Beint í efni

Við tilheyrum sama myrkrinu – af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo

Við tilheyrum sama myrkrinu – af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
Stella
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Smásögur


Smásögur og blýantsteikningar eftir Kristínu og eitt ljóð eftir Marilyn Monroe.



Úr Við tilheyrum sama myrkrinu:



Vorið kom snemma þetta ár, sautjánda ár stúlkna sem fæddust á ári hestsins. Það var álíka bráðþroska og Vorrós sem var leidd fyrir aftökusveit í húsaporti umkringt sextánhæða byggingu á sex kanta. Hún sá atriðið fyrir sér í kvikmynd. Þú, ég og Jeanne lékum hana til skiptis. Fyrir framan okkur standa sjö hermenn.



Vorrós mælti:

„Gott að deyja eftir að hafa séð allar kvikmyndirnar sem Greta Garbo lék í og nokkrar bíómyndir með Marilyn Monroe, sem mér þykir ekki jafn góð leikkona og jafn fögur og Greta, en ágæt í gamanleik. Dauðinn væri sárari hefði ég ekki séð þessar dásamlegu leikkonur á hvíta tjaldinu. Ég þakka fyrir mig.“



Hún hneigði sig fyrir aftökusveitinni í morgunsárinu, lágvaxin vorrós sem ilmaði vel, veifaði hendinni líkt og hún vildi vinka okkur í gegnum yfirskilvitlegar eftirlitsmyndavélar sem tengdar væru kvikmyndaverum í Hollywood – og þar sætum við fyrir framan sjónvarpsskerm og horfðum á hana í beinni útsendingu deyja.



En hún vinkaði ekki okkur heldur tveimur dúfum sem flugu yfir snemma á ferðinni þennan svala vormorgun.



Stúlkurnar tuttugu og níu hafa ekki skilað sér í þorpið.



Stúlkunni, sem fékk mænusótt, hefur ekki borist nokkurt bréf – bréf Vorrósar geymir Jiang í kistli undir rúmi og les upphátt fyrir mann sinn sem veit ekki hvort hann eigi að hlæja eða gráta; hann veit ekki hvort viðbragðið hæfir betur formanni. Sum kvöldin er hún les skellir hann upp úr og önnur kvöld vöknar honum um augun. Þá þykir honum mikil eftirjsá af því að hafa ekki rætt við stúlkuna persónulega; hann kynni að hafa lesið fyrir hana ljóð.



Eftir vinnu á pósthúsinu kemur afi við hjá veiku stúlkunni í þessu stúlkulausa þorpi með bréfabunka sem hún fer yfir, skoðar vandlega umslögin, flokkar póstinn í stafrófsröð og les upphátt nöfn sendanda og viðtakanda sem hvorugt kannast við eða hefur heyrt getið. Afi fer með bunkann aftur á pósthúsið og tyllir í hillu sem hann smíðaði undir óskilamuni.



Hvar eru þessir íbúar sem umslögin eru stíluð á og hafa heimilisföng við þekktar götur þorpsins en enginn kannast við? Afi er við það að fá blóðnasir af kvíða þurfi hann að smíðalengri hillu. Ef þessu heldur áfram, í þorpið berist fleiri bréf til fóks  sem hvergi finnst nema sem nafn á umslagi, mun hann fá blóðnasir og hjarta konu hans titra í eina kvöldstund.



(57-8)


Fleira eftir sama höfund

Children in the Reindeer Woods

Lesa meira

Hjartatrompet

Lesa meira

Margrét mikla

Lesa meira

Smásögur

Lesa meira

Afmælistertan

Lesa meira

Margar konur

Lesa meira

Lísa, Lísa

Lesa meira