Beint í efni

Ódauðleg ást. Smásögur

Ódauðleg ást. Smásögur
Höfundur
Ljúdmíla Petrúshevskaja
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1993
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Smásagnasafnið Béssmértnaja ljúbov eftir Ljúdmíla Petrúshevskaja í þýðingu Ingibjargar.

Úr Ódauðlegri ást

 Einhverju sinni settist hún líka í kjöltu Kolja míns. Kolja, sem er magurt góðmenni, var bókstaflega að sligast undan þyngd Lenu, bæði líkamlega og siðferðilega, hann hafði ekki búist við þessu og forðaðist að snerta hana með höndunum og skotraði augunum til Marishu, en Marisha sneri sér snöggt við og fór að tala við Shjora, og þá var það sem ljósið byrjaði að renna upp fyrir mér. Ég fór að skilja að Lena hafði hlaupið á sig og sagði:

 - Þarna hljópstu á þig, Lena. Marisha er afbrýðisöm út í þig vegna mannsins míns.

 En Lena litla gretti sig áhyggjulaus og sat kyrr á hnjánum á Kolja sem varð grútmáttlaus einsog upprifinn stilkur. Ég býst við að það hafi verið þá sem vinátta þeirra Lenu og Marishu byrjaði að kólna, sem varð svo til þess að Lena Martsjúkaite hvarf smátt og smátt þangað til á endanum að hún eignaðist andvana barn, en það var seinna. Á þessari stundu brugðust allir við með því að þykjast vera önnum kafnir, Tanja skálaði við Serge, Shjora hellti í glös og rétti þjakaða Kolja og kuldalegu Marishu, Andrei fór að tala kurteislega við Nödju sína, þennan bjána sem glotti sigri hrósandi á mig, konu sligaða mannsins.

 Hinsvegar þorði Lena aldrei að setjast í fang Shjora, enda var það ekki áhættulaust, vegna þess að Shjora sýndi ævinlega kynferðislega reisn einsog títt er um smávaxna karlmenn og elskaði allar konur - Marishu, Tönju og jafnvel Lenu. Lena, sem var fullkomlega kynköld, átti á hættu að vekja slíkan losta með Shjora að hann reyndi að nauðga henni fyrir allra augum einsog hafði reyndar einu sinni komið fyrir eina af dömunum hans Andreis sem þóttist vera uppfull af ástríðu þegar hún dansaði við Shjora en það má maður ekki gera þegar Shjora er annars vegar og þegar lagið var búið greip Shjora undir hendurnar á hávaxinni dömunni og dró hana inn í næsta herbergi einsog í óráði en einsog öllum var kunnugt svaf enginn í því herbergi þessa nótt því að dóttir Marishu og Serge gisti hjá ömmu sinni. Shjora tókst að fleygja hálfsturlaðri dömunni upp í barnarúmið hennar Sonju litlu en í sama mund komu Serge og Andrei sem gátu ekki stillt sig um að hlæja þegar þeir drógu Shjora burt og skelfingu lostin daman sveipaði að sér kjólnum sem hafði rifnað í bardaganum.

(s. 88-89)

Fleira eftir sama höfund