Beint í efni

Leikur hlæjandi láns

Leikur hlæjandi láns
Höfundur
Amy Tan
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1992
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

The Joy Luck Club eftir Amy Tan í þýðingu Rúnars Helga.

Úr Leik hlæjandi láns

Móðir mín endurvakti Klúbb hlæjandi láns í San Francisco árið 1949, tveimur árum áður en ég kom í heiminn. Þetta var árið sem foreldrar mínir fóru frá Kína með eina ferðatösku úttroðna af fínum silkikjólum. Það vannst ekki tími til að pakka neinu öðru niður, útskýrði móðir mín fyrir föður mínum eftir að þau stigu á skipsfjöl. Samt syntu hendur hans í örvæntingu milli gljáandi silkiefnanna í leit að bómullarskyrtum og ullarbuxum.

Þegar þau komu til San Francisco lét faðir minn hana fela þessi glansklæði. Hún gekk í sama brúnköflótta kínakjólnum þangað til Flóttamannaaðstoðin gaf henni tvo aflagða kjóla, báða of stóra á bandarískar konur. Aðstoðin var rekin af hópi hvíthærðra bandarískra kvenna úr Fyrstu kínversku babtistakirkjunni. Vegna gjafanna gátu foreldrar mínir ekki afþakkað boð um að ganga í söfnuðinn. Þau gátu ekki heldur hunsað þá skynsamlegu ábendingu gömlu kvennanna að tilvalið væri að bæta enskukunnáttuna með því að sitja biblíuskýringafundi á miðvikudagskvöldum og síðar með því að mæta á kóræfingar á laugardagsmorgnum. Þannig hittu foreldrar mínir Hsu-, Jong- og St. Clair-fjölskyldurnar. Móðir mín fann að konurnar í þessum fjölskyldum höfðu einnig lent í ólýsanlegum hörmungum í Kína og ólu í brjósti vonir sem bjöguð enskan náði engan veginn að gera skil. Að minnsta kosti kannaðist móðir mín við dofann í andlitum þessara kvenna. Og hún sá hve kvik augun í þeim urðu þegar hún viðraði hugmyndina um Klúbb hlæjandi láns.

Hlæjandi lán var hugmynd sem móðir mín hafði gengið með frá því hún var í sínu fyrra hjónabandi í Kweilin, áður en Japanana bar að garði. Þess vegna finnst mér hlæjandi lán vera Kweilin-sagan hennar. Það er sagan sem hún sagði mér þegar henni leiddist, þegar hún hafði ekkert að gera, þegar sérhver skál hafði verið þvegin og búið var að þurrka tvisvar af Formica-borðinu, þegar faðir minn sat yfir dagblaðinu og reykti hverja Pall Mall-sígarettuna á fætur annarri, áminning um að ónáða ekki. Á slíkum stundum tók móðir mín fram kassa fulla af gömlum skíðapeysum sem við höfðum fengið frá Vancouver, frá ættingjum sem ég hafði aldrei séð. Hún klippti neðan af peysu og togaði í hnökróttan enda, festi hann í pappaspjald. Og svo hóf hún söguna í sama mund og hún byrjaði að vinda af fullkominni taktfestu. Í áranna rás sagði hún mér alltaf sömu söguna, nema hvað sögulokin urðu drungalegri, vörpuðu löngum skuggum inn í líf hennar, og um síðir inn í mitt.

(s. 7-8)
 

Fleira eftir sama höfund