Beint í efni

Ævintýri Artúrs Gordons Pym

Ævintýri Artúrs Gordons Pym
Höfundur
Edgar Allan Poe
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Nú þegar allskyns ævintýralegar bækur njóta mikilla vinsælda er alveg kjörið að rifja upp þá klassísku höfunda sem lögðu línurnar fyrir einhverjum öldum síðan. Einn slíkur er bandaríski höfundurinn Edgar Allan Poe, sem var á sínum tíma (1809-1849) – og er jafnvel enn – gífurlega áhrifamikill rithöfundur og hugmyndasmiður. Margir vilja eigna honum fyrstu glæpasöguna, „The Purloined Letter“ (sem síðar hefur orðið uppspretta mikilla fræðilega pælinga um virkni tungumálsins), þó aðrir bendi á að sögur þjóðverjans E.T.A. Hoffmans birtust enn fyrr. Sem hrollvekjuhöfundur er Poe einnig mikill áhrifavaldur, en í skrifum sínum notaðist hann iðulega við geðveika eða uppdópaða sögumenn sem ekki var auðvelt að treysta á og lagði með því línurnar fyrir komandi hrollvekjuskrif. Poe var undir áhrifum frá gotnesku stefnunni, sem lagði mikla áherslu á niðurníðslu og grotnun hverskonar í bland við æstar tilfinningar (að hætti rómantíkera) og ævintýralegt ímyndunarafl. Snemma á tuttugustu öld birtist reyfarahöfundurinn H.P. Lovecraft, en hrollvekjuskrif hans voru undir miklum áhrifum frá Poe. Lovecraft sjálfur var það áhrifamikill að útfrá honum myndaðist heill skóli hrollvekjureyfarahöfunda, meðal þeirra er Robert nokkur Block sem skrifaði nóvelluna Psycho sem síðar var kvikmynduð af Alfred Hitchcock, og lagði sú kvikmynd línurnar fyrir nútímahrollvekjur. Og þræðir Poe liggja víðar, því á fimmta og sjötta áratugnum voru sögur hans kvikmyndaðar fram og til baka, þær kvikmyndir urðu svo mjög áhrifamiklar... og þannig heldur sagan áfram. Ekki má gleyma því að Poe var einnig virt ljóðskáld og eru ljóð hans enn kennd í barnaskólum vestra. Edgar Allan Poe er því einn af fáum höfundum sem njóta þess að standa með fæturnar í báðum herbúðum, þeirri bókmenntalegu og þeirri reyfarakenndu.

Poe er þekktastur fyrir smásögur sínar, en hann skrifaði einnig mikið um bókmenntir og þar á meðal fræga ritgerð um smásöguna, þarsem hann lýsir því hvernig hvert einasta atriði sögunnar verði að vera úthugsað, og beina sjónum að, byggja upp og undirbúa fyrir endinn. Sjálfur praktíseraði hann það sem hann predikaði og eru smásögur hans hrein unun hvað varðar beitingu tungumáls, byggingu og myndmál. En hann reyndi sig líka við lengri sögu, Ævintýri Arthurs Gordons Pym, sem var rituð á árunum 1836-1837. Á þeim tíma ríkti mikill áhugi á landkönnunum, sérstaklega suðurhöfum og heimskauti, og Poe, alltaf blankur, ákvað að róa á þau mið í skáldskap sínum. Nú er sagan komin út í íslenskri þýðingu Atla Magnússonar. Sagan segir frá ungum manni Artúri, sem þráir ævintýri á sjó. Sagan byrjar strax með dramatískri siglingu með kófdrukknum vini Artúrs, en þrátt fyrir þá hættuför minnkar ævintýragirni stráksins ekkert og hann gerist laumufarþegi um borð í skipi föður vinarins. Þar er svo gerð blóðug uppreisn og í kjölfar hennar skemmist skipið í óveðri, allur matur hverfur undir sjó og þeir fjórir sem eftir lifa, Artúr, vinurinn, einn uppreisnarmannanna sem snerist og einn uppreisnarmannanna, Dirk Peters sem þeir fönguðu og sneru (hann heitir Richard Parker alveg eins og tígrísdýrið í Sögunni af Pí, tilviljun?), svelta heilu hungri. Og þá er gripið til örþrifaráða. Einskonar draugaskip, eða kannski frekar dauðaskip, siglir framhjá og eftir miklar þjáningar er þeim bjargað um borð í landkönnunarskip sem siglir suður. Þar lenda ferðalangarnir á furðueyju, byggðum svörtum þjóðflokki, sem klæðir sig í svört skinn, og hræðist allt hvítt. Jafnvel landið sjálft er svart, granít og tinna, og vatnið litað dökkum litum. Fólkið virðist vinsamlegt, en ekki er allt sem sýnist...

Poe hafði áður skrifað ævintýralegar sögur um furðudali og eyjur, svo hann átti svosem ekki í erfiðleikum með að setja saman eina slíka í lengra lagi. Það má dunda sér við að rekja aðra þræði úr smásögum hans, en ég læt mér nægja að benda á 'grafinn lifandi' minnið sem ásótti Poe mjög og birtist hér allavega tvisvar sinnum. Líkt og smásögurnar er skáldsagan mjög táknsæ, og lýsingar hans á blökkumönnum og indíánum eiga illa við í fjölmenningarsamfélagi samtímans. En skáldsagan er að sjálfsögðu barn síns tíma, auk þess sem vert er að benda á að Dirk Peters, félagi Artúrs í gegnum allt, og sá eini úr uppreisnaráhöfninni sem sér sjálfviljugur að sér er hálfur indíáni og er honum lýst sem algerum villimanni. Minnir sú lýsing einmitt nokkuð á annan villimann á sjó, félaga Ísmaels í Moby Dick, en að sögn var saga Poe, mikið rétt, áhrifavaldur þeirrar skáldsögu. Í stuttu máli sagt er Ævintýri Artúrs Gordons Pym spennandi og átakamikil en fyrst og fremst bráðskemmtileg saga og ætti að slökkva þorsta aðdáenda góðra reyfara og ævintýra- og svaðilfarasagna (þó hún sé dálítið endaslepp). Ég hef lesið söguna allavega tvisvar á enskunni og þóttist því þekkja hana nokkuð vel og ætlaði mér rétt að glugga í þýðingu Atla Magnússonar en áður en ég vissi af var ég komin á kaf í söguna, farin að naga neglur í æsingi og hreyfði mig ekki úr stólnum fyrr en ég hafði lesið bókina í gegn, orð fyrir orð. Þýðing Atla er vel unnin, en það er ekki auðhlaupið að ná ríkulegum stíl Poe, sem var mikill galdramaður með tungumál. Í fyrstu var ég upptekin af því að bera í huganum saman við frumtextann, en áður en varði gleymdi ég öllu slíku, og fann hvergi hnökra í límlestri mínum.

Ég verð líka að fá að dáðst að bókinni sjálfri sem er fallega græn með gylltu skrautletri, og rómantískri mynd af skipi sem ber við jökul, alveg í anda míns manns!

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2003