Beint í efni

Inferno

Inferno
Höfundur
Dan Brown
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan Inferno eftir Dan Brown í íslenskri þýðingu Ingunnar og Arnars Matthíassonar.

Úr bókinni

„Flýttu þér, Robert!“ sagði Sienna. „Eltu mig!“

Þar sem Langdon þaut fram á ganginn í íbúðablokkinni var hugur hans enn fastur við hryllilegar myndirnar út undirheimum Dantes. Allt fram til þessa hafði Sienna Brooks tekist á við atburði morgunsins og hrikalegt álagið sem þeim fylgdi með ró og festu, en nú skaut ný tilfinning upp kollinum á yfirborði rósemdar hennar – ósvikinn ótti.

Sienna hljóp á undan eftir ganginum, framhjá lyftunni sem var á niðurleið, eflaust til mannanna sem voru nú komnir inn í anddyrið. Hún hljóp að enda gangsins og hvarf niður í stígaganginn án þess að líta um öxl.

Langdon fylgdi þétt á eftir henni og rann til á hálum skósólunum. Litli myndvarpinn í brjóstvasanum á Brioni-jakkafötunum slóst við bringu hans á hlaupunum. Hann hugsaði um stafina sem prýddu áttunda hring heljar: CATROVACER. hann sá fyrir sér plágugrímuna og einkennilegu undirskriftina: Sannleikurinn verður aðeins séður með augum dauðans. Þótt Langdon væri allur af vilja gerður reyndist honum erfitt að tengja þessa hluti saman. Þegar hann nam loksins staðar á stigapallinum var Sienna þar fyrir og lagði við hlustir. Langdon heyrði hratt fótatak bergmála upp stigann að neðan.

„Er önnur útgönguleið?“ hvíslaði Langdon.

„Fylgdu mér,“ sagði hún fljótmælt.

Sienna hafði þegar bjargað lífi Langdons einu sinni þennan dag þannig að hann áleit sig ekki hafa um annað að velja en að treysta henni. Hann dró djúpt andann og hentist á eftir henni niður stigann.

Þau fóru niður um eina hæð og fótatak þeirra sem voru á leið upp nálgaðist óðfluga, nú voru ekki nema ein eða tvær hæðir á milli þeirra.

Af hverju æðir hún beint í flasið á þeim?

Áður en Langdon gat mótmælt greip Sienna í hönd hans og kippti honum af stigaganginum og inn á íbúðaganginn – langan gang með læstum dyrum.

Við getum hvergi falið okkur hér!

Sienna smellti ljósarofanum og nokkur ljós slokknuðu en rökkvaður gangurinn bauð samt ekki upp á neinn felustað. Þau blöstu við hérna. Dynjandi fótatakið var næstum komið alla leið til þeirra og Langdon vissi að andstæðingar þeirra myndu birtast á stigapallinum á næsta andartaki, og sjá þá allan ganginn.

„Lánaðu mér jakkann þinn,“ hvíslaði Sienna og kippti jakkanum af Langdon. Síðan þvingaði hún Langdon til að krjúpa á bakvið sig í inndreginni dyragætt. „Ekki hreyfa þig!“

Hvað er hún að gera? Hún blasir við öllum!

Hermennirnir birtust á stigapallinum á hraðri leið upp en stoppuðu snögglega þegar þeir sáu Siennu á dimmum ganginum.

Per l‘amore di Dio!“ hrópaði Sienna að þeim gremjulegri röddu. „Cos‘è questa confusione?

(78-9)

 

Fleira eftir sama höfund

Da Vinci lykillinn

Lesa meira