Beint í efni

Undraborgin

Undraborgin
Höfundur
Eduardo Mendoza
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
1991
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

La ciudad de los podigios eftir Eduardo Mendoza í þýðingu Guðbergs.

Þetta er sagan af Onofre Bouvíla sem flytur ungur til Barcelóna árið 1886. Undirheimar Barcelóna verða vettvangur sögunnar og Onofre brýst til auðs og valda með þjófnaði, svikum og morðum. Hann byrjar feril sinn á því að dreifa flugritum fyrir neðanjarðarhreyfingu stjórnleysingja og selja verkamönnum meðal við skalla. Hann stjórnar síðan flokki innbrotsþjófa og græðir offjár á fasteignabraski. Hann verður ríkasti maður í landinu og þegar sarínan af Rússlandi kemur til Barcelóna, er Onofre fenginn til að halda henni veislu. Í veislunni rabbar hann um stjórnmálaástandið við munkinn Raspútín, en veltir því fyrir sér að selja vopn til bolsévika.

Sagan er skreytt ótrúlegum frásögnum af katalónskum veruleika. Umgjörðin er líf Barcelóna þar sem hver persóna virðist sprottin af ævintýri: gamli sjómaðurinn sem talar tungumál sem enginn við háskólann þekkir; trúboðinn sem fór til Súdan að kristna heiðingja, en var sjálfum snúið til heiðni og fór heim til að boða Barcelónabúum galdra og djöflatrú; Eulalia, verndardýrlingur Barcelóna, sem leið píslardauða á fjórðu öld en snýr aftur til að ræða húsnæðisvandann við borgarstjórann.

Úr Undraborginni

- Þegar við hittumst síðast, tók hún til máls, - sagðist ég einhvern tíma ætla að segja þér leyndarmál. Núna get ég ljóstrað því upp og við hittumst aldrei eftir það. Engin ástæða er til þess núna að föður mínum látnum.

- Ég veit ekki um hvaða leyndarmál þú ert að tala, sagði hann þurrlega. Á eftir varð löng þögn. Delfína hafði verið með allan hugann við leyndarmálið á kvalafullu fangelsisárunum og síðan á litlausum árum sjálfviljugrar innilokunar; þetta var það eina sem hélt henni á lífi. Nú fann hún að Onofre mundi hvorki eftir leyndarmálinu né hafði nokkurn tímann fundið fyrir neinni forvitni. Af öllum þeim hugsanlegu viðbrögðum sem hún hafði gert sér í hugarlund og breytt síðan og fegrað uns niðurstaðan varð að skáldlegum heilaspuna, var þetta eina viðbragðið sem hún hafði aldrei hugleitt. Núna voru öll þessi ár liðin til einskis. Í þögninni í herberginu endurvakti hún með sér enn einu sinni þá einstæðu mynd sem hún hafði varðveitt í minninu ævilangt og sá máða myndina í síðasta sinn; á vélrænan hátt fann hún hvernig hann reif slitna náttkjólinn sem hún hafði þvegið og straujað daglega til þess arna; af dýnunni sá hún nakinn og sveittan líkama hans, hvernig illskan skein úr augum hans vorið 1888 í daufri árdagsbirtunni á óhreinum rúðunum á kvistgluggunum á pensjónatinu. Eftir þessari heimsókn hafði hún beðið mánuðum saman og leyndarmálið núna var ekkert annað en þetta smáræði.

(s. 195-196)

Fleira eftir sama höfund