Beint í efni

Jón Hjartarson

Æviágrip

Jón Jóhann Hjartarson er fæddur 20. janúar 1942 á Hellissandi. Hann útskrifaðist sem kennari frá Kennaraskóla Íslands 1965 og lauk leikaraprófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur 1968. Jón var jafnframt við framhaldsnám í Berlín 1984. Hann var um margra ára skeið fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur og hefur leikið aragrúa hlutverka. Jón hefur einnig leikið með ýmsum leikhópum, s.s. Grímu, Litla leikfélaginu, Litla leikhúsinu, Öðru fólki o.fl. Hann hefur ennfremur leikið í kvikmyndum sem og fjölmörgum sjónvarps- og útvarpsverkum.

Jón hefur samið fjölda leikrita bæði fyrir börn og fullorðna, auk barna- og unglingabóka. Fyrsta leikrit hans, Afmælisboðið, er frá 1969. Hann samdi leikgerð upp úr skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur, Mávahlátri, sem sett var upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1998. Hann hefur bæði leikstýrt verkum sínum og annarra hjá atvinnuleikhúsum og áhugaleikhópum. Hann hefur einnig samið ýmis konar dagskrár fyrir félagasamtök og stofnanir sem og aragrúa skemmtiþátta, rabbþátta, söngtexta og pistla.