Beint í efni

Dauðadjúp sprunga

Dauðadjúp sprunga
Höfundur
Lilja Sigurðardóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Dauðadjúp sprunga er fimmta bókin í spennusagnaseríu um ógn og ofbeldi, blekkingar og trúnað. Þær fyrri eru Helköld sólBlóðrauður sjórNáhvít jörð og Drepsvart hraun.

Áróru líður betur eftir að lík systur hennar fannst í hraungjótu á Reykjanesi – hún getur loks hætt að leita. En málið er enn óleyst, því að kærastinn sem var talinn hafa drepið Ísafold fannst á sama stað, einnig myrtur. Og þegar Áróra fær vitneskju um óhugnanlegt atriði í tengslum við líkfundinn munar litlu að hún missi tökin á tilverunni. Til að dreifa huganum einbeitir hún sér að peningaþvættismáli sem Daníel vinur hennar er með til rannsóknar. Þar leynist þó fleira undir yfirborðinu og enn á ný liggja þræðirnir í Engihjallann, þar sem Ísafold lifði og dó …

Dauðadjúp sprunga er ellefta glæpasaga Lilju.

Úr bókinni

"Þegar Ísafold hvarf var fyrst talið að hún hefði einfaldlega látið sig hverfa sjálf, því að sambýlismaðurinn var ofbeldisfullur og flestir héldu að hún hefði bara fengið nóg og farið." Helena reyndi að hljóma glaðlega við unga nemann sem sat í farþegasætinu við hlið hennar, þrátt fyrir að sannleikurinn væri sá að hún var öskureið. Þetta var fyrsta verkefnið sem Gutti faldi henni fyrir utan að skoða endalausar upptökur úr öryggismyndavélum, en hún vissi að hann hefði aldrei sent hana til að tala við vitnin nema af því að enginn annar vildi sinna nemanum. Neminn, Vala, átti nefnilega að fara í vettvangsferð og fylgjast með þegar talað var við vitni. Hún var 25 ára, búin með lögregluskólann og nokkur sumur í einkennisbúningi og var núna að læra afbrotafræði í háskólanum og stefndi á rannsóknardeildina. Helenu fannst hún geta fundið lyktina af metnaði þessarar ungu konu og það skapaði einhvern óróleika innra með henni. Eða kannski var þessi óróleiki fremur tengdur því að Vala var bráðfalleg. Hættulega falleg. Eða þannig hafði Gutti orðað það. "Stelpan er hættulega falleg og ég vil ekki hafa neitt helvítis MeToo hérna," hafði hann þrumað yfir teymið og strákarnir höfðu allir tekið því sem svo að þeir ættu að forðast Völu eins og heitan eldinn. Og þannig vildi það til að það dæmdist á Helenu að hafa hana í eftirdragi með tilheyrandi veseni.
   "En hvenær hvarf svo kærastinn, þessi ..." Vala opnaði minnisbókina sína og fletti henni af ákefð en Helena varð fyrri til.
   "Björn." Þær voru komnar niður á Sæbraut. Samkvæmt upplýsingum frá umferðarstrákunum sem þær höfðu mætt á leiðinni út borgaði sig að forðast Mjóddarsvæðið og Miklubrautina vegna malbiksviðgerða sem nú virtust spretta upp um allan bæinn eins og rjúkandi og daunillur vorboði, og Helena ákvað að fara bara Sæbrautina alla leið. "Áróra, systir Ísafoldar, kom til Íslands til að grennslast fyrir um hana, en skömmu eftir að hún kom og fór að spyrjast fyrir hvarf Björn líka. Hann sást síðast labba út úr flugstöðinni í Toronto í Kanada og gufaði svo upp. Og ályktunin sem var dregin af því var að hann hefði myrt Ísafold og stungið svo af undan réttvísinni. Og verksummerki í íbúðinni og bílnum hans staðfestu að eitthvað mikið hefði gengið á. En svo fundust lík þeirra beggja fyrr í vor í ferðatöskum í hraunsprungu á Reykjanesinu."
   "Og það breytti öllu," sagði Vala og horfði hugsi út um gluggann.

(s. 32-33)

Fleira eftir sama höfund

náhvít jörð

Náhvít jörð

Á hvítum vetrarmorgni finnst yfirgefinn flutningagámur í Rauðhólum við Reykjavík. Þegar hann er opnaður blasir hryllingurinn við: fimm lífvana konur
Lesa meira

Blóðrauður sjór

Lesa meira

Fælden

Lesa meira

Fyrirgefning

Lesa meira

La cage

Lesa meira