Beint í efni

Öræfi

Öræfi
Höfundur
Ófeigur Sigurðsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

 

Vorið 2003 kemur ungur maður örmagna og blóðugur inn í Þjónustumiðstöðina í Skaftafelli eftir hrakninga á öræfum. Hann heitir Bernharður Fingurbjörg, austurrískur örnefnafræðingur, og erindi hans til landsins var að halda í rannsóknarleiðangur inn á Vatnajökul og vitja um vettvang hroðalegs glæps sem framinn var tuttugu árum fyrr og beindist meðal annars að móður hans.

Á köflum er þessi bók nokkurs konar sálumessa yfir Íslandi. Þetta er magnaður óður um öræfi landsins, öræfi mannssálarinnar og öræfi íslenskrar menningar. Hér skiptist á fjarstæðukennt grín og kraftmikil ádeila og allt vitnar um djúpa tilfinningu höfundar fyrir íslenskri náttúru og mannlífi gegnum aldirnar.

úr bókinni

Kampavínið var óvægið og urðum við allkátir. Ég ætla ekki að lesa alla bókina fyrir þig sagði Fastagestur á Sirkus, heldur byrja og beinþýða fyrir þig kaflann Hjá villufénu í bókinni Fjöll og firnindi, þar hefur fjallagarpurinn og sagnatröllið Stefán Filippusson orðið en Árni Óla ritaði upp frásagnirnar hans: Once upon a time in the autumn, þýddi Fastagestur, I got a message from Jón on Núpsstaður, that I should go for him to Eystrafjall and make coals. There were bunches of wood from the spring. Þetta þótti mér fögur byrjun og varð allspenntur. Fastagestur las og þýddi fyrir mig allan kaflann um villuféð á ensku, því hann vantreysti íslenskukunnáttu minni, Fastagestur var mjög fastur fyrir og ætli það sé ekki eðli fastra gesta, þrátt fyrir að fleira fólk kæmi á kaffihúsið og skvaldrið í öllu fólkinu ykist stöðugt og lífsgleðin magnaðist og kliðurinn sveipaðist um salinn og bergmálaði um veggina, var hann staðfráðinn í því að halda áfram og þýða og lesa fyrir mig valda kafla úr bókinni sem við keyptum í Fornbókabúð Braga, hann las fyrir mig frásögn Sigurðar á Tvískerjum úr bókinni Göngur & réttir I sem heitir Nótt undir jökli, um það þegar Sigurður söng sálma sér til lífs fastur lengst ofan í sprungu; haustið 1936 þegar Sigurður var ungur drengur var hann við annan mann að sækja tvo sauði sem höfðust við í klettum, þá var mikill snjór í fjallinu og vond færð og um morguninn hafði móðir Sigurðar sagt hann skyldi hafa tvo trefla og það gerði hann, Sigurður batt annan trefilinn um höfuðið yfir þykka húfu, fóðraða með kiðlingaskinni, hann var í tvennum nýjum sokkum, selskinsskóm og sneri snoðið inn, í þykkum ullarnærfötum, milliskyrtu úr þykku kakítaui, upplarpeysu, nankinssamfesting og yst í vatnsþéttum stormjakka, en innan á bringunni hafði hann troðið heyi til að hafa tuggu handa sauðunum, var Sigurður því allvel dúðaður og hló förunautur hans þegar þeir lögðu af stað klukkan 6 um morguninn og sagði hann líkjast þorski sem væri kominn að goti, þá var snjór á jörð, 6 stiga frost og norðangola, segir í frásögn Sigurðar, sauðirnir voru staddir í klettunum en vegna snjóþyngsla og vondrar færðar áttu þeir erfitt með að nálgast þá nema undir klettunum, þar eru brattar skriður og klappir með lausagrýti, hryggir og mjóar skorur fullar af snjó, einstaka lyngtorfur grasflákar, allt ákaflega bratt og laust í sér, neðan við hlíðina gengur hamrabelti og þar handan við hengiflugið langt fyrir neðan lúrði grængljáandi skriðjökullinn, skorinn og ófrýnilegur með sínar óteljandi sprungur, læki og óbotnandi gjótur, í skoru á milli hryggja segir Sigurður við förunaut sinn: Líklega væri búið með þann sem niður færi, já svaraði förunautur hans, sá myndi áreiðanlega ekki segja fleiri sögur, þá heyrði Sigurður brest og leit upp og sá að skaflinn fyrir ofan brast, hann heyrði förunaut sinn segja: Nú.

(s. 134-135)

 

Fleira eftir sama höfund

Skáldsaga um Jón

Lesa meira

Skál fyrir skammdeginu

Lesa meira

Handlöngun

Lesa meira

Provence í endursýningu

Lesa meira

Tvítólaveizlan

Lesa meira

Biscayne Blvd

Lesa meira

Kviðlingar

Lesa meira

Áferð

Lesa meira