Beint í efni

Bókafárið mikla

Bókafárið mikla
Höfundur
Tom Sharpe
Útgefandi
Ugla
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um bókina

Rithöfundurinn Peter Piper er sannfærður um eigin snilli en gengur illa að fá gefna út sína fyrstu bók. Dag einn fær hann tilboð sem hann getur ekki hafnað. Honum býðst, gegn ríflegri greiðslu og loforði um útgáfu eigin verka, að gerast staðgengill höfundar, sem vill ekki láta nafn síns getið, að svæsinni skáldsögu sem slær í gegn á heimsvísu. Kemur Peter sér þar með í vandræði sem engan enda virðast ætla að taka.

Tom Sharpe (1928-2013) var á sinni tíð oft kallaður fyndnasti höfundur Bretlands og gamansögur hans njóta enn mikillar hylli. Í Bókafárinu mikla gerir hann grín að heimsbókmenntunum, bókmenntakenningum, saklausum rithöfundum, útsmognum umboðsmönnum, ófyrirleitnum útgefendum – og eiginlega öllu sem á vegi verður.

Úr bókinni

Piper vaknaði næsta morgun og lá í rúminu, allur uppveðraður. Hann yrði gefinn út. Hann færi til Ameríku. Hann var ástfanginn. Skyndilega virtist allt sem hann hafði dreymt um ætla að rætast líkt og fyrir kraftaverk. Hann fann ekki fyrir neinni eftirsjá. Hann kom sér á fætur, skolaði andlitið og horfði á sjálfan sig í baðherbergisspeglinum með velþóknun yfir þeim hæfileikum sem hann hafði ekki vitað hingað til að hann réði yfir. Sú staðreynda að gæfa hans byggðist á ógæfu annars höfundar með alvarlega liðagigt olli honum ekki hugarangri lengur. Hans eigin snilligáfa átti það tækifæri skilið sem nú blasti við. Auk þess hafði upphlaðið ergelsi undangenginna ára slævt hans eigin siðagildi nokkuð, þótt þeim væri ákaft flíkað í skáldskap hans. Það að hann hafði fyrir tilviljun lesið sjálfsævisögu Benvenutos Cellini hjálpaði líka til. "Listamaður ber fyrst og fremst ábyrgð gagnvart list sinni," sagði hann við spegilmynd sína á baðherberginu meðan hann rakaði sig og bætti því við að í ævi sérhvers manns flæddu boðaföll gæfunnar stundum að. Og loks, því til viðbótar, var Sonja Futtle.
   Piper hafði helgað sig listsköpun sinni að slíku marki að hann hafði lítinn tíma haft fyrir raunverulegar tilfinningar gagnvart raunverulegu fólki og þeim litla tíma hafði hann ýmist varið í að verjast ágengni ýmissa ástleitinna kvenna sem ráku þau gistihús sem hann hafði dvalist í, eða til að tigna úr fjarska aðlaðandi ungfrúr sem dvalist höfðu á þessum gistihúsum. Og þær stúlkur sem hann hafði boðið út að borða höfðu reynst áhugalitlar um bókmenntir við nánari athugun. Piper hafði sparað sig fyrir stóra ástarævintýrið, sem yrði jafn gríðarlega kröftugt og öll þau ástarævintýri sem hann hafði lesið um í stóru skáldsögunum, þar sem hugir skáldaðra persóna mættust.

(s. 68-69)

Fleira eftir sama höfund