Beint í efni

Heimkoman

Heimkoman
Höfundur
Björn Þorláksson
Útgefandi
Tindur
Staður
Akureyri
Ár
2009
Flokkur
Ævisögur og endurminningar

Um bókina:

Þúsundir karla og kvenna hafa undanfarið misst vinnuna í einhverri dýpstu efnahagskreppu síðari tíma. Böjrn Þorláksson var í þessum hópi. Hann fjallaði um hrunið sem fréttamaður en á sama tíma varð hann að takast á við persónulegt hrun þegar hann var rekinn frá stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins. Hann hrökklaðist inn á heimilið en hafði ekki tíma til að leggjast í sjálfsvorkunn, því að örlögin háttuðu því þannig til að sama dag og hann lagði frá sér hljóðnemann breyttust aðstæður innan veggja heimilisins. Hann fékk ársgamlan son sinn í fangið og var skipað að spjara sig. Þá fór í hönd viðameiri fréttatími en nokkru sinni fyrir framan myndavélar.

Úr Heimkomunni:

Síðasta dag októbermánaðar árið 2008 valdi fréttastjóri Stöðvar 2 gemsanúmerið mitt klukkan 08.35 að morgni. Mig grunaði hið versta um leið og ég sá nafn hans birtast á skjánum. Það var óvenjulegt að fréttastjórinn, sem á þessum tíma var ungur í starfi, hefði samband svo snemma dags og áhyggjur mínar reyndust ekki ástæðulausar. Strákgepillinn tilkynnti mér að loknum kveðjum að FYRIRTÆKIÐ, öðru nafni 365 miðlar, yrði að segja mér upp vegna kreppunnar. Honum þætti það leitt, en í þessu árferði væri kostnaðurinn við að halda úti fréttamanni á Akureyri einfaldlega of mikill. Útibú fengju jafnan fyrst að fjúka í samdrætti og þar sem búist væri við að þessi kreppa yrði löng og ströng kæmi uppsögnin nánast örugglega til framkvæmda, sem væri vitaskuld miður, þar sem FYRIRTÆKIÐ hefði verið afar ánægt með störf mín til þessa. Ef það væri einhver huggun stæði ég ekki einn í þessum sporum. Mun fleiri fréttamenn hjá 365 myndu missa vinnuna, en það yrði að vera okkar í milli að sinni. Það var óneitanlega svolítið einkennilegt að sami maðurinn skyldi bæði reka mann og biðja um trúnað, nánast í sömu setningunni.

Ég var nýkominn í vinnuna, staddur í Hafnarstræti 99 á annarri hæð hins svokallaða Amaróhúss. Þar hafði Stöð 2, dótturfyrirtæki 365, skrifstofu. Einhverra hluta vegna komu línur Kristjáns Jónssonar fjallaskálds upp í hugann:

Nú er horfið Norðurland, nú á ég hvergi hei-ei-ma.

Svo blossaði upp í mér reiðin. Mér varð hugsað til allra sem væru um þessi sömu mánaðamót að fá sömu skilaboð og ég, að við værum æðisleg, en samt yrði að reka okkur. Út af fábjánagangi útrásarfólks. Út af heimsku stjórnmálamanna. Manna sem staðhæfðu að græðgi væri góð. Að græðgi væri frumkraftur sem drifi samfélög áfram. Hvað hafði orðið um norræna velferðarmódelið? Jöfnuðinn? Var ekki nóg að þurfa að sætta sig við hrun á fasteignaverði, hækkandi skuldir og óðaverðbólgu? Þurftu þessir djöflar að svipta mann brauðinu og ærunni líka?

Það hafði legið í loftinu dögum saman að mánaðamótin október-nóvember 2008 gæfu tóninn að fjöldaatvinnuleysi í landinu, von væri á holskeflu uppsagna. Að þúsundir Íslendinga úr flestum stéttum einkageirans myndu missa atvinnu sína til viðbótar öllum bankastarfsmönnum. Fjármálakerfi þjóðarinnar var hrunið eins og það lagði sig og þar var alþjóðlegum áhrifum aðeins að litlu leyti að kenna, þótt forsætisráðherra vor reyndi að segja okkur annað, fjármálavandi okkar var heimaklúður, menn stóðu blóðugir upp yfir axlir í því að stórfækka störfum í samdrættinum, það var afleiðing heimsku og hroka örfárra einstaklinga, siðvilltra smjattpatta sem við héldum flest að væru voða klárir. Ofurlaunin þeirra, kaupaukarnir, einkaþoturnar, allt hafði þetta verið réttlætt með því að þeir væru snillingar, þessir drengir. Þeir höfðu verið strákarnir okkar, þeir höfðu keypt bæði Danmörku og Bretland, gott ef ekki Holland líka. Menn töluðu um íslenska efnahagsundrið með blik í augum, allt fram að deginum þegar ljóst varð að góðærið hafði verið blekking, hagvöxturinn fenginn að láni og almenningur yrði nú að greiða fyrir sukkið, ríkið gjaldþrota eða svo gott sem. En svo einkennilega vildi til að á sama tíma og blásaklausir launþegar misstu störf sín sátu skúrkarnir langflestir enn við völd, skúrkarnir sem maður hefði þó ætlað, að hefðu átt að sjá sóma sinn í að segja af sér leið og hrunið varð ljóst. Ærinn var skaðinn fyrir og nóg komið hefði maður haldið. En enn sátu þeir. Og á sama tíma var reynslulítill fréttaleppur úr Reykjavík að reka mig í gegnum síma. Hvern andskotann hélt hann að hann væri?

(13-15)

Fleira eftir sama höfund

Lífsloginn

Lesa meira

Rottuholan

Lesa meira

Villibörn

Lesa meira

Mannorðsmorðingjar?: Faglegar og persónulegar pælingar um stöðu fjölmiðla á Íslandi

Lesa meira