Samtök skapandi borga UNESCO (UNESCO Creative Cities network) samanstanda af borgum sem státa af menningarlegri arfleifð á einhverju af sjö listsviðum og leggja áherslu á að rækta og styðja við hana í samtímanum. Sviðin eru bókmenntir, tónlist, handverk og alþýðulist, kvikmyndir, hönnun, margmiðlunarlist og matargerðarlist. Borgir geta sótt um að verða aðilar að samtökunum, en þær borgir sem hljóta inngöngu þurfa einnig að sýna fram á metnað til framtíðar. Reykjavík var útnefnd Bókmenntaborg UNESCO árið 2011.
Samtök Skapandi borga UNESCO eru ört vaxandi og eru nýjar borgir útnefndar á tveggja ára fresti. Titillinn er varanlegur svo lengi sem borgirnar taka þátt í starfi samtakanna og sýna fram á öflugt menningarlíf á sínu sviði, en skila þarf framgangsskýrslu til UNESCO á fjögurra ára fresti.
Skapandi borgir UNESCO starfa samkvæmt leiðarljósi samtakanna.

Bókmenntaborgir UNESCO
í þeirri röð sem þær voru útnefndar:
- 2004 Edinborg (Skotlandi)
- 2008 Iowa City (Bandaríkjunum)
- 2008 Melbourne (Ástralíu)
- 2010 Dublin (Írlandi)
- 2011 Reykjavík (Íslandi)
- 2012 Norwich (Bretlandi)
- 2013 Kraká (Póllandi)
- 2014 Dunedin (Nýja-Sjálandi), Granada (Spáni), Heidelberg (Þýskalandi) og Prag (Tékklandi)
- 2015 Baghdad (Írak), Barcelona (Spáni), Ljubljana (Slóveníu), Lviv (Úkraínu), Montevideo (Úrugvæ), Nottingham (Bretlandi), Óbidos (Portúgal), Tartu (Eistlandi) og Ulyanovsk (Rússlandi)
- 2017 Bucheon (Suður-Kóreu), Durban (Suður-Afríku), Lillehammer (Noregi), Manchester (Bretlandi), Milano (Ítalíu), Quebec City (Kanada), Seattle (Bandaríkjunum) og Utrecht (Hollandi)
- 2019 Angouleme (Frakklandi), Beirut (Líbanon), Exeter (Bretlandi), Kuhmo (Finnlandi), Lahore (Pakistan), Leeuwarden (Hollandi), Nanjing (Kína), Odessa (Úkraínu), Slemani (Kúrdistan/Írak), Wonju (Suður-Kóreu) og Wrocław (Póllandi)
- 2021 Gautaborg (Svíþjóð), Jakarta (Indónesíu), Vilnius (Litháen)
Á sameiginlegum vef Bókmenntaborga UNESCO (citiesoflit.com) er að finna efni um Bókmenntaborgirnar og fleira sem rithöfundar og bókmenntaáhugafólk gæti haft áhuga á.
Það er að finna upplýsingar fyrir fjölmiðla og borgir sem hafa áhuga á að ganga í samtökin svo og almenna kynningu á netinu. Borgir sem óska eftir að ganga í Samstarfsnet skapandi borga UNESCO skila umsókn til UNESCO sem er metin og eru nýjar borgir teknar inn annað hvert ár. Þær borgir sem fá inngöngu skila stöðuskýrslu til UNESCO á fjögurra ára fresti sem liggur til grundvallar mati á hæfni þeirra til að vera áfram í netinu.