Beint í efni

Benjamín dúfa

Benjamín dúfa
Höfundur
Friðrik Erlingsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1992
Flokkur
Barnabækur

Íslensku barnabókaverðlaunin 1992. Barnabókaverðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur 1993. Bókin kom einnig út í kilju hjá Iðunni 2003 og innbundin hjá Veröld 2012.

Úr Benjamín dúfu:

Bílskúrnum heima hjá Róland hafði verið breytt í vopnasmiðju. Botninn var skorinn úr málningarfötum úr járni, þær klipptar til, barðar saman og lóðaðar, slípaðar og pússaðar og þá var kominn hjálmur sem síðan var fóðraður að innan. Skildir voru gerðir úr krossviði. Fyrst var formið teiknað á viðinn, síðan var hann sagaður út og svo tekinn í sundur í miðjunni. Skildirnir áttu nefnilega ekki að vera flatir heldur íhvolfir. Þá var tekinn listi sem búið var að hefla aðeins til, skjaldarhelmingarnir festir við hann með lími og síðast var allt neglt rammlega. Skoran sem myndaðist framan á skildinum var fyllt með trésparsli, slípuð vandlega og síðast var skjöldurinn lakkaður. Sverðasmíðin var öllu meiri nákvæmnisvinna. Fyrst þurfti að hefla blaðið og það var mikið vandaverk. Hjöltun voru gerð sérstaklega og hver og einn hafði mismunandi gerð af hjöltum. Andrés vildi sverð eins og Prins Valiant. Baldi vildi hafa íbjúgt sverð, ég hafði mitt beint en blaðið var breiðast fremst.

Mamma hans Balda fékk það erfiða verkefni að sauma skikkjur og vesti. Við urðum hins vegar að útvega efnið sjálfir og það varð þrautin þyngri. Andrés (sem vildi hafa allt flottast) gafst ekki upp fyrr en mamma hans samþykkti að fara með honum í vefnaðarvörubúð og kaupa efni í skikkjuna. Hann varð ekki ánægður fyrr en hann fékk loðkraga á hana í þokkabót. Niðri í geymslu fann hann gamlan leðurstól sem hann tók áklæðið af til að nota í vesti. Og aumingja manna hans Balda var í marga daga að glíma við að sauma vestið hans Andrésar. Skikkjan mín var silfurgrá gardína með upphleyptu flauelsmynstri og hafði einhvern tíma hangið fyrir stofugluggunum svo það var nóg efni í vesti líka. Baldi fékk þykka dimmrauða skikkju með gullbryddingum og vesti úr marglitu flaueli sem myndaði tíglamunstur. Dagana sem mammah ans var að sauma notuðum við til að mála skildina og sverðin. Við ákváðum að á skildinum yrði táknmynd sem hver og einn veldi fyrir sig. Andrés gat ekki gert upp við sig hvort hann vildi hafa öskrandi ljón með vængi eða svart pardusdýr með glóandi augu svo á endanum ákvað hann að hafa tvíhöfða svartan örn á rauðum grunni með útbreidda vængi og hvassar klær. Baldi hafði hvítan einhyrning á bláum grunni. Honum fannst hestar svo fallegir þótt hann væri dauðhræddur við þá. Einhvern tíma þegar hann var lítill hafði hann verið settur á hestbak og varð svo hræddur að han fór að grenja hvar sem hann sá hest þótt hann væri langt í burtu. en þeir voru samt uppáhaldsdýrin hans þótt hann þyrði ekki að koma nálægt þeim.

- Og einhyrningar, sagði hann, eru fallegastir. Þeir eru konungar hestanna.

Ég valdi mér hvíta dúfu á dökkgráum grunni.

Þá var bara eftir að útbúa skjaldarmerki Rauða drekans framan á vestin. Það var klippt út úr rauðu filti og límt á hvítan filtgrunn og síðan límt og saumað framan á vestisbrjóstið.

Það voru hátíðlegir og alvarlegir ungir riddarar sem stilltu sér upp fyrir framan stóra spegilinn heima hjá Balda, íklæddir þessum dýrlegu klæðum, með trésverð við síðu og skjöld í hendi. Það var augnablik þrungið merkingu sem við fundum allir en gátum ekki útskýrt. Þetta var ekki bara leikur. Á bak við þessa búninga og þessi vopn var heilagur tilgangur, ákvörðun sem ekki varð haggað: Gegn ranglæti, með réttlæti. Og í speglinum sáum við þennan tilgang, þessa ákvörðun verða að raunveruleika. Við vorum riddarar, stríðsmenn réttlætisins, reiðubúnir til baráttu.

(s. 44-6)


Fleira eftir sama höfund

Benjamín dúfa

Lesa meira

Bróðir Lúsifer

Lesa meira

Litla lirfan ljóta

Lesa meira

Litla lirfan ljóta

Lesa meira

Vetrareldur

Lesa meira

Vetrareldur

Lesa meira

Afi minn í sveitinni

Lesa meira

Benjamin due

Lesa meira

Benjamín dúfa

Lesa meira