Beint í efni

Skítadjobb

Skítadjobb
Höfundur
Ævar Örn Jósepsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2002
Flokkur
Skáldsögur

Úr Skítadjobbi:

“En er þetta þá morð eða ekki?” Svavar horfði á Stefán sem lyfti höndum örlítið með báða lófa uppí loft og setti í axlirnar um leið. Afhverju var mannandskotinn alltaf svona tregur? Erfiður. Leiðinlegur?
“Það er nú það. Einsog ég segi, við vitum það ekki ennþá. Strákurinn segir að þetta sé allavega ekki sjálfsmorð en við vitum það svosem ekki heldur. Eða hvað?” Hann leit á Árna sem engdist í sætinu. Hananú, hugsaði Stefán, stattu þig strákur.
“Nei, við vitum það auðvitað ekki.” Þeir voru búnir að sitja í hálftíma inni hjá Svavari og þetta var það fyrsta sem hann sagði.
Stefán hafði útlistað nákvæmlega fyrir honum allt sem þeir sáu og fundu og komust að frá því þeir voru kallaðir út um morguninn þartil þeir fóru heim uppúr ellefu um kvöldið. Blóðslóðin í þakíbúðinni var augsýnilega úr einum manni, lá frá forstofunni að baðinu, síðan að herberginu og þaðan útá svalir og alveg framað handriðinu. Eða öfugt, tæknideildin mundi skera úr um það. Slóðin endaði – eða byrjaði – á stað á svölunum sem kom hérumbil heim og saman við lokalendingarstað Péturs Sigurðssonar á gangstéttinni og bílastæðinu fjórtán hæðum neðar. Ekkert fannst í íbúðinni sem skýrt gæti tilkomu þessa smávægilegu blóðsúthellinga, sem voru ekki meiri en svo að slóðin gat hæglega verið eftir mann með lítilsháttar blóðnasir eða örlitla skurfu á fingri. Slatti af fingraförum fannst í íbúðinni, aðallega í herberginu og á baðherberginu, sem virtust einu hlutar íbúðarinnar í einhverri notkun, og svo á svalahurðinni og handfangi hennar. Búið var að taka fingraför húsvarðarins til samanburðar og til stóð að taka fingraför tveggja sölumanna og sex kvenna og karla sem vitað var að höfðu skoðað íbúðina. Til að byrja með. Búið var að taka skýrslur af öllum íbúum blokkarinnar, bæði þeim sem voru heima þegar þetta gerðist og hinum sem komu heim síðar. Fjórir höfðu verið heima, auk húsvarðarins. Gömul kona á þriðju hæð, hálfáttræð lögmannsekkja með heyrnartæki og staf, Guðrún gamla sem húsvörðurinn hafði minnst á. Sjö ára gutti á tíundu hæð með mislinga og Hrefna mamma hans, tannlæknir sem hafði tekið sér frí til að vera heima hjá honum. Og svo Páll Jónsson, verðbréfabraskari, sem húsvörðurinn kallaði Palla og sagði vera með flensu. Páll, sem bjó á sjöundu hæðinni og hafði útsýni yfir Flóann, staðfesti sjúkdómsgreininguna og bæði útlit hans og súr lyktin sem barst innanúr íbúðinni tóku af allan vafa um ástand hans. Guðrún gamla var að lesa bók, mæðginin að horfa á vídeó og Páll sofandi þegar Pétur fór í sína síðustu ferð.

(s. 36-37)

Fleira eftir sama höfund

Sá yðar sem syndlaus er

Lesa meira

Betra bak: leiðir til að styrkja bakið og losna við eymsl og verki

Lesa meira

Blodbjerget

Lesa meira

Dunkle Seelen

Lesa meira

Svarta änglar

Lesa meira

Leðurblakan

Lesa meira

Wer ohne Sünde ist

Lesa meira

Land tækifæranna

Lesa meira

Tabú: Hörður Torfason - ævisaga

Lesa meira