Beint í efni

Skriftir: örlagagletta

Skriftir: örlagagletta
Höfundur
Pétur Gunnarsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Ævisögur og endurminningar

Um Skriftir

Skriftir er fyrst og fremst lofgjörð um íþróttina að skrifa, kraftaverkið að fanga skynjun, reynslu og tilfinningu í jafn ólíklegt efni og orð. Til að sá fyrstu frækornum þeirrar listar þurfti hvorki meira né minna en heilt skólakerfi með ofuráherslu á heimaritgerðina. Og þegar skólanum sleppti tók við samfélag sem fagnaði skáldskapnum.

Pétur Gunnarsson er hér persónulegri en áður – og lýsir ekki aðeins fyrstu skrefum sínum inn á ritvöllinn heldur líka viðkvæmum mótunarárum þegar sjálfsvitundin tekur heljarstökk, hormónarnir fara á flug og allir strengir titra.

Hér er það lífið sjálft, hversdagurinn í öllum sínum hátíðleika, sem verður honum að yrkisefni.

Úr Skriftum

Ævinlega þegar ég heyri Reykjavík æsku minnar hallmælt rek ég upp stór innri augu, hún á að hafa verið svo takmörkuð og púkó! En hún lét okkur í té allt sem við þurftum, þráðum og æsktum. Bíó bernskunnar voru átta talsins innan Hringbrautar og sáu okkur fyrir hasar, sparkvellir í öllum áttum og Melavöllur í miðjum bæ. í Hafnarstræti stillti Ellingsen út hnífum og dálkum í öllum stærðum og seldi líka bambusa í boga, örvar og spjót. Á horni Bankastrætis og Skólavörðustígs var skartgripaverslun með hauskúpuhring í útstillingu og Frímerkjahöllin í Lækjargötu bauð úrval flengríðandi káboja og indjána sem soguðu til sín alla manns vasapeninga, að viðbættri eftirtekju úr vösum yfirhafna í fatahenginu heima. Og ekki vanrækti borgin heldur unglinginn með glæsilegu framboði tóbaksbúða sem stilltu út ómótstæðilegum reykjarpípum og tóbaksilmi sem sló fyrir vit um leið og maður átti leið hjá. Við tóku manndómsár með á annan tug bókabúða á einni saman miðbæjartorfunni, Ríkisútvarp, fimm dagblöð, tvö atvinnuleikhús, fjórar hljómplötuverslanir og fimm kaffihús á götuspottanum frá Skólavörðustíg að Aðalstræti. Herra- og dömu- fataverslanir í kallfæri hver við aðra með tilboð um óaðfinnanlegt útlit. Hótel Borg, Sigtún og Glaumbær um helgar.

Höfnin með streymi farþega að og frá umheiminum mynntist við umferðarmiðstöð BSÍ í Hafnarstræti þaðan sem rúturnar lögðu upp með herðakistil af pinklum út á land. Við tók Lækjartorg, hringsett yfirfullum strætisvögnum, en þar fyrir handan Tjörnin með skautasvelli að vetrinum, þá Vatnsmýrin með flugvöll og vélar sem hófu sig til flugs út í heim.

Borgin var hræranleg hátíð og þegar samnefnd bók eftir Hemingway hafði vakið hina sterku Parísarþrá gerðu stillansarnir á Hallgrímskirkju hana svo nauðalíka Eiffelturninum.

En ef mann þyrsti í meiri útlönd stóð kaþólska kirkjan ævinlega opin, útlits eins og hún hefði verið hoggin í stein á miðöldum en ekki steypt árið 1929. Á hægri hönd, eftir að inn var komið, var ískrandi járnhurð sem opnaði aðgang að mjóum stiga sem hringaði sig alveg upp í turn þaðan sem gafst útsýni yfir gervalla borgina og fjallahringinn.

Allt þetta var okkur gefið.

(23-5)

Fleira eftir sama höfund

Punkt punkt komma strich

Lesa meira

Toute l'histoire

Lesa meira

L'Image du monde

Lesa meira

Ich meiner mir mich

Lesa meira

Íslendingablokk (tíðarandasaga)

Lesa meira

Die Rollen und ihre Darsteller

Lesa meira

Ég um mig frá mér til mín

Lesa meira

Brýrnar í Madisonsýslu

Lesa meira

Brýrnar í Madisonsýslu

Lesa meira