Beint í efni

Í góðu hjónabandi

Í góðu hjónabandi
Höfundur
Doris Lessing
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
1991
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan A Proper Marriage eftir Doris Lessing í þýðingu Fríðu Á. Sigurðardóttur.

Úr Í góðu hjónabandi

 “Ef allir væru eins og þú, þá misstum við alla stjórn á þeim,” sagði Stella reið. “Þú getur svo sem látið svona, en allir vita að þær eru alveg eins og dýr og þær finna ekkert fyrir því að eignast börn og ...” Hún bætti við efins: “Stern læknir er svo nýtískulegur.”
 “Hann er að vinna að rannsókn á þessu,” sagði Alice. Hún beið þeirra á stigapallinum. “Það er ekki rétt að þær séu öðruvísi en við. Þær eru nákvæmlega eins segir Stern læknir.”
 Stella var yfir sig hneyksluð og rugluð. Svo rak hún upp þennan háværa og grófa hlátur. “Komdu mér ekki til að hlæja.”
 “Þetta er vísindaleg staðreynd,” sagði Alice deyfðarlega.
 “O, þessir læknar!” sagði Stella í sama undanlátssama tóninum og Alice hafði áður notað um ríkisstjórnina.
 Marta sem nú var komin upp á stigapallinn til þeirra, sagði biturt: “Svo virðist sem jafnvel Stern læknir hafi aðeins áhuga á þeim til að hann geti skrifað um þær vísindagreinar.”
 Alice móðgaðist. “Heldurðu að þeim standi ekki á sama um það svo framarlega sem þær fá hjálp? Og hann er mjög góður maður. Hvað margir læknar heldurðu að mundu vinna eins og hann gerir alla vikuna og öll kvöld og eyða svo sunnudagsmorgnunum í það að hjálpa blökkukonum með ungbörnin? Og fyrir sama sem enga greiðslu í þokkabót.”
 “Sex pence eru jafn mikið fyrir þær og tíu shillingar fyrir okkur,” andmælti Marta.
 Alice var nú orðin reið. “Það er ekki það sama fyrir Stern lækni.”
 “Hverjum er það að kenna?” spurði Marta æst.
 Stella leysti málið með því að opna dyrnar. “Í guðanna bænum fáum okkur í glas,” sagði hún óþolinmóð. “Vertu ekki að hlusta á ruglið í henni Matty. Douggie á eftir að koma vitinu fyrir hana. Það er ekki hægt að vera bæði róttæklingur og eiginkona manns í opinberri þjónustu.”

(s. 26-27)

Fleira eftir sama höfund

Minningar einnar sem eftir lifði

Lesa meira

Veðraþytur

Lesa meira