Beint í efni

Íslandsförin

Íslandsförin
Höfundur
Guðmundur Andri Thorsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1996
Flokkur
Skáldsögur

Af bókarkápu:

Sagan er lögð í munn ungum enskum aðalsmanni sem heldur til Íslands á seinni hluta 19. aldar. Ferðin er ævintýraleg og ferðafélagarnir ekki síður: Vinurinn Cameron sem sveiflast á milli aðdáunar og óbeitar á þessu fráleita landi, og Íslendingurinn Hólm sem hefur ótal járn í eldinum og bregður sér hvorki við áföll né fjandskap, en er þó öðru fremur að leita stóru ástarinnar. Saman hitta þeir fræga Íslendinga eins og Jón Sigurðsson og Matthías Jochumsson, en líka alþýðufólk og einkennilega presta á torfarinni leið sinni að Heklu.
Söguhetjan sér landið í ljóma hugsjóna sinna, en innra með sér veit hann samt að eitthvað persónulegra og leyndardómsfyllra dregur hann á vit þessa hrjóstruga eylands.


Úr Íslandsförinni:

Ég stefni að eftirfarandi:

1)  Sjá Geysi gjósa
2)  Ganga á Heklu
3)  Kynnast uppreisnarmönnum
4)  Greiða úr tilfinningum mínum varðandi nýlega atburði og Charlotte
5) Grafast fyrir um ættir móður minnar
6)  Fá innblástur til að gera ljóðabálk um Ísland
7)  Vitja Njáluslóða
8)  Vitja Þingvalla
9)  Skynja til hlítar hinn norræna anda sögueyjarinnar
10) Lenda í ævintýrum

(s. 25-26)

------------------------------------

Nóttin þegir. Áðan horfði ég út um gluggann og sá ekkert, engan á ferli, ekki strá sem bærðist. Það var albjart. Mér fannst þögnin þrungin ókyrrð. Ég sef ekki. Klukkan var tvö, síðan þrjú, nú er hún fjögur. Ég mun öldungis ekki fá sofið í nótt. Ég heyrði áðan bylmingshögg á þakinu eins og einhver væri þar og riði húsum. Ég hætti mér ekki út að glugga en ímyndaði mér að verur næturinnar hefðu vaknað af dvala. Höggið á þakinu var raunverulegt. Ég ímyndaði mér að þar væri að verki íslenskur draugur eins og þeim er lýst: afkáralegur stráklingur með stór oddhvöss eyru og bogið nef, tannlausan munn skældan í glotti, himinblá og slikjukennd augu og stóra og kræklótta fingur iðandi af illum áformum. Ég sá fyrir mér verur næturinnar neðan við hann á túninu: iðandi kös af skrípum og ófétum, ókennileg dýr sem rykktust til og hlykkjuðust um í fánýtum dansi, bústna og sællega púka kjamsandi á mykjuflugunum sem flugu kátar upp í þá, raunamæddar afturgöngur húkandi á hlöðuvegg í aldarlangri einsemd; ég sá fyrir mér naut sem dró hálfa húðina á eftir sér og stóð grár strókur úr nösum þess, ég sá slýgræna hafmenn, gráa hesta, mannfugla sem kjöguðu um höggvandi loftið, gamla og eineygða kerlingu sem sat og rýndi í spil og sagði í sífellu að hún sæi þar veg, illmenni, svikráð, dánarbeð, bréf frá einhverjum og óvæntar fréttir; ég sá fyrir mér fjallið opnast og út koma forkunnarstóra mannshönd með hring á hverjum fingri; ég sá undurfagrar álfkonur, slána með hattkúf yfir andliti – andliti – andliti – og í miðju þessu andstyggðarmori sá ég fyrir mér Íslendinginn Jón Hólm þar sem hann gnæfði teinréttur yfir kösinni og tautaði fyrir munni sér fornar og torkennilegar þulur í því skyni að fanga þá anda sem gætu orðið honum að liði við að selja mér vindinn.

(s. 140-141)

Fleira eftir sama höfund

Valeyrarvalsinn

Lesa meira

Mín káta angist

Lesa meira

Ég vildi að ég kynni að dansa

Lesa meira

Íslenski draumurinn

Lesa meira

Mín káta angist

Lesa meira

Náðarkraftur

Lesa meira

Veriveljet

Lesa meira

Nach Island

Lesa meira