Beint í efni

Biluð ást

Biluð ást
Höfundur
Sigurjón Magnússon
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Nanna er látin – konan sem Jóhann Máni elskaði. Það var biluð ást. Hér segir frá harkalegum örlögum manns sem hafði margt til brunns að bera, var gæddur góðum gáfum, óvanalegu líkamlegu atgervi og hugdirfsku. En ástina kunni hann ekki að varast. 

Úr bókinni

Sigmundur situr hér í tvær klukkustundir við að telja mig á að starfa með sér að bókinni, en honum verður lítt ágengt. Ég bind ekkert fastmælum, og þegar hann loks kveðjur verðum við tíkin líklega bæði jafnfegin því nú getur lífið á heimilinu aftur farið að ganga sinn vanagang. Ég útbý handa okkur matarbita, og seinna um kvöldið setjumst við saman inn í stofu og horfum á glæpaþátt í sjónvarpinu. Þetta er flókinn þáttur, svo flókinn að ég tapa fljótt þræðinum, nema ástæðan sé ef til vill sú að samtalið við blaðamanninn situr í mér, sérstaklega það sem hann sagði um æskuár Nönnu í Grindavík. Því lengur sem ég hugsa um það verður sú tilfinning ágengari að mögulega hafi ég ekki skilið líf mitt alveg nógu vel.
   Það fer fyrir tíkinni líkt og mér, glæpaþátturinn verður henni ofviða, og hún dregst á endanum fram í fletið sitt. Ég ætti þá vitaskuld að fara að dæmi hennar en tek í staðinn upp á því að opna skápinn inni í svefnherbergi; hann er fullur af fötum, og ég gref mig gegnum binginn niður á slitinn pappakassa sem ég ber inn í stofu og legg á sófann. Í kassanum eru ýmis gögn um réttarhöldin '86 og margar stílabækur þar sem ég í fangavistinni páraði eitt og annað mér til hugarhægðar um tveggja ára skeið, gjarnan fyrir svefninn. Stílabækurnar mætti því kalla einhvers konar dagbækur, eða jafnvel fangelsisdagbækur, en hlusta þessa tímabils leið tæpast það kvöld að ég skrifaði ekki eitthvað - og mest var það um fortíðina. Stundum varð ég að vísu svo ósáttur við aðstæður mínar og líf mitt að ég skrifaði ekkert um hríð. Þó byrjaði ég alltaf aftur.
   Nú hef ég opnað kassann, en ég kem mér fyrst í stað ekki til að hreyfa við pappírunum og stílabókunum. Tíkin röltir inn í stofuna, hallar undir flatt og horfir á mig. Hún er hnýsin að eðlisfari og væri trúandi til að stökkva upp í sófann og þefa af þessu gamla drasli - en hún heldur sinni syfjulegu ró og bíður þess að sjá hvað fyrir mér vakir. Vandinn er sá að ég veit það varla sjálfur. Ég seilist á endanum í eina bókina, set á mig gleraugun og fletti. Þessi er í eldri kantinum, og hér má sjá stafinn N og sums staðar of á hverri síðu - ég notaði iðulega skammstafanir - og það er sem mig grunaði: þetta er nokkuð sem ég ætti að forðast svona rétt fyrir svefninn. Brátt loka ég því bókinni og læt hana á sinn stað.
   Í kassanum er sitthvað fleira sem ég skrifaði og tengist lífinu bæði á Hrauninu og utan þess - þar finn ég til dæmis í einum bunka fjölmörg samanbrotin blöð sem ég kannast undireins við. Um það bil helmingur þeirra hefur að geyma langt og tilfinningaþrungið sendibréf, handskrifað, til ónefndrar konu. Sú ber upphafsstafinn H. Bréfið sendi ég þó aldrei sem betur fór. Á hinum blöðunum er vélritaður texti, töluvert yngri - og hér eru engar yfirdrifnar tilfinningar á ferðinni. Þetta er knöpp, dapurleg frásögn af ungum dreng og glötuðu sakleysi - af hatri en líka ást.

(s. 111-113)

Fleira eftir sama höfund

Góða nótt, Silja

Lesa meira

Borgir og eyðimerkur: Skáldsaga um Kristmann Guðmundsson

Lesa meira

Hér hlustar aldrei neinn

Lesa meira

Endimörk heimsins: frásögn hugsjónamanns

Lesa meira

Gaddavír

Lesa meira

God natt, Silja

Lesa meira

Dauðavegir

Lesa meira

Morðingi um borð

Lesa meira

Sonnettan

Lesa meira