Beint í efni

Suðurglugginn

Suðurglugginn
Höfundur
Gyrðir Elíasson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Rithöfundur dvelur í sumarhúsi vinar síns í grennd við lítið þorp og glímir við að skrifa skáldsögu – verk sem stöðugt neitar að taka á sig þá mynd sem höfundurinn leitast við að skapa. Honum verður lítið úr verki og ritvélin stendur óhreyfð dögum saman. Þessi rithöfundur hefur lítil samskipti við annað fólk, og virðist hafa sætt sig við að einangrunarvist listamannsins verði ekki umflúin. Þótt ritstörfum miði hægt gefst lesendum einstakt tækifæri til að kynnast áhugaverðum og margbrotnum sögumanni og fólkinu í lífi hans.

Úr bókinni

Heimsfréttirnar þokast í fjallskuggann á kvöldin. Ég er hættur að nenna að kveikja á útvarpinu nema stöku sinnum til að hlusta á fréttatímann. Það gerir mig bara niðurdreginn. Ef útvarpið fengi að ráða væri veröldin ekki neitt nema ófriðarbál. Kannski er hún það í raun og veru, ég veit það ekki. Samt er erfitt að trúa því þegar litið er út um gluggann, á kyrrlátan sjóinn og sóleyjarnar hér í garðinum, sem drúpa blómkrónum sínum í skugganum. Fólkið í næstu húsum er friðsamlegt, ég heyri lítið til þess, nema stöku hlátra yfir snarkandi grillum. Eftilvill eru húsin hérna orðin svona svört af sífelldum grillreyk, getur verið að þau hafi verið hvít í upphafi? Í gaslogunum sviðnar hold fórnardýranna. Mennirnir virðast alltaf þurfa að drepa eitthvað, ef þeir drepa ekki hver annan.

***

OLÍUSLYSIN GERA EKKI BOÐ Á UNDAN SÉR

***

Maður með keðjusög kemur fyrir hornið á næstefasta húsinu. Hún er enn í gangi. Ég vona að hann hafi bara verið að saga niður timbur í sólpall, en ekki þá sem ætluðu að liggja á pallinum. Ég er þakklátur fyrir að búa ekki í Texas.

***

Einstöku sinnum kemur fyrir að ég sakna þess að hafa ekki sjónvarp. Samt kveikti ég aldrei á sjónvarpinu mínu fyrir sunnan þegar ég var þar um daginn. Auðvitað sakna ég ekki sjónvarpsfréttanna. Það eru helst kvikmyndir sem ég sakna. Í þorpinu hér vestur af er ekkert bíó. Fólk kúrir bara framan við sitt 42 heimilisaltari á kvöldin og bíóhús væri aðeins brosleg tímaskekkja. Vinur minn húseigandinn sagði mér þó að í þorpinu væri einn maður sem ætti gamla sýningarvél og spólur og sýndi stundum myndir í stofunni hjá sér, sem hann auglýsti í matvörubúðinni. En hann sagði líka að það kæmi aldrei nokkur maður á þessar sýningar, og yfirleitt væri búið að rífa miðann niður af tilkynningartöflunni áður en sýnt væri. Hann væri ekki einusinni viss um að maðurinn hefði nokkurntíma sett vélina í gang, af því enginn kæmi. Varla færi hann að sýna fyrir sjálfan sig? Það er ekki gott að segja, en ef ég ætti sýningarvél og spólur mundi ég sýna fyrir sjálfan mig og engan annan. Hugsanlega ætti ég að leita þennan mann uppi í þorpinu. Vinur minni sagði að hann hefði einusinni auglýst sýningu á Ran. Hann var meira að segja að hugsa um að fara sjálfur, af því hann hafði ekki séð Ran í áraraðir, en svo sofnaði hann hér í kofanum sínum, og þegar hann vaknaði var orðið alltof seint að aka yfir í þorpið, hann hefði varla náð lokaorrustunni.

***

B, b, b, b. Þessi stafur gerir mér lífið leitt á köflum. Hann yrði efstur á lista hjá mér í kosningu um leiðinlegasta bókstaf stafrófsins. George Perec skrifaði heila skáldsögu án þess að nota stafinn e, ég gæti vel hugsað mér að skrifa sögu án þess að nota b.

(61-3)

 

Fleira eftir sama höfund

Die Hunde

Lesa meira

Antennen

Lesa meira

Die Sommerferien

Lesa meira

Ein Holzfisch

Lesa meira

Ein Flügelmensch

Lesa meira

Poesia 136

Lesa meira

Inferno

Lesa meira

Gula húsið

Lesa meira