Beint í efni

Dimmar rósir

Dimmar rósir
Höfundur
Ólafur Gunnarsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur

Af bókarkápu:

Sviðið er Reykjavík á árunum 1969 til 1971. Þetta eru ár átaka milli gamla tímans og hins nýja, ár menningarbyltingar og hugmyndabaráttu; árin þegar Kings og Led Zeppelin halda tónleika á Íslandi, æskan sér framtíðina ýmist í hillingum eða vímu og eldri bæjarbúar vita ekki hvaðan á þá stendur veðrið.

Persónurnar eru sóttar í tvær litríkar fjölskyldur og þær eru af öllum stærðum og gerðum; frá uppreisnargjörnu unglingsstúlkunni til góðgjarna guðfræðinemans, frá síðhærða trommuleikaranum til ofurbjartsýna athafnamannsins, frá uppburðarlitla endurskoðandanum til leikkonunnar sem aldrei stígur af sviðinu.


Úr Dimmum rósum
:

18
The Balls

The Balls var stórfenglegt band. Nú fyrst fékk Guðni að njóta sín. Þeir komu til Liverpool og spiluðu í Cavernklúbbnum. Guðni fann hvernig hann hélt hljómsveitinni saman með áslættinum og orkan sem streymdi fram af sviðinu var óskapleg. Guðni hafði samið lag og söng það sjálfur. Það var ekki blús heldur rokk. Lagið var um föður hans, bandaríska hermanninn sem fór til Ameríku og sendi aldrei eftir honum og móður hans eins og hann lofaði. Þau svik höfðu verið honum sífelldur harmur. Þeir voru búnir að æfa lagið sem átti að flytja ,,instrumental og það féll fram í salinn eins og jökull að ryðja sig. Fólkið hoppaði í takt við trommurnar svo lá við að gólfið léti undan. Rétt undir lokin byrjaði Guðni ósjálfrátt að arga á ensku: - I hate you, I don't need you! I hate you, I don't need you!

Þegar laginu lauk leið honum skár. Það var eins og hann hefði losað sig við föður sinn með líknandi mætti rokksins.

Hópur aðdáenda var byrjaður að elta The Balls frá tónleikum til tónleika, frá giggi til giggs, og áhorfendum fór stöðugt fjölgandi. Guðna hafði aldrei skort kvenfólk, samt hafði hann aldrei alveg fengið nægju sína. En nú fékk hann í fyrsta sinn á ævi sinni meira en nóg. Hann var búinn að gleyma stráknunum í Eik. Sævar hafði tæpast getað horft í augun á honum þegar þeir kvöddust.

- Hvernig eigum við að fylgja plötunni eftir heima, ef þú ert hættur?

- Ég veit ekki hvað ég verð lengi með þessu bandi, mig langar að minnsta kosti að ferðast fyrst ég fæ sjens á því. Svona tækifæri býðst ekki nema einu sinni, hafði Guðni svarað hjáróma.

Og Sævar hafði glott og glottið var eitrað af öfund.

Hann var líka búinn að gleyma systrunum tveimur, ástkonum sínum á Íslandi.

Hann sendi móður sinni kort af og til heim til Keflavíkur. Ef hann reyndi að skrifa Hörpu þá gat hann með engu móti barið saman nokkrar setningar því hann vissi að hún beið eftir hverju orði. Og hann fann ekkert einlægt til þess að segja. Ef honum varð hugsaði til Hrafnhildar varð hann ergilegur. Með loforði um að koma honum á framfæri hafði hún þvingað hann til þess að vera með sér.

Að lokum hætti hann að hugsa um systurnar. Svo lengi hafði hann verið heftur heima á Íslandi að honum fannst hann eiga skilið að njóta heimsins þegar heimurinn kom upp í fangið á honum.

Í byrjun febrúar fengu þeir samning og tóku upp fyrstu tveggja laga plötuna sína. Hún hét einfaldlega Balls og fór í áttunda sæti vinsældalistans. Þeir komu á forsíðu Melody Maker, þungbúnir ungir menn, Guðni minnti hina á Frank Zappa á myndinni.

Hann hafði samið lagið á B-hliðinni. Hann fann fyrir takmarkalausri tónlist innra með sér. Þar var náma sem engin hætta var á að nokkur gæti hróflað við.

Hann samdi hvert lagið á fætur öðru. Hripaði hjá sér texta á hvað sem fyrir varð. Eftir tvo mánuði ,,on the road átti hann nóg efni á tvær tólf laga plötur ef allt yrði tekið upp.

Í New Musical Express var Balls borin saman við Cream. Guðni þótti ekki mikið lakari en John Bonham, trommari Led Zeppelin. Fyrsta tólf laga platan, Balls on the Road, var tekin upp í hendingskasti á tveimur sólarhringum. Guðni dottaði kannski í tuttugu mínútur, svo vaknaði hann og knúði bandið áfram. Að morgni þriðja dags voru þeir ljósmyndaðir grútsyfjaðir frammi fyrir Buckingham Palace. Besta myndin yrði notuð á albúmið.

(132-3)

Fleira eftir sama höfund

Málarinn

Lesa meira

Milljón prósent menn

Lesa meira

Million-Percent Men

Lesa meira

Fallegi flughvalurinn og Leifur óheppni

Lesa meira

Cathédrale des trolls

Lesa meira

Blóðakur

Lesa meira

Vetrarferðin

Lesa meira

Tröllakirkja

Lesa meira

Trolls´s Cathedral

Lesa meira