Beint í efni

Ríólítreglan

Ríólítreglan
Höfundur
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Barnabækur

Um Ríólítregluna:

Kennari hverfur sporlaust þegar hann skipuleggur vorferð í Landmannalaugar. Skömmu síðar birtist dularfullur maður sem býðst til að taka við starfinu. Leyndarmál fortíðar sameina félaga Ríólítreglunnar. Ógnarkraftar hulduheima toga í þá og saman mæta þeir örlögunum.

Ríólítreglan æðir með lesandann suður til Kólumbíu, vestur á firði, um rústir álfabyggða og í fótspor ribbaldans Torfa sterka inn í Jökulgil. Þar standa hulduverur vörð um fjallasali og kalla menn í björgin.

Úr Ríólítreglunni:

Skammt ofan við höfuðborgina kyssti síðdegissólin skeggjaðan vanga Trausta. Hann stóð gleiður á hraunþaki og pírði mógræn augun yfir mosaþemburnar eins og til að átta sig á því hvert halda skyldi.

Því næst axlaði hann bakpokann, stefndi í vesturátt og fór hratt yfir. Hann vissi hvert hann ætlaði og hvað hann var að sækja.

Trausti minnti kannski mest á ævintýraprins. Að vísu var enginn hvítur hestur með í för en lúnir og fornfálegir gönguskór báru maninn hratt yfir. Þykkur ullarfrakki sveipaði breiðar herðar. Nefið var hvasst og ljósir lokkar féllu niður á hátt ennið. Einhvern veginn var Trausti ögn myndarlegri en myndarlegustu menn, eilítið skarpeygari og örlítið fegurri. Svo einkennilegt var það.

Borgin baðaði sig í síðdegisroða í fjarskanum og færðist nær þar sem Trausti stikaði hratt yfir. Það voru margir á ferð um hraunið þetta litfagra síðdegi en Trausti gaf sér engan tíma til að staldra við og spjalla. Til þess var erindið of brýnt og verkefnið of mikilvægt.

- Hvaðan kemur þú, meistari? kallaði gráskeggjaður karl í gullbrydduðum kufli.

Trausti svaraði ekki en bar hönd að enni í kveðjuskyni og flýtti sér hjá sem mest hann mátti. Hann varð að komast á áfangastað á óskastund.

Trausti rann yfir tún og eftir malarstíg hratt og örugglega þar til hann kom í íbúðarhverfi. Þá hægði hann snarlega á göngu sinni til að dragta ekki athygli að óeðlilegum ferðahraða. Hann arkaði einbeittur sína leið eftir götum, yfir torg og bílastæði.

Vegfarendur sem voru á leið frá vinnu þetta síðdegi gátu ekki annað en tekið eftir þessum glæsilega manni. Kona sem steig inn í bíilnn sinn staldraði við og starði forvitin. Trausti kinkaði brosandi til henar kolli. Roskinn karl sem sat á bekk staulaðist á fætur og mændi á eftir Trausta þar sem hann skundaði fram hjá.

- Ósköp er hann kunnuglegur. Hver skyldi þetta vera? tautaði karlinn og fékk sér aftur sæti.

Tveir kútar á þríhjóli hrópuðu á eftir þessum vörpulega ferðalangi:

- Halló, manni! Ertu kóngur? Ertu kúreki? Hvert ertu að fara?

Trausti veifaði guttunum kumpánlega og hélt för sinni áfram uns hann staðnæmdist utan við skólabyggingu.

við hlið skólans var samkomuhús. hann virti byggingarnar fyrir sér.

Hulduberg – íþrótta- og tómstundamiðstöð, stóð letrað á samkomuhúsið.

- Get ég aðstoðað? spurði glaðleg og hrokkinhærð kona sem gekk niður tröppurnar. - Þú virðist villtur?

- Villtur er ég ekki, sagði Trausti ákveðinn. - En þú gætir hjálpað mér að finna Bjarma skólastjóra.

- Það er nú lítið mál, svaraði unga konan. - Skólahúsið, upp stigann, ganginn á enda og innsta hurð til vinstri.

- Hafðu mínar kærustu þakkir, sagði Trausti og hvarf á augabragði inn í skólann.

- Þakka þér miklu heldur, kallaði konan á eftir honum. - Láttu bara vita ef það er eitthvað fleira, bætti hún við þótt Trausti væri horfinn inn um skóladyrnar. - Endilega, láttu bara vita, sagði hún lágt og brosti feimnislega með sjálfri sér um leið og hún sneri við og gekk aftur inn í félagsmiðstöðina.

- Hvað var ég aftur að fara að gera? spurði hún sjálfa sig ringluð þegar hún kom inn í anddyrið.

(63-5)

Fleira eftir sama höfund

Fíasól á flandri

Lesa meira

Fíasól í fínum málum

Lesa meira

Kjallari og fyrsta hæð - hætta á hruni: bóklestur barna - alvara málsins

Lesa meira

Fíasól í hosiló

Lesa meira

Markaðsbörnin og ábyrgðin

Lesa meira

Sigurför himintunglanna: glerlist á sporbaug út í heim

Lesa meira

Vorvindar: viðurkenningar IBBY á Íslandi 2004.

Lesa meira

Bókmannsraunir: vangaveltur um staf og blað

Lesa meira

Gallsteinar afa Gissa

Lesa meira