar en þær varpa nýju ljósi á málið og færa lesanda nær raunverulegum vettvangi en þekktar sögur munnmælanna.

Úr bókinni

Natan Ketilsson var sagður „nær meðallagi á vöxt” þegar hann dó 1828. Jón Steffensen telur að meðalhæð íslenskra karla hafi verið 167 cm á átjándu öld, en 169 cm um 1900. Ætli Natan hafi þá verið í kringum 168 cm? spurði Eggert Þór Bernharðsson, sem stundaði reiknikúnstir til að reyna að finna út hversu vaxnar helstu persónur harmsögu Natans voru. Hann hafði mælingar réttarskjalanna í fornum mælieiningum að vinna með. Sýndist honum helst að Agnes gæti hafa verið um 153 cm á hæð, Sigríður um 150 cm,  Natan um 168 cm og Friðrik um 163,5 cm. Á þessari tíð var fólk lágvaxið sé miðað við nútímann. Það heyrði til algjörra undantekninga ef einhver var feitur, og þá aðeins þeir sem tilheyrðu ríkustu stétt. 

Natan kom eftir dvöl sína í Höfn heim til Gísla Konráðssonar og Eufemíu Benediktsdóttur, konu hans á Ytra-Skörðugili, kallaði hann frænda sinn og lét sem ekkert hefði í skorist, þrátt fyrir níð Gísla um kæfuna hrossakjöts. Natan bauðst til að lána Gísla tuttugu spesíur sem hann þyrfti ekki að endurgreiða strax. Gísli afþakkaði, en bauð honum næturgistingu og vist hjá sér þá hann væri á förum sínum. Hann tók og af Natani lækningarit til afskriftar og galt Natan honum það ríflega síðar. 

   Gísli kallar Natan óaldarmann og þykist betri, þrátt fyrir vinsemdina sem Natan greinilega sýndi honum. Natan hafði gert grín að Móse liggjandi á greni á Sínaifjalli við auðtrúa nágranna Gísla og Eufemíu. Guðlastari er óaldarmaður og það var Natan. Marga mátti þá kalla óaldarmenn í Húnaþingi og var Natan þeirra allra vitrastur, segir Gísli. Aldrei vildi hann í kirkju nema hann væri settur við altari. Þóttist fínn síðan hann sigldi, Gísli gefur það í skyn. Það voru óskrifuð lög að fínustu menn sóknar sátu næst altarinu. Þeir sem minna máttu sín aftast. Svo var það oft að hann hrærðist við helgar ræður, bætir Gísli við. Natan var því hreint ekki trúlaus, sem af þessu má sjá, enda sækir hann kirkju, sem forhertur guðleysingi myndi varla gera. Hann vildi opna augu kreddufastra alþýðumanna fyrir því sem biblíurannsóknir upplýsingar voru farnar að sýna, að Biblían væri full af illsku og mótsögnum, enda mannanna verk en ekki Guðs. Natan ræddi samt oftast um annað en trúmál, segir Gísli, og þá helst vænar konur og lækningar. Hann var vitur óaldarmaður, stríðinn, dragandi trúarbókstaf í efa þótt trúartilfinning væri sterk, vel stæður og hofmóðugur, hrifnæmur og kvensamur, með logandi áhuga á lækningum. 

   Smám saman skýrist mynd Natans Ketilssonar þótt heimildir séu lævísar. 

Drögum nú saman það sem Gísli Konráðsson segir um kunningja sinn og frænda. Natan var vitur af eðli og mælskur, en ærið óstöðugur í gáfum, lítilmenni að orku og huglítill ef á þurfti að reyna, nær meðalmaður að vexti en heldur grannleitur, nefstór nokkuð en sléttur á kinn og smáeygður, jarpleitur á hár, fingralangur og öll höndin mjó en löng, ekki gæfusamlegur á svip en ör af fé ef hann hafði það fyrir hendi. Vildi láta virða sig en eigi ganga í vistir, það er vera vinnumaður áður en hann hóf búskap. Sýslaði mikið með lækningar og grasafræði. 

   Jafnan var Natan slægur viðfangs, segir Gísli, ef hann vildi því beita, en réðst ekki í stórræði upp á sitt eindæmi. Þetta rímar við það að hann hafi gert út ræfla til að ræna fyrir sig, það orð lá á, það vildi Gísli bera út og fyrir það var hann meðal annars dæmdur á sínum tíma, eins og hér hefur verið sagt frá. Kastljósið megnar ekki að bregða betri birtu á en þetta. 

   Natan þjáðist af dauðahræðslu og hann dreymdi hræðilega drauma um endalok sín, segir meistarinn að lokum. Meira um það síðar.

(bls. 28-30). 

Fleira eftir sama höfund

Stúlka með fingur

Lesa meira

Síðari aldir

Lesa meira

Leikfélag Reykjavíkur: Aldarsaga

Lesa meira

Stúlka í turni

Lesa meira

20. öld

Lesa meira

Tröllasaga

Lesa meira

Löngu horfin jól

Lesa meira

Nýi jólasveinninn

Lesa meira

Sólin býr til jólin

Lesa meira