Beint í efni

Lítil tilraun til betra lífs: Leynileg dagbók Hendriks Groen, 83 1/4 ára

Lítil tilraun til betra lífs: Leynileg dagbók Hendriks Groen, 83 1/4 ára
Höfundur
Hendrik Groen (dulnefni fyrir Peter de Smet)
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur

Skáldsagan Pogingen iets van hen leven te maken, Ragna Sigurðardóttir þýddi úr hollensku.

um bókina

Þó að Hendrik Groen sé orðinn gamall maður er hann langt í frá dauður úr öllum æðum. Og hann hefur engan áhuga á að þessu fari að ljúka. Tæknilega séð er hannn gamalmenni - en þarf það endilega að þýða að lífið eigi einungis að snúast um að drekka kaffi og bíða eftir sínum hinsta degi?

Í leynilega dagbók sína skrifar hann af einlægni um uppreisn vinahópsins á elliheimilinu gegn ríkjandi kerfi og kostulegar uppákomur - en einnig sára depurð og nístandi sorg sem fylgir hrörnun líkama og sálar.

úr bókinni

Ég kannaði varlega hvort í klúbbnum væri stemning fyrir stuttri sumarferð. Auðvitað fyrst hjá Eefje vinkonu minni. Ef henni finnst þetta vonlaus barátta hef ég enga þörf fyrir að eyða orkunni í það. En eftirlanga umhugsun (sem gerði mig taugaóstyrkan) varð hún áhugasöm. 

"Mér hefur aldrei dottið þetta í hug, en kannski er það góð hugmynd," sagði hún íhugul. "Ég ætla aðeins að hugsa málið."

Ég spurði hvað "aðeins" væri langur tími. 

"Einn eða tveri dagar, held ég. Hefur þú svo langan tíma?"

Við eigum ekki langan tíma eftir, en við höfum allan þann tíma sem við viljum. 

Við ættum að vera að flýta okkur, en eiginlega er ekkert þess virði lengur.

Hinar lúmsku Slothouwer-systur felldu hálfpartinn óviljandi blómavasa fullan af krýsantemum fyrir frú Van Diemen. Edward sá það gerast og hann sver að þær hafi gert þetta viljandi. Systrunum er illa við Van Diemen. Og við alla sem einhvern tímann hafa opnað munninn um andfélagslega hegðun þeirra. Þær beina andúð sinni einna helst að þeim minni máttar. Þær eru bilaðar og blóðþyrstar. Það var mikip uppnám vegna þess að úlfar hafa sést í Hollandi á ný en hér hafa tvær hýenur leikið lausum hala árum saman. Forstöðukonan lítur þetta illu auga. Úrræði gegn hegðun sem einkennist af kvalalosta eru ekki mörg. Til dæmis má ekki sparka í Slothouwer-dömurnar. Þá mætir pressan þegar í stað: "Öldruðum systrum (87 og 85) misþyrmt. Þær áttu það skilið!"

Fleira eftir sama höfund