Beint í efni

Bjarna-Dísa

Bjarna-Dísa
Höfundur
Kristín Steinsdóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur


Um Bjarna-Dísu:



Þórdís Þorgeirsdóttir fæddist í lágum torfkofa austur á landi á 18. öld, öld hjátrúar og hindurvitna. Afdrif hennar urðu efni í grimmilega Þjóðsögu. En hver var hún, stúlkan sem sagan nefnir Bjarna-Dísu?



Hér fær Dísa sjálf orðið, bláfátæk en lífsglöð stúlka sem stritar frá barnæsku til að hafa í sig og á. Daginn sem hún heldur upp á heiði ásamt Bjarna bróður sínum er vonskuveður en skyldan kallar, þau eru vinnuhjú og þurfa að standa sig. Á ískaldri heiðinni bíða Þeirra átök við öfl náttúru og myrkurs.



Úr Bjarna-Dísu:



Ég finn ekki lengur fyrir fótunum. Farin að detta fram fyrir mig en tekst alltaf að standa upp aftur. Búin að týna af mér öðrum skónum. Drottinn minn dýri, þetta voru nýulegir sauðskinnsskór. Vonandi fæ ég að gera mér nýja skó en best gæti ég trúað að það gengi ekki andskotalaust. Varla láta þau mig þó ganga skólausa um bæinn á jólunum.



Ég tók ekkert eftir því hvenær ég gekk upp úr skónum. Get ekki snúið við til að leita að honum. Ég myndi ekki finna hann og er hrædd um að missa af Bjarna. Vil ekki að bilið á milli okkar breikki. Pilsin teefja mig og þvælast fyrir. Ég hrópa á bjarna en hann heyrir ekki í mér. Berst áfram í myrkrinu. Æ, þetta andskotans svartnætti. Krossbölva en stilli mig. Stingst fram fyrir mig eina ferðina enn. Ligg á grúfu. Stormurinn æðir.



– Stattu upp, Þórdís, heyri ég Bjarna hrópa langt að. Hann er kominn til mín, veltir mér við og snjókófið fyllir vitin.



– Stattu upp, endurtekur hann.



– Ég get það ekki, finn ekkert fyrir fótunum. Og búin að týna öðrum skónum.



– En þú verður að halda áfram. Hann reynir að tosa mig á fætur. Svona, stattu nú í fæturna!



– Bjarni, ég hef enga fætur.



– Reyndu að vera dugleg. Það er greinilega farið að halla undan fæti! Við erum langt komin. Heyrirðu það! Svo yfirgnæfir stormurinn allt en ég finn hann toga fast í mig. Ligg hreyfingarlaus eins og slytti.

– Þú ert ekki borubrött núna. Ef þú getur ekki staðið, verðurðu að bíða af þér óveðrið, hrópar hann. Og verður sótt þegar mesti garinn er genginn niður.



Ég tek kipp, sest upp. Slæ um mig með höndunum, reyni að standa á fætur en lyppast niður.



– Bjarni, þú mátt ekki fara frá mér!



Út undan mér horfi ég á hann losa sig við varninginn og skella honum í snjóinn við hliðina á mér. Ég þríf í pokann hans og reyni að vega mig upp.



– Skildu mig ekki eftir eina!



– Dísa, hér er fyrirtaks skafl. Þú bíður með varninginn. Gætir hans og ekkert amar að þér!



– Bjarni, ég get ekki verið ein! Við förum bæði í fönnina.



– Nei, þú bíður hér. Og þegar veðrið gengur niður verðurðu sótt á sleða. Þá þarftu ekki að ganga til byggða.



– En ef það gengur ekki niður?



Bjarni svarar engu. hann er byrjaður að grafa, vinnur eins og berserkur. Ég er lömuð af skelfingu. Hvað nú ef hann verður úti og ég hírist alein í fönninni? Sumir ferðalangar grófu sig í fönn og frusu í hel. Fundist þegar voraði og snjóa leysti. Byrjaðir að rotna. Aðrir urðu örmagna á göngu. Voru grafnir niðri í byggð en leita svo uppi á heiði og vafra þar um vælandi í myrkrinu.



Ég hefði ekkert átt að fara upp yfir heiði með Bjarna. Hefði átt að vera um kyrrt úti í Austdal. En löngunin eftir að hitta mömmu og Möngu systur varð yfirsterkari. Ég hafði ekki séð þær langalengi og allt í haust var einmuna blíða.



Og nú lýstur sögu niður í höfðinu á mér. Ætli mamma hafi ekki sagt mér hana? Karl og kona voru á ferð með litla stúlku sem þau áttu. Hann var giftur, þó ekki þessari konu, og hvert þau voru að fara veit ég ekki lengur. En sagan átti að gerast í Hróarstungu. Og konan var með barnungann innan á sér tia ð halda á honum htia.



Þegar skall á foráttuveður grófu þau sig í fönn. Eitthvað höfðu þau lítið matarkyns meðferðis og nú afréð karlinn að brjótast til bæja og sækja hjálp en mæðgurnar urðu eftir í skaflinum. Hann kom hvergi fram og var mál manna að trúlegast hefði hann villst í hríðinni, lent í Jöklu og drukknað.



Þegar veðrinu slotaði var konan á lífi en litla stúlkan dáin. Móðirin kom gangandi til bæja með líkið í fanginu. Ekki vildi hún sleppa dótturinni og þurfti að taka barnið með valdi svo hægt væri að koma því ofan í gröfina. Upp frá því flakkaði konan milli bæja. Síðast sást til hennar niðri við Jökulsá en líkinu skolaði aldrei á land.



(46-9)


Fleira eftir sama höfund

Á eigin vegum

Lesa meira

Draugar vilja ekki dósagos

Lesa meira

Ängeln i trapphuset

Lesa meira

Angelas Vakaru rajone

Lesa meira

Spurgos ir karis

Lesa meira

Eitt tvö þrjú...

Lesa meira

Fljúgandi stjarna

Lesa meira