Beint í efni

Mávahlátur

Mávahlátur
Höfundur
Kristín Marja Baldursdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1995
Flokkur
Skáldsögur


Úr Mávahlátri:

Undir morgun þegar hún losaði svefninn sá hún hvar maður sat á rúmstokki Freyju. Agga þekkti þar Enok lækni, hinn dökka og vestfirska, sem amma hafði fyrir löngu tekið í guðatölu. Agga heyrði að hann talaði við Freyju í hálfum hljóðum og hún kreisti aftur augun og hélt niðri í sér andanum til að nema orðin.
 Ferðu upp í kirkjugarð, alla leiðina? spurði hann.
 Lengra, sagði Freyja lágt, upp fyrir kartöflugarða, þá verður gönguferðin mátulega löng. En út í hraunið fer ég ekki því þar verður maður áttavilltur og ruglaður og sprungurnar gleypa mann. Þetta land gleypir mann því það er kalt, dimmt og fullt af illsku. Ég hef andstyggð á því. Ég hef andstyggð á fisklyktinni, skömmtunarseðlunum, snýtingunum, ropanum, glápinu, ókurteisinni og garginu í fuglunum.
 Það eru nú bara mávarnir, Freyja mín, sagði læknirinn og ræskti sig. En segðu mér, hvers vegna komstu til baka?
 Frúin þagði og hann hélt áfram: Ég man eftir þér sem lítilli stúlku, augu þín voru eins og tveir ísmolar en samt svo undurfögur. Ég átti bágt með að hafa augun af þeim. Þú, þessi litla budda, svona há og horuð núna. Júlíana segir að þú borðir aldrei neitt, er það rétt, Freyja mín, hefurðu enga lyst?
 Hún vildi engu svara um lystarleysið. Aftur og aftur spurði hann hvað hún borðaði og hvenær dagsins, en hún ansaði út í hött og ræddi af alvöru og með stunum um mávana sem emjuðu og görguðu ofan í fjöru bak við apótekið. Á næturnar heyrði hún svo hláturinn í þeim hingað upp í herbergið.
 Læknirinn horfði lengi á hana. Svo spurði hann hana hvort hún þyrfti að ganga svona mikið?
 Já, sagði hún hás og reisti aðeins höfuð frá kodda, annars finnst mér ég vera að kafna. Hér er alltaf skýjað og skýin þrengja að og þrýsta manni niður. Ég sé svo sjaldan ljósið. Ég er inni í apótekinu allan daginn.
 Hún lét sig falla á koddann og læknirinn strauk um andlit hennar.
 Freyja mín, ertu mjög vansæl? spurði hann lágt.
 Hún þagði. Eftir langa íhugun sagði læknirinn: Freyja mín, geturðu ekki farið að dansa eins og aðrar ungar konur?
 Dansa? sagði hún hæðnislega, núna?
 Nei, skottast á dansleiki þegar þú ert orðin frísk og dansað við unga, hrausta menn.
 Agga galopnaði augun, en var fljót að láta þau aftur þegar hún heyrði í ömmu og afa. Enok læknir leit upp þegar þau komu inn og sagði: Stúlkan er ekki með lungnabólgu, en vott af bronkítis, og ekki er ég frá því að vannæring þjái hana að einhverju leyti. Hún á að liggja í rúminu þessa viku, drekka eitthvað heitt og nærandi, flóaða mjólk og hafraseyði á hverjum morgni og þegar hún hressist verður hún að borða fisk með kartöflum og smjöri. Hún má ekkert fara út og ekkert ganga og ég tel að hér inni verði fullkalt fyrir hana. Ef ekki er hægt að kynda húsið betur verður að færa hana niður og hafa hjá henni rafmagnsofn.
 Amma leit með nístingskulda á afa sem ræskti sig og sagði: Ég læt þá í vélsmiðjunni fara í fýringuna í dag.
 Freyja fékk hafraseyði og flóaða mjólk í tíma og ótíma og Agga var notuð sem matarlyfta á milli hæða. Dökku baugarnir undir augunum lýstust lítillega og einn daginn áræddi Agga að spyrja hana um guð, minnug þulunnar sem hún fór með um nóttina. Freyja hóstaði veiklulega og ansaði því til að hún hefði ekkert haft af honum að segja, en líklega væri þetta friðsemdarmaður sem aldrei gerði flugu mein.
 Agga horfði á hana hneyksluð og spurði hvort hún vissi ekki að hann hefði skapað Jesúm og frelsað heiminn?
 Gerði hann það? sagði Freyja, hann hlýtur að hafa gert það meðan ég var úti í Ameríku. Svona er að vera á þessu flandri, maður missir af öllu.

(s. 89-91)

Fleira eftir sama höfund

Karitas uden titel

Lesa meira

Die Eismalerin

Lesa meira

IL SORRISO DEI GABBIANI

Lesa meira

Chaos sur la toile

Lesa meira

Kantata

Lesa meira

Karitas

Lesa meira

Fra hus til hus

Lesa meira

Karitas utan titel

Lesa meira

Karitas - Kaos på lærred

Lesa meira