Beint í efni

Örsögur eftir Julio Cortázar

Örsögur eftir Julio Cortázar
Höfundur
Julio Cortázar
Útgefandi
Óskráð
Staður
Ár
2009
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Örsögur eftir argentínska rithöfundinn Julio Cortázar (1914-1984. Sögurnar birtust í dagblaðinu El País í apríl 2009. Í þeim koma fram verur sem Cortazár notar í fleiri sögum og kallar cronopios (krónópar) og famas (famar), sjá m.a. hér um þýðingu þeirra.

Hermann þýddi sögurnar í apríl 2009 og birti fyrst á Facebook síðu sinni en þær eru annars óbirtar.

Úr þýðingunni

Vegamál

Armur krónópi er úti að aka á bílnum sínum þegar hann verður fyrir því óláni að bremsurnar bila á götuhorni og hann klessir á annan bíl. Umferðarlögreglumaður kemur askvaðandi og dregur upp sektakompu í bláu bandi.

- Kunnið þér ekki að keyra? – hrópar umferðarlögreglan.

Krónópinn virðir hann andartak fyrir sér og spyr svo:

- Hver eruð þér?

Umferðarlögreglumaðurinn ygglir brún og rennir augum yfir einkennisbúning sinn til að ganga úr skugga um að ekkert fari þar milli mála.

- Hvað meinið þér hver ég sé? Sjáið þér ekki hver ég er?

- Ég sé einkennisbúning umferðarlögreglu – útskýrir krónópinn ákaflega skelkaður. – Þér eruð innan í þeim búningi en búningurinn segir mér ekki hver þér eruð.

Umferðarlögreglan lyftir upp hönd til að rétta honum löðrung en er með kompuna í annarri hendi og blýant í hinni og löðrungar hann því ekki en heldur áfram að skrifa niður bílnúmerið. Krónópinn er afar skelkaður og óskar þess að hann hefði ekki ekið á, því nú verður honum fylgt eftir með endalausum spurningum og hann mun ekki geta svarað þeim þar sem hann veit ekki hver spyr þeirra og meðal ókunnugra getur maður ekki gert sig skiljanlegan.
(1952)

--------------------------------

Hádegisverðir

Á veitingastað krónópanna henda gjarnan atvik á borð við þetta, nefnilega að fami pantar með mikilli einbeitingu steik með frönskum kartöflum og verður orðlaus af undrun þegar krónópaþjónninn spyr hversu margar franskar kartöflur hann vilji.

- Hvað eigið þér við með hversu margar? – hrópar faminn upp yfir sig. – færið mér franskar kartöflur og ekki orð um það með, fjandinn hafi það!

- Málið er að á þessum stað berum við fram sjö franskar kartöflur, þrjátíu og tvær eða nítíu og átta – útskýrir krónópinn.

Faminn ígrundar nokkra stund og niðurstaða ígrundunarinnar felst því að hann segir við krónópann:

- Heyrið þér mig, gæskurinn, farið þér bara í rass og rófu.

Famanum til gríðarlegrar undrunar hlýðir krónópinn honum umsvifalaust, það er að segja hverfur eins og vindurinn hafi drukkið hann. Að sjálfsögðu kemst faminn aldrei að raun um hvar þennan tiltekna rass og þessa tiltekna rófu er að finna, og sennilega krónópinn ekki heldur, en í öllu falli er hádegisverðurinn fjarri því að vera vel heppnaður.
(1952-1956)

-------------------------------------

'Never stop the press'

Fami nokkur vann svo ötullega við mate-te-iðnaðinn að honum gafst aldrei-tími-til-neins. Þannig veslaðist þessi fami smám saman upp og hann hóf gjarnan augu sín til himins og hrópaði: „Hve ég þjáist! Ég er fórnarlamb vinnunnar, og þótt vinnusemi mín sé til fyrirmyndar, líf-mitt-er-píslarganga!“

Þegar von nokkur sem starfaði sem vélritari á skrifstofu famans gerði sér sálarkvöl hans ljósa leyfði hann sér að snúa sér að honum og segja:

- Sælinú gælinú fami fami. Ef yður einangrun orsakar vinna, ég lausn í vinstri vasa og dreg fram núna strax.

Faminn hleypti í brýnnar af þeim elskulegheitum sem einkenna kyn hans og rétti fram höndina. Ó, kraftaverk! Á milli fingra hans lá heimurinn í einni bendu og faminn hafði ekki lengur ástæðu til að kvarta yfir gæfu sinni. Vonin kom á hverjum morgni með nýjan skammt af kraftaverki og faminn sat í hægindastól sínum og tók á móti stríðsyfirlýsingu og/eða friðaryfirlýsingu, góðum glæp, sérvöldu útsýni frá Tírol og/eða Bariloche og/eða Porto Alegre, nýjungum í bílaiðnaði, ræðu, mynd af leikkonu og/eða leikara o.s.frv. Allt þetta kostaði hann tíkall, sem er ekki mikill peningur til að kaupa sé heiminn fyrir.

 


 

Fleira eftir sama höfund

Leiðbeiningar um hvernig ganga skal upp stiga

Lesa meira