Beint í efni

Vertu ósýnilegur: flóttasaga Ishmaels

Vertu ósýnilegur: flóttasaga Ishmaels
Höfundur
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Eitt sinn bjó Ishmael í borg þar sem var líf og fjör alla daga og börn léku sér innan um dulúðuga hnífasala, villiketti og sápugerðarmeistara. Núna er hann fjórtán ára og borgin hans er vígvöllur. Þegar heimilið er rústir einar neyðist hann til að leggja land undir fót og leita skjóls þar sem friður ríkir. En flóttaleiðin er lífshættuleg. Á sama tíma glímir fjölskylda í Kópavogi við það flókna verkefni að fóta sig í nýju landi.

Úr Vertu ósýnilegur

Jörðin skelfur þegar þeir yfirgefa Aleppo í náttmyrkri. Stöku sinnum sjást blossar af sprengjum í fjarska.

- Ímyndum okkur að þetta séu flugeldar, segir afi þegar þeir hraða sér niður sundursprengda götu í myrkrinu. Bílstjórinn fyrirskipaði stundvísi og Ishmael og afi hans eru mættir á slaginu. Þeir eru í nýjum skóm sem þeir fundu í húsarústunum fyrr um daginn og Ishmael ber lítinn bakpoka með því allra nauðsynlegasta. Stöku sprengjur falla, ein óþægilega nálægt. Vopnaðir menn eru á ferli í myrkrinu, hættulegar skuggaverur og óljóst má skynja hljóðlátar manneskjur á hraðferð á milli húsa í næturskjólinu. Tveir menn stöðva þá á götuhorni og spyrja hvert þeir séu að fara. Afi útskýrir að þeir séu á leið til ættingja í öðru hverfi. Mennirnir sætta sig við þær skýringar og hleypa þeim áfram eftir götunni. Leiðin um Dauðastræti er greið þetta kvöld. Þeir smeygja sér á milli teppa sem hanga hér og hvar þvert yfir götuna til að byrgja leyniskyttum sýn.

- Galdurinn er að ímynda sér að maður sé ósýnilegur, Ishmael, sko, þegar þú mætir þessum vopnuðu mönnum. Vertu agnarsmár og ekki horfa í augun á neínum. Flýttu þér þangað sem þú ætlar án þess að hlaupa. Það vekur grunsemdir ef þú hleypur, sagði afi fyrir löngu síðan. I fyrstu fannst Ishmael það óraunhæfar kröfur að gera sig ósýnilegan en nú skilur hann Jidu. Hann skilur vel hvernig þetta er hægt. Það kallast líka að láta lítið á sér bera og Ishmael er orðinn sérfræðingur í því. Þannig ferðast afi og strákur eftir götum Aleppo þessa síðustu nótt áður en þeir leggja í langferð. Þeir ganga rösklega en lipurt og létt eftir strætunum, tveir saman og ósýnilegir.

Vagninn bíður á horni við sundursprengda byggingu og handan við hana er opið svæði. Bílstjórinn er ungur maður með staurfót. Hann haltrar aftur fyrir bílinn, skimar í kringum sig og vippar sér svo inn. Ishmael furðar sig á því hve snar hann er í snúningum þrátt fýrir fötlun sína.

- Drífið ykkur! öskrar bílstjórinn og rekur á eftir móður með tvö lítil börn. Hann tekur við greiðslu frá farþegunum og hastar á mannskapinn. Hér vill hann ekki ílengjast.

- Haldið þið að þetta sé skemmtiferð? Svona! Það komast fleiri í bílinn! Ekki hangsa!

Ishmael og Jidu troðast inn í hrörlegan vagninn. Þetta er stuttur jálkur sem rúmar kannski tuttugu en í nótt eru þar að minnsta kosti fjörutíu manneskjur á flótta. Ishmael og afi setjast við hlið ungs manns með barn í fangi sér. Þeir sitja þrír í tveimur sætum og Ishmael á fullt í fangi með að komast fyrir á sætisbrúninni.

Saíd, segir ungi maðurinn og leggur hönd á brjóst. Ég er Saíd og þetta er Yana, dóttir mín. Hún er þriggja ára. Þeir heilsast og Jidu strýkur litlu stúlkunni um vangann.

Lágvaxinn og fínlegur unglingsstrákur kemur í gættina. Hann karpar við bílstjórann sem á enga þolinmæði eftir.

- Nei! Hér fær enginn afslátt! Komdu þér út! öskrar bílstjórinn. Strákurinn fer hnípinn út úr bílnum og stendur eftir á gangstéttinni þegar dyrunum er lokað. Ishmael sér að hann grætur.

Bílstjórinn heldur áfram að hrópa.

- Þjappið ykkur. Þetta er ekki útsýnisrúta! Við erum öll í lífshættu! Komum okkur út úr þessu helvíti. Hann hlammar sér í bílstjórasætið, sargar í gírunum og ekur af stað, stígur svo skyndilega bremsuna í botn, setur í bakkgír og æðir aftur á bak svo farþegarnir hnoðast til eins og deig í formi.

- Hættu að væla! öskrar hann og opnar dyrnar. Komdu, strákur! Ég er ekkert illmenni! Drengurinn stekkur um borð og réttir honum peninga. Síðan fikrar hann sig inn eftir bílnum og kemur sér fyrir á gólfinu. Bíllinn ekur hægt í gegnum borgina, þræðir sig furðulega leið og stundum finnst Ishmael þau fara til baka. Þau aka um víglínuna og heyra sprengjur falla. Stundum staðnæmist bíllinn í myrkrinu, bílstjórinn drepur á vélinni og sussar á farþegana, svo setur hann aftur í gang og ekur af stað. Skothvellirnir eru stöðugir og stöku sinnum nálægir.

(49-51)

 

Fleira eftir sama höfund

Ríólítreglan

Lesa meira

Fíasól á flandri

Lesa meira

Fíasól í fínum málum

Lesa meira

Kjallari og fyrsta hæð - hætta á hruni: bóklestur barna - alvara málsins

Lesa meira

Fíasól í hosiló

Lesa meira

Markaðsbörnin og ábyrgðin

Lesa meira

Sigurför himintunglanna: glerlist á sporbaug út í heim

Lesa meira

Vorvindar: viðurkenningar IBBY á Íslandi 2004.

Lesa meira

Bókmannsraunir: vangaveltur um staf og blað

Lesa meira