Beint í efni

Hliðarspor

Hliðarspor
Höfundur
Ágúst Borgþór Sverrisson
Útgefandi
Skrudda
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur

Úr Hliðarspori:

Skyndilega leið honum eins og það væri föstudagskvöld. Þó var umferðin róleg. Sólin var horfin og byrjað að hvessa, vindáttin hafði snúist úr norðvestri í suðvestur svo í raun hafði hlýnað frá kalda gluggaverðrinu. Það örlaði á væti, dropar lentu á framrúðunni, svo fáir að hann hefði getað talið þá.

Hann var að hugsa um föstudagskvöld frá áttunda áratugnum: eftirvæntinguna sem vaknaði í einveru og kyrrð snemma kvölds fyrir gleðskapnum sem var framundan. Í þeirri mynd var sólskin fyrir utan húsið og fáir á ferli. Ómur af röddum inn um opinn gluggann.

Hann hafði séð son sinn á kaffihúsinu. Hann sat með nokkrum félögum sínum vinstramegin í salnum, handan við barborðið, í hvarfi frá borði Daníels sem tók ekki eftir honum fyrr en hann var kominn að dyrunum. Sonurinn gólaði: ,,Hættu þessu kjaftæði, maðurinn er ekki rithöfundur! Hann er harðspjaldastofustáss! Síðan rak hann upp hrossahláttur og barði krepptum hnefa á borðplötuna. Það voru bjórglös á borðinu og logandi sígarettur í öskubakka. Sonurinn var drukkinn eða þóttist vera það. Daníel hafði heyrt háreystina frá borðinu áðan en ekki borið kennsl á röddina. Samt var hún kunnugleg í háreystinni, ekki síst frá partíum á meðan hann bjó enn í foreldrahúsum. Daníel hafði ekki heilsað upp á hann. Gat ekki hugsað sér að blanda geði við neinn á þessari stundu.

Þegar hann nálgaðist heimilið tók hann að ímynda sér að börnin væru ennþá lítil. Þau væru að leika sér í garðinum heima, það væri sólskin og blíða og þau tækju á móti honum með fagnaðarlátum. En þau höfðu ekki verið með garð þegar börnin voru lítil. Hann sá plastbolta í grasinu og eitthvað af innileikföngum sem börnin höfðu borið út. Svo gleymdu þau dótinu úti í garði og eitthvað af því týndist. Líklega var þessi mynd minning frá hans eigin æskuárum, en samt var þetta um börnin hans líka, ærslafullar og ástúðlegar móttökur þegar hann kom heim úr vinnunni.

Hann sat lengi í bílnum fyrir utan húsið og velti fyrir sér hvað hann ætti til bragðs að taka. En það var ekki um neitt að ræða, ekkert nema að fara inn og reyna sitt ítrasta til að láta á engu bera.

Þegar hann gekk inn um dyrnar var hjartsláttur hans eðlilegur. Kunnugleikinn í anddyrinu gnæfði yfir annað, hlýr og góður. Hann kallaði ,,halló inn í húsið, jafnstyrkri röddu og í gær eða hvaða kvöld sem var.

(45-6)

Fleira eftir sama höfund

Inn í myrkrið

Lesa meira

Afleiðingar

Lesa meira

Síðasti bíllinn

Lesa meira

Eftirlýst augnablik

Lesa meira

Í síðasta sinn

Lesa meira

Fyrsti dagur fjórðu viku

Lesa meira

Tvisvar á ævinni

Lesa meira

Sumarið 1970

Lesa meira

Hringstiginn - og sjö sögum betur

Lesa meira