Beint í efni

Oddur Björnsson

Æviágrip

Oddur Björnsson fæddist 25.október 1932 í Ásum í Skaftártungu, V-Skaftafellssýslu. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1953 og nam síðan leikhúsfræði við Háskólann í Vínarborg 1954-56. Hann var bókavörður á Borgarbókasafni Reykjavíkur 1959-65, kennari við Iðnskólann í Reykjavík 1964-77 og leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar 1978-80. Hann starfaði jafnframt sem rithöfundur og við leikhús, m.a. sem leikstjóri við Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar og RÚV.

Oddur gaf út skáldsöguna Kvörnina árið 1967 og barnabók tveimur árum síðar. Að öðru leyti fékkst hann einkum við leikritun. Fjölmörg leikrita hans hafa verið sett upp á sviði, flutt í útvarpi eða sjónvarpi og nokkur gefin út á prenti. Auk þess myndskreytti hann fjölda bóka eftir aðra höfunda og skrifaði greinar í blöð og tímarit. Hann myndskreytti fimm barnabækur bróður síns, Vigfúsar Björnssonar, sem komu út á árunum 1958-63 og Vigfús skrifaði undir dulnefninu Gestur Hannson en Oddur notaði þar dulnefnið Gáki Hannson.

Nokkur verk Odds hafa verið þýdd á erlend tungumál.

Oddur lést mánudaginn 21. nóvember árið 2011.