Beint í efni

Hér liggur skáld

Hér liggur skáld
Höfundur
Þórarinn Eldjárn
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur


Um Hér liggur skáld:



Á hverju kvöldi þegar Hallbjörn sauðamaður leggst til svefns í yfirsetunni hugsar hann um kvæðið sem hann vill yrkja; það fjallar um Þorleif jarlsskáld sem sagan segir að hvíli þar undir sem sauðamaður sefur. „Hér liggur skáld,“ byrjar hann en kemst ekki lengra með kvæðið fyrr en Þorleifur hleypur sjálfur undir bagga – í draumi, því að hann hefur legið dauður í haugi sínum í tvö hundruð ár.



„Sagan segir“ – ja, hvað segir sagan? Af Þorleifi og ættingjum hans í Svarfaðardal eru fornar sagnir um harðvítug átök höfðingjanna í dalnum, fyrirboða og forynjur, afdrifaríka kaupferð til Noregs, grimmd og dráp, kynngimagnaðan hefndarkveðskap og ómennskt víg á Þingvöllum.



Úr Hér liggur skáld:



Þegar ég kom heim í dalinn á ný um vorið fann ég strax hve loft var þar lævi blandið og beinlínis eitrað, þykkt af undirmálum eins og gengið væri á vegg og ég tók strax að iðrast þess sem ég hafði lofað Ólafi bróður mínum. Í stað þess að sigla utan til fjár og frama með Miðfirðingum sat ég nú fastur í illdeilum sem ég skildi lítt í og fyrirvaralitlu vopnaglami. Það voru mikil umskipti og uggvænleg.



Kyrrt var þó að mestu um sumarið. Svo átti að heita að Brekkufólk sæti í friði, staða okkar taldist breytt eftir hinar óvæntu mæðgir við Grundarvaldið. Sá friður var þó dýru verð keyptur því þursinn Klaufi hélt Yngu systur mína í raun sem fanga í Klaufanesi. Hann vék varla frá henni og hafði ómennið Heklu-Skeggja, húskarl sinn, til að gæta hennar ef hann sjálfur brá sér af bæ til aðdrátta eða vígaferla. Við fengum ekki að hitta Yngu. Faðir minn og bróðir höfðu oftar en einu sinni hrakist burt undan hótunum Klaufa er þeir reyndu að ná fundi hennar. Og ekki var lengur hægt að leita liðsinnis hjá Ljótólfi, sjálfum goðanum, því Grundarmenn virtust nú ráða lögum og lofum í dalnum og fylgdust vel með mannaferðum.



Einn var þó sá er áfram lék óhindrað tveim skjöldum en það var Grís á Steindyrum. Þó hann ætti bú sitt vestanmegin og væri mágur Klaufa leiðst honum að rækja jafnframt frændsemi við goðann á Hofi. Grundarmenn létu það óátalið og töldu sér vísast hentugt að geta haft Grís sem flugumann til að bera yfir ána þær fréttir sem þeir legðu honum í munn, réttar eða rangar, og færa þeim aðrar í staðinn, vonandi réttar.



Mér fannst sárt að horfa upp á þá lægingu sem okkur var búin af höfðingjunum og fá ekki að gert. Á móti kom að meira en full þörf var fyrir liðveislu mína heima í Brekku, svo af sér gengnir sem foreldrar okkar voru nú orðnir. Ég sinnti bústörfum af kappi, enda áttu þau vel við mig. Ég einsetti mér að safna í sarp eftir megni, koma mér upp forða góðrar vöru, því enn lifði með mér vonin um að geta sloppið frá þessu öllu og siglt í fyllingu tímans.



Um haustið dró til nokkurra tíðinda þegar smalað var og rekið í réttir. Karl rauði hafði eftirlátið Klaufa frænda sínum að rétta í Tungunum frammi í dalnum. Þar varð ekki hjá því komist að eiga viðskipti við Hofsmenn og þá var eins og við manninn mælt að umsvifalaust sló í harða brýnu þegar Klaufi sakaði goðann um að reka óskilsamlega fé Grundarmanna. Menn leiddu þetta hjá sér, svöruðu honum engu en þar með rann æði á berserkinn sem tók að brytja niður menn Ljótólfs. Hann hjó þá sem hráviði og ætlaði því næst að láta kné fylgja kviði og höggva Ljótólf sjálfan. Þá bar Karl þar að ásamt nokkru liði en sent hafði verið eftir honum í skyndi. Þegar hann sá hvað verða vildi æpti hann að Klaufa það gamalkunna óp sem dugði alltaf þeim frændum vel:



– Kunn þú hóf þitt, Klaufi frændi.



Við það lyppaðist Klaufi niður óvígur, svo magnþrota að hann gat ekki einu sinni haldið á sverði sínu, hvað þá beitt því, en tók þó strax að atyrða Karl, kvaðst þar hafa verið að því kominn að sigrast á Ljótólfi til fulls. Þar með hefðu þeir Grundarmenn endanlega öðlast yfirráð yfir öllum dalnum. Karl svaraði á móti að þeir réðu nú þegar því sem þeir vildu og að slíkt víg hefði þvert á móti orðið þeim til lítillar gæfu, svo mikill sem frændgarður Ljótólfs væri víða um land. Ekki yrði fýsilegt að mæta til alþingis með slíkt í farteskinu. Nóg yrði samt.



(65-7)


Fleira eftir sama höfund

Flügelrauschen

Lesa meira

Le sens pris aux mots

Lesa meira

Les visiteurs du passé

Lesa meira

Rester interdit

Lesa meira

Barnasögur úr ýmsum áttum

Lesa meira

Vaknaðu, Sölvi

Lesa meira

Ása og Erla

Lesa meira

Im Blauturm

Lesa meira

Smásaga í Icelandic Writing Today

Lesa meira