Beint í efni

Konan við 1000°

Konan við 1000°
Höfundur
Hallgrímur Helgason
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Herbjörg María Björnsson er áttræð og farlama og býr ein í bílskúr í austurborg Reykjavíkur. Eini félagsskapur hennar er fartölvan og gömul handsprengja sem hefur fylgt henni frá stríðsárunum. Hún leggur drög að dauða sínum og pantar tíma í líkbrennslu um leið og hún hjalar við minnisguðinn góða sem aldrei bregst. Samferðafólk, atburðir og uppátæki frá viðburðaríkri ævi rifjast upp og afhjúpa lífshlaup óviðjafnanlegs ólíkindatóls.

Úr bókinni:

Það var sumarið '36. Á silfurblíðum degi í miðjum ágúst – þegar sumardagurinn er orðinn þéttur í sér, skýin hanga hitaþung yfir seigfljótandi sænum og til fjalla eru litirnir orðnir eilítið evrópskir að sjá; mildari og dýpri, þroskaðir líkt og þrúgur – kom ljóshærður maður siglandi inn sundin.

„Ég stóð allan tímann í bátnum úr Flatey. Ég bara gat ekki setið. Það var hann Árni Finns, hérna, sem skutlaði mér, hann vann í búðinni hjá Guðmundi Bergsteins,“ sagði pabbi mér síðar.

Og steig á land. Hann gekk óafvitandi framhjá sjö ára stúlku sem hafði forvitnast niður í fjöru og hitti Mössu sína fyrir úti í flekk þar sem hún lét hrífuna ganga: Dökkhærð sem fyrr, draumeyg sem fyrr, dásamleg sem fyrr.

„Sæl.“

Hún leit upp og hrífan stóð eitt andartak kyrr í höndum hennar áður en hún hélt áfram eins og ekkert væri. Það þjarkaði hátt undan tindunum í þurrum og snoðslegnum sverðinum og þótt ekki sæi til sólar voru berir upphandleggir hennar vel merktir sumri, vinnubrúnt holdið strekkt að ofan en titrandi hvítt að neðan svo minnti á væna bleikju. Hann langaði ... (Þetta er ég viss um , svo vel sem ég þekki karlmenn eftir að hafa búið með þeim jafnmörgum og jólasveinarnir eru, þótt vissulega sé vígtannamunur á kyndýrinu í þeim blessuðum.) ... hann langaði að kyssa það brúna en bíta í það hvíta.

„Sæl,“ endurtók pabbi. „Ma ... manstu eftir mér?“

Hún hélt áfram að raka af miklu kappi.

„Nei. Hver ert þú?“

„Hans. Hansi. Þú ...“

„Hans Henrik Björnsson? Ég hélt að sá maður hefði dáið. Og það af barnsförum.“

„Massa ... Ég ... ég er kominn.“

Aftur stöðvaðist hrífan í höndum hennar og hún leit í augu hans.

„Á rigningu átti ég von en ekki þér.“

Hóf síðan aftur að raka.

„Massa ... fy ... fyrirgefðu.“

„Ertu komin hingað til að væla?“ sagði hún kalt og jók fremur hamaganginn en hitt. Hún var í blágráum verkabol, ermalausum, og í handarkrikunum stóðu svitalindirnar opnar: Dökkir hálfmánar voru sem bróderaðir í efnið. Á enni hennar var skammt þar til svitaperlur næðu saman. „Hvað viltu?“

„Þig.“

„Mig?“

Og nú hætti mamma að raka og fór að hlæja.

„Já. Massa, ég ... Ég er búinn að ...“

Hann hikstaði enn og aftur og mamma danglaði í heymúgann sem lá á milli þeirra og langsælis út eftir túninu líkt og gulnandi landamæri ástar og haturs. Neðar í flekknum stóð vinnufólk í ströngu, sveinki Rómans og Rósa hin brjóstgóða, bæið með hrífur. Sú síðarnefnda hafði komið sér fyrir neðan múga þannig að hún hefði auga á komumanni.

„Þetta hefur líka verið erfitt fyrir ... En nú er ég ...“ hélt pabbi áfram að þrípunktast í kringum hug sinn.

Mamma leit á manninn og beið eitt augnablik eftir framhaldinu. Hann reyndi aftur:

„Núna veit ég ...“

En þegar ekkert kom gafst konan upp og sagði ákveðin:

„Mér væri meira gagn í höndunum á þér núna. Farðu og sæktu þér hrífu inn í skemmu.“

Síðar sagði pabbi mér að hann hefði aldrei algt jafn hart að sér við vinnu. Jafnvel ekki í skotgröfunum austur við Don og Dnjestru. Hann vann eins og hundrað manns allan þann dag og alla þá viku og kláraði heyskapinn fyrir Svefneyjarbóndann nánast einn síns liðs. Ég man eftir því að hafa dáðst að honum þegar hann skutlaði heyböggunum í hlöðu svo skein á hvíta upphandleggsvöðvana. Hálfdanska lyfjabúðarlokan lumaði á fyrirtaks vinnusemi og huldi blöðrurnar undan heyböndunum á matmálstímum þótt dóttir hans kæmi auga á þær og dýrkaði á laun líkt og frumkristnir tignuðu fórnarsár Krists.

(76-8)

Fleira eftir sama höfund

Vom zweifelhaften Vergnügen, tot zu sein

Lesa meira

Three movies away from New York : Reykjavík, isolated yet international

Lesa meira

Málverk en þó ekki. Viðtal við Gerwald Rockenscaub.

Lesa meira

101 Reykjavik

Lesa meira

Islands forfatter

Lesa meira

101 Reykjavik

Lesa meira

Rokland

Lesa meira

Konan við 1000°

Lesa meira

Eine Frau bei 1000°: Aus den Memoiren der Herbjörg María Björnsson

Lesa meira