Beint í efni

Demantstorgið

Demantstorgið
Höfundur
Mercé Rodoreda
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
1987
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

La placa del Diamant eftir Mercé Rodoreda í þýðingu Guðbergs.

Hér er sögð saga Spánverja á tímum sem skiptu sköpum í lífi þjóðarinnar- þegar frelsisvonir urðu að engu og þjóðin horfði á eftir mannréttindum sínum í klær fasismans. Á meistaralegan hátt segir skáldkonan þessa sögu frá sjónarhóli konu- fulltrúa þeirrar orðlausu alþýðu sem sjaldnast er til frásagnar um þjáninguna. Mercé Rodoreda (1909-1983) er í hópi svonefndra útlagaskálda spænsku þjóðarinnar, þeirra sem flúðu land í borgarastyrjöldinni og áttu ekki afturkvæmt. Guðbergur Bergsson rithöfundur þýðir söguna úr katalónsku og ritar eftirmála. 

Úr Demantstorginu

Og hann sló bylmingshögg á borðið með hendinni. Hann sagði að hann gæti ekki stofnað til fjölskyldu en sig langaði að giftast. Og hann bjó til litla græna kúlu úr mosanum sem hann kleip úr blikkvasanum. Hann reis á fætur og stóð fyrir framan japönsku konuna, en sneri sér síðan við og settist aftur, og meðan hann settist og áður en hann hafði tyllt sér almennilega á stólinn spurði hann:

- Vilduð þér giftast mér?

Ég vissi þetta hlaut að koma og óttaðist það, og ég varð afskaplega slegin og skildi ekki almennilega.

- Ég er óbundinn og þér eruð frjáls og ég þarfnast félagsskapar og börnin yðar þurfa að fá stuðning...

Hann stóð upp ennþá órólegri en ég og fór tvisvar eða þrisvar í gegnum þá japönsku og út úr borðstofunni, æddi fram og aftur...

Og þegar hann settist á ný sagði hann við mig að ég gæti ekki ímyndað mér hvað hann væri mikið góðmenni í sér, að ég gæti ekki hugsað mér hvað hann væri góður maður. Og hann hefði alltaf borið taugar til mín, frá því ég kom að kaupa kornið og hann sá mig fara svo klyfjaða að ég stóð varla undir byrðinni.

- Og ég held að þér séuð ein og með börnin lokuð inni, alein meðan þér eruð að vinna og ég gæti bætt úr öllu þessu... Ef yður mislíkar, látið þá eins og ég hafi ekki sagt neitt... En ég verð að bæta því við að ég get ekki stofnað fjölskyldu, vegna þess að ég er ónýtur sökum stríðsins, en með yður fæ ég þegar fullkomna fjölskyldu. Og, Natalía, sagði hann, mig langar ekki að leika á neinn.

(s. 118)

Fleira eftir sama höfund