Beint í efni

Með stjörnur í augum

Með stjörnur í augum
Höfundur
Andrés Indriðason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1986
Flokkur
Barnabækur

Um bókina:

Sif er í menntaskóla og nýbúin að eignast barn með skólabróður sínum, Arnari. Þau eru hætt saman en ekki búin að gleyma hvort öðru. Sagan fjallar um hvernig menntaskóla stúlkan tekst á við ábyrgðina sem fylgir móðurhlutverkinu, um vanda og gleði sem takast á hjá hinni einstæðu móður. Viðbrögð pabbans skipta ekki síður máli, tilfinningar hans, ást og togstreita. Sagan er sögð frá sjónarhóli þeirra tveggja til skiptis.

Úr Með stjörnur í augum:

Allt í einu var flautað.
 Ég hrökk við og í sömu andrá skaust bíll eins og köttur út úr mykrinu með skerandi ljós, sítrónugulur braggi, og bremsaði við götuljósið.
 Ég starði á bílstjórann.
 Arnar!
 Búinn að hrista af sér snákinn og sloppinn út úr kóngulóarvefnum!
 Ég hafði ekki séð fyrir að hann færi að elta mig uppi á bragganum, ég vissi ekki einu sinni að hann hefði bílpróf.
 Í næstu andrá horfði ég inn í dimmbrún augu, barmafull af sakleysi og undrun.
 - Sif... elsku Sif mín... af hverju ertu að hlaupa svona í burtu frá mér, er eitthvað að?
 Hann stóð fyrir framan mig og botnaði ekkert í mér, í hvíta ermalausa bolnum og svörtu leðurbuxunum, kom með báðar hendur utan um hálsinn á mér og dró mig til sín og spurði hvað þetta væri eiginlega, það sæist alveg á mér að mér liði eitthvað illa.
 Ég gat ekkert sagt í fyrstu, þetta kom svo flatt upp á mig, horfði bara niður í götuna, svo stundi ég upp að það væri alveg rétt, mér liði ferlega illa, ég gæti bara ekkert að því gert.
 - Ertu eitthvað veik... í alvöru? Heldurðu að þú sért að fá einhverja pest? Ég hristi höfuðið og saug upp í nefið.
 - Nei, nei, það er ekkert svoleiðis.
 Ég gat ekki sagt neitt meira, ég var eins og kleina og samt var ég svo reið út í hann og sár, ég þoldi hann ekki eins og hann var búinn að koma fram við mig.
 - Þú hefur verið að gráta!
 Hann horfði inn í augun á mér og hvíslaði, heitur og blíður, ég kinkaði kolli.
 - Og það er grýlukerti í nefinu!
 Ég brosti og lagði hökuna á öxl hans, það var svo gott að finna hann svona, strauk grýlukertið í burtu með handarbakinu. Ég gat ekki horft í augun á honum, ég gat ekki látið hann sjá framan í mig svona eins og ég var, hann var allt í einu orðinn svo nærgætinn og góður, ég saug aftur upp í nefið og óskaði þess að ég hefði vasaklút og horfði á braggann sem var svona ferlega fallega ljótur, bílstjórahurðin var opin upp á gátt, hann hafði ekki einu sinni lokað henni, það var svo mikill asinn að komast til mín.
 Hann strauk yfir blautt hárið og snerti kaldan vanga með fingurgómunum, ég var eins og klaki, mér var svo kalt, og ég pældi í því hvort honum þætti svona æðislega vænt um mig þegar allt kom til alls, hvað átti ég að segja við hann eftir allt sem á undan var gengið, hvað átti ég að gera?

(s. 82-3)

Fleira eftir sama höfund

Ég veit hvað ég vil

Lesa meira

Ein langer Winter für Páll

Lesa meira

Eins og skugginn

Lesa meira

Elísabet

Lesa meira

Elsku barn!

Lesa meira

Manndómur

Lesa meira

Það var skræpa

Lesa meira

Það var skræpa

Lesa meira

Sprelligosar

Lesa meira