Beint í efni

Handbók um ómerktar undankomuleiðir

Handbók um ómerktar undankomuleiðir
Höfundur
Anton Helgi Jónsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Ljóð

Um bókina

Handbók um ómerktar undankomuleiðir er ljóðsaga þar sem undirliggjandi atburðarás minnir á dramatíska og þó launfyndna óperu. Sagan lýsir annasömum degi hjá ónefndri persónu sem bregst við margvíslegum áreitum umhverfisins með því að ferðast í anda til annarra staða og stunda.

Anton Helgi Jónsson gaf út sína fyrstu ljóðabók 1974, þá 19 ára, en alls eru ljóðabækurnar nú orðnar níu. 

Úr bókinni

Í hugarþokunni leynast dagar og staðir
sem birtast og hverfa.

Þar er hér og þá er nú,
þokan sýnist ívið myrk
en leynt 
og ljóst
sést trúlega 
hvort ég sný við.

Stundum er eina leiðin
til að komast af
sú leið að koma sér undan í huganum.

*

Við innganginn á höfuðstöðvum hins ferkantaða
birtist mér spegilmynd í rúðu
framandi manneskja
skessulegur klettur
uppdagað tröll
sem mætir of seint á alla fundi.

Nei.

Ég er meira en grjót
ég er holan í jörðinni
ég er myrkrið í hellinum

sléttan, auðnin
það er ég 
moldarköggull

og vitundin læðist að mér
grípur mig upp
mylur mig niður í hendi sér
feykir mér héðan og burt til allra átta:

Ég er óbyggðaþögnin sem hvergi speglast í rúðu.

*

Mín gamla vinkona, Lísa
veifar úr glugga bókabúðar
fær mig til að stoppa.

Kanínu sem skaust framhjá henni
elti hún ofan í dimma holu
og hrapaði niður, niður

Ég elti hana inn í ævintýrið
en varð seinna mín eigin Lísa
í undralandi skelfingarinnar.

Steinn, var hrópað í hlíðinni. Steinn!

Þegar hnullungur skaust milli göngufólksins
fylgdi ég niður snarbrattann
smaug fram af brúninni
hvarf í kolsvart gilið
á eilífðar augnabliki
fylgdi ég í huganum
hrapaði niður
niður, niður
endalaust niður, ég hrapaði niður.

Enn og aftur hrapa ég niður, enn
enn og aftur og svo aftur og aftur
stend aldrei á fætur
aldrei framar á fætur
fyrr en ég rís upp og stend
með gamalli vinkonu sem heilsar
á nýjum degi og ævintýrið rétt að byrja.

 

 

Fleira eftir sama höfund

Tvífari gerir sig heimakominn

Lesa meira

Ljóð af ættarmóti

Lesa meira

Hálfgerðir englar og allur fjandinn, endurskoðuð og aukin útgáfa

Lesa meira

Tannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð

Lesa meira

Hálfgerðir englar og allur fjandinn

Lesa meira

Ljóðaþýðingar úr belgísku

Lesa meira

Ljóð nætur

Lesa meira

Dropi úr síðustu skúr

Lesa meira

Undir regnboga

Lesa meira