Beint í efni

Stúlka með maga – skáldættarsaga byggð á pappírum úr járnskápnum

Stúlka með maga – skáldættarsaga byggð á pappírum úr járnskápnum
Höfundur
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:


Í Stúlku með maga fær tregi höfundar rödd Erlu Þórdísar Jónsdóttur. Í frásögn hennar lifna þau dánu, þegar ættarmein og leyndarmál koma úr glatkistunni. Dómur í yfirrétti, skipskaði, heimsstyrjaldir, afleiðingar sýfiliss og hversdagsleikinn blár af fjarlægð fléttast saman af skáldlegri hugkvæmni.

Stúlka með maga er sjálfstætt framhald af Stúlku með fingur (1999).

Úr Stúlku með maga:

Og hvernig farnast eiginkonum sem fáar sögur fara af?

Ásdís kona Þórðar deyr í mars 1894 71 árs gömul og lát hennar er tilkynnt í Þjóðólfi sem vel metinnar merkiskonu. Þórður sprækur fimm árum yngri og með náttúru góða í buxum lítur nú í kringum sig. Við árslok 1895 er hann búinn að fastna sér unga konu og við litla hrifningu barna sem sjá arfinn skreppa saman. Pálína Hansdóttir Hjaltalín er kasólétt þegar þau trúlofast. Í fyllingu tímans fæðist sonurinn Óskar. Karlinn blómstrar klípandi stinnt hold og fær dannebrogsorðuna um sumarið. Hún elur honum tvo syni enn á næstu árum, þá Þórð og Sturlu. Hinn aldraði faðir deyr 1899, 71 árs gamall. Hjónasælan entist í þrjú ár og skildi eftir jafnmarga syni. Mér finnst þetta spennandi af því að það minnir á mín sárindi að missa Valda til yngri konu, þetta vísar til sárinda svo margra kvenna er karlar hlýða kalli síns sæðis og skrifa sér framtíð í egg ungra kvenna.

Kristín Þorleifsdóttir, móðir Þórðar, dó tveimur árum á undan syni sínum, vorið 1987, 101 árs, rorrandi í koju karlæg. Systir sjáandans í Bjarnarhöfn, þið munið. Hvað fannst henni um nýju konuna, Pálínu? Kona spyr sig og ég verð, alls réttlætis vegna , að reyna að sjá þetta með hans augum. Með augum Valdimars þegar hann yfirgaf mig sjö barna móður 36 ára fyrir stinnari bossa. Kall náttúrunnar í svona körlum hlýtur að vera óhemjusterkt.

Að giftast ríkum og valdamiklum karli kornung lyktar ekki af tækifærismennsku á þessum tímum. Konur í veikari stöðu áttu vegna húsbóndavaldsins erfitt með að neita höfðingjum um blíðu ef þær voru vinnukonur, sem nær allar ógiftar konur voru. Pálína er 38 árum yngri en Þórður og átti um það að velja að giftast karlinum eða lenda í vandræðum með lausaleikskróga. Drottinn minn. Hvílík staða.

Hún hélt til Vesturheims að Þórði látnum með synina. Sá yngsti dó á leiðinni á hafi úti. Virðuleg ungekkja sigldi á vit ævintýra og átti tvo góða drengi sem frama náðu vestan hafs.

Í Ísafold 31. mars árið 1900 er auglýst uppboð samkvæmt ráðstöfun skiptafundar dánarbús Þórðar dannebrogsmanns Þórðarsonar frá Rauðkollsstöðum. Komið er að því að gera upp og skipta milli ekkju og barna. Þar sér maður hvaða jarðir karlinn hefur átt. Eignir moluðust niður til margra. Sjö barna úr fyrra hjónabandi og þriggja úr þvi´síðara.

Vonandi fékk Pálína góðan farareyri til Vesturheims til að hefja nýja lífið með sonunum. Hún lést þar skínandi fín, háöldruð. Voðalegt hefur verið að liggja undir lyktandi karli svo hryllilega miklu eldri, hvílík nauð og hvílík nauð bara. Vond lykt, andfýla og krypplað lúið hold. Bólgnaði beygð af lausaleikskróga. Hann gerði rétt með því að kvænast henni og fékk orðuna í kaupið. Hún átti varla val, sú vesalings tróða.

(60-1)


Fleira eftir sama höfund

Stúlka með fingur

Lesa meira

Síðari aldir

Lesa meira

Leikfélag Reykjavíkur: Aldarsaga

Lesa meira

Stúlka í turni

Lesa meira

20. öld

Lesa meira

Tröllasaga

Lesa meira

Löngu horfin jól

Lesa meira

Nýi jólasveinninn

Lesa meira

Sólin býr til jólin

Lesa meira