Beint í efni

Konungur norðursins

Konungur norðursins
Höfundur
Valur Gunnarsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur

Um Konung norðursins

Fullur titill: Harmsaga Ilkka Hampurilainen 1: Konungur norðursins.

Ilkka Hampurilainen vinnur við ræstingar í farþegaferjum í Helsinki. Hann er tæplega þrítugur, feitur, þunglyndur og einmana og þrátt fyrir jógaiðkun, grænmetisát og gleðipillur bendir ekkert til annars en að ástandið muni fara versnandi. En þegar hann ákveður eitt kvöldið að lokinni vaktinni að verða eftir í ferjunni og drekka sig fullan tekst honum óafvitandi að slaga inn í árþúsunda gamla atburðarás. Ilkka finnur sig skyndilega knúinn til að halda norður á bóginn til að hafa uppi á Brísingameninu sem getur fært mönnum ástina og sverði Freys sem færir mönnum eilíft líf. En er annað einhvers virði án hins? Og hvaða afl hefur tekið sér bólfestu í Ilkka og berst nú við hann um yfirráð líkama hans?

Úr Konungi norðursins

Stokkhólmur, 2007

Ilkka Hampurilainen var þunnur. Svo þunnur að honum leið eins og hann hefði þá um nóttina verið ölvaðasti maðurinn á öllu Eystrasaltinu. En það var meira en svo, því í raun hafði hann verið ölvaðri en nokkur maður hafði verið á Eystrasaltssvæðinu í næstum 1500 ár.

Þynnkan var í samræmi við það, ein sú versta í sögu Evrópu frá því Rómarkeisarar lögðust í svall og tæmdu vínbirgðir hins fram að því siðmenntaða heims. Á fylleríinu höfðu þeir fundið upp fyrirgreiðslupólitíkina sem enn er stunduð víða til sveita, nema að í staðinn fyrir að ríða hestum sínum um héruð og senda ættingja á þing riðu þeir ættingjunum og sendu hestana á þing.

Ilkka ákvað að fara ekki frá borði, að hluta til vegna þynnku á heimssögulegan mælikvarða og að hluta til vegna þess að hann vildi mótmæla sigri Svía á Finnum í ísknattleik á Ólympíuleikunum árið 2006. Ljóst var að Svíar höfðu viljandi tapað fyrir Slóvökum til að fá auðveldari andstæðinga í næsta riðli og komist þannig með vélabrögðum áfram í úrslitaleikinn gegn Finnum sem þeir unnu vissulega en hefðu alls ekki átt að komast í.

Klefinn var tómur þegar hann opnaði dyrnar. Stúdentarnir voru farnir, væntanlega til að njóta æskunnar og vorsins eins og ekkert væri sjálfsagðara og Ilkka sá þá fyrir sér kyssast undir veggjum konungshallarinnar eða drekka sig fulla í almenningsgörðum. En blessunarlega höfðu þeir endurnýjað birgðir sínar um morguninn. Ilkka var staddur einn í klefa með fjórum pelum af mintuvodka. Og því fór sem fór.

Hann hafði einungis ætlað sér að drepa tímann þar til ferjan legði aftur af stað. Það sagði hann að minnsta kosti sjálfum sér þegar hann opnaði fyrsta pelann. En í þetta sinn fór ekkert samkvæmt áætlun. Tíminn líður löturhægt á landi en enn hægar á sjó, bæði skipið og tíminn stóðu kyrr og pelarnir tæmdust óðum. Þegar þriðji pelinn var búinn var Ilkka á leiðinni aftur inn í svartnættið og þá var eins og gripi hann ómótstæðileg þörf til að komast í land. Ilkka stakk síðasta pelanum inn á sig og gekk niður landganginn. Ákveðni var nú í skrefum hans sem yfirleitt skorti.

(61-2)

 

Fleira eftir sama höfund

A Fool for Believing

Lesa meira

Síðasti elskhuginn

Lesa meira

Reykjavík er köld: Cohen á íslensku

Lesa meira

Vodkasongs: stories for late night drinkers

Lesa meira

Seljum allt

Lesa meira

Örninn og Fálkinn

Lesa meira

Bjarmalönd

Lesa meira
stríðsbjarmar

Stríðsbjarmar : Úkraína og nágrenni á átakatímum

Stríðsbjarmar er saga þjóðar í stríði en jafnframt rúmlega þúsund ára saga Úkraínu, allt frá víkingum og kósökkum til keisaravelda og Sovétríkja og loks sjálfstæðis en þó enn meiri átaka. Úkraínustríðið er einhver örlagaríkasti viðburður okkar tíma og hér eru sem flestar hliðar málsins fangaðar á aðgengilegan hátt.
Lesa meira