Beint í efni

Snjóblinda

Snjóblinda
Höfundur
Ragnar Jónasson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Skáldsögur

Um Snjóblindu:

Á Siglufirði finnst ung kona blóðug og hálfnakin í snjónum nær dauða en lífi. Aldraður rithöfundur deyr á grunsamlegan hátt á æfingu hjá áhugaleikfélagi bæjarins, daginn fyrir frumsýningu. Ari Þór Arason, nýútskrifaður lögreglumaður, reynir að komast að því hvað er satt og hvað er logið í samfélaginu þar sem engum virðist hægt að treysta. Einangrunin, myrkrið og snjórinn þrengja að honum, óttinn nær tökum á bæjarbúum og gleymdir glæpir fortíðar koma upp á yfirborðið.

Úr Snjóblindu:

Siglufjörður,
nóvember 2008.

Ugla sat á kvisti.

Þetta hafði Ágúst alltaf sagt þegar þau sátu saman uppi á kvisti heima hjá foreldrum hennar á Patreksfirði og horfðu út yfir götuna.

Hún brosti við tilhugsunina. Hún var farin að geta brosað aftur þegar hún hugsaði um hann. Það voru liðin fjögur ár síðan hún flutti til Siglufjarðar – alein.

Og raunar voru líka fjögur ár síðan hún hafði séð Patreksfjörð.

Foreldrar hennar heimsóttu hana reglulega, nú síðast í lok október; höfðu gist hjá henni í tvær vikur.

Þau höfðu farið aftur vestur fyrr um daginn.

Og aftur var hún ein.

Hún hafði svo sem eignast nokkrar góðar vinkonur hérna, en enga sérlega nána. Og aldrei talaði  hún um fortíðina. Í þeirra augum var hún bara aðkomustelpa frá Vestfjörðum.

Hún vissi að strákarnir í bænum skiptust á slúðursögum um hana, sem allar voru uppspuni frá rótum. En það gerði ekkert til. Hún var komin með harðan skráp. Eins og henni stæði ekki á sama um það hvað einhverjir strákar á Siglufirði segðu um hana? Það var bara einn strákur sem hafði skipt hana einhverju máli.

Ágúst.

Myndarlegasti strákurinn á Patreksfirði.

Að minnsta kosti að hennar mati.

Þau byrjuðu saman sjö ára – eða það höfðu þau alltaf sagt eftir að samband þeirra hófst formlega á unglingsárunum. En þetta var sennilega rétt – þau höfðu verið nánast óaðskiljanleg frá því í grunnskóla.

Ugla og Ágúst.

Nöfnin órjúfanlega tengd.

Að minnsta kosti á Patreksfirði.

En ekki hér, á Siglufirði. Hér vissi enginn neitt.

Og þannig vildi hún hafa það. Hún kunni ágætlega við að vera dularfulla stúlkan að vestan. Stelpan sem slúðrað var um. Já – og þó – það var kannski ekki alveg rétt að hún léti slúðursögurnar ekki á sig fá. Ein saga hafði sært hana dálítið. Einhvern veginn hafði sá kvittur komist á kreik að hún væri lauslát. Hún skildi ekki hvernig það hafði gerst.

Hún hafði viljað flytja frá Vestfjörðum – strax eftir atvikið sem breytti öllu. Foreldrar hennar tóku það ekki í mál í fyrstu. Hún var ekki búin með stúdentsprófið, var á næstsíðasta árinu í Menntaskólanum á Ísafirði.

Henni tókst að ljúka vorprófunum, bauðst svo starf á Siglufirði. Í fiski – hún var sannarlega á heimavelli þar. Og henni hafði verið sagt að það gæti líka losnað hlutastarf á skrifstofunni. Það hafði gengið eftir. Nú var hún búin að minnka við sig í fiskvinnslunni og komin í fimmtíu prósent skrifstofustarf. Vonandi hefði þessi bölvaða kreppa, sem var nú að skella á af svo miklum þunga, ekki áhrif á hana – hún þurfti á starfinu að halda, gat ekki hugsað sér að flytja aftur til foreldra sinna á Patreksfirði.

(19-20)

Fleira eftir sama höfund

reykjavík

Reykjavík

Í ágúst 1956 hverfur ung stúlka, Lára Marteinsdóttir, úr vist í Viðey og eftir það spyrst ekkert til hennar.
Lesa meira

Vetrarmein

Lesa meira

Hvítidauði

Lesa meira

the island

Lesa meira

Fuori dal mondo

Lesa meira

La sombra del miedo

Lesa meira

Snezna slepota

Lesa meira