Beint í efni

Af hjaranum

Af hjaranum
Höfundur
Heiðrún Ólafsdóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Áður en lengra er haldið er vert að taka það fram að undirrituð hefur ekki lesið margar bækur sem fjalla um eða gerast á Grænlandi og er það sannarlega miður. Ég hef lesið um það bil hundrað blaðsíður í Lesið í snjóinn eftir Peter Höeg, sem fjallar um hina hálfgrænlensku Smillu er þekkir snjó betur en flestir og les hann til að leysa glæpamál, en ég hef ekki lesið svo mikið sem eitt ljóð sem tengist Grænlandi með einum eða öðrum hætti þar til nú. Það er því kærkomið og skemmtilegt að fletta nýjustu ljóðabók Heiðrúnar Ólafsdóttur, Af hjaranum, sem kom út núna fyrir jólin og segir frá tveggja mánaða dvöl hennar á Grænlandi. Ólíkt Smillu, sem á það til að varpa dálítið rómantísku ljósi á æsku sína á Grænlandi, dregur Heiðrún upp hversdagslegar myndir útlendings í framandi landi.

Af hjaranum, sem hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna 2013, er önnur ljóðabók Heiðrúnar en fyrir ári sendi hún frá sér sína fyrstu ljóðabók, Á milli okkar. Heiðrún hefur lagt stund á nám í ritlist við Háskóla Íslands og útgefandi ljóðabóka hennar er Ungmennafélagið Heiðrún.

Eins og í fyrri bók höfundar eru ljóðin í Af hjaranum prósaljóð. Í upphafi er ferðalagið undirbúið og fyrsta ljóð bókarinnar ber titilinn „Undirbúningur“: „Áður en þú leggur af stað veltið þið vinkonurnar fyrir ykkur hvað þú þurfir að hafa með þér. Hvort tekur maður bikiní eða sundbol með sér á hjara veraldar?“ (bls. 5) Að lokum ákveður ljóðmælandi að pakka líka bjartsýni og „splunkunýrri“ von sem gefur þau fyrirheit að ferðalagið, sem hún gerir sig klára að leggja upp í, er einnig andlegs eðlis og leitar inn á við. Eins og svo oft í ferðasögum er samhljómur á milli ytri veruleikans og innri; hið veraldlega ferðalag gefur jafnframt til kynna ferðalag hugans.

Því að koma á nýjan, óþekktan stað getur fylgt hræðsla en umfram allt forvitni sem endurspeglast í sjónarhorni ljóðmælandans. Hún er útlendingur á meðal útlendinga, talar ekki tungumál innfæddra, kynnist og skoðar samfélagið utan frá og verður nokkrum sinnum fyrir ærlegu menningarsjokki. Einu slíku augnabliki sjokks, forvitni og hræðslu er lýst í ljóðinu „Vön“ :

Verandi veraldarvön kallarðu ekki allt ömmu þína og finnst ekki mikið tiltökumál að setjast tímabundið að í litlum bæ á hjaranum. Ekki fyrr en þú mætir sex blindfullum unglingsstrákum á leið upp í fjall með riffla sem þeir fengu nýverið í afmælisgjöf. (bls. 11)

Prósaljóðin eru textamyndir og birta brot af lífinu, hinu ytra umhverfi ljóðmælanda og hinu innra, hugsunum og tilfinningum. Þau lýsa upplifun hennar af hversdagslífi lengst á hjara veraldar, vangaveltum hennar um að vera utangarðs í framandi samfélagi þar sem hún skilur ekki tungumálið né heldur lifnaðarhætti, siði eða venjur fólksins í kringum hana. Ljóðin eru um leið tjáning á innra lífi ljóðmælanda og þrám. En þar inn í fléttast heimþráin sem blossa vill upp þegar dvalið er langdvölum á erlendri grundu; „Héðan er langt að hugsa heim. Engu að síður leyfir þú huganum stundum að æða óraveg. Mörg hundruð kílómetra, yfir jökla og sjó þegar nóttin er þéttust. Hvött áfram af hungruðum hundum.“ („Löngun“, bls. 15)

Ef ferðalagið er flótti frá ákveðnum stað, þá er erfiðara að flýja hugann sem fylgir manni hvert fótmál með öllum þeim minningum og hugsunum sem hann geymir. Ástarsorg er jafn sár hvort sem hana ber að garði heima eða erlendis. Ljóðmælandi kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að hægt sé að flytja á hjara veraldar, og flýja þar með ákveðnar manneskjur, er því ekki eins farið með minningarnar um þær né söknuðinn sem sprettur af þeim minningum. Formgerð minninga verða einnig að yrkisefni Heiðrúnar, og tengsl þeirra við ljósmyndun, en uppáhalds ljóðið mitt í bókinni er „Skynjun.“ Það lýsir á einfaldan máta, en um leið svo vel, hversu yfirborðskenndur miðill ljósmyndin er því ljósmyndin fangar aðeins brotabrot af minningum og upplifunum sem tengdar eru vissum stöðum:

Þessu nær myndavélin ekki; rykbragð í munni og sandur í augum. Lykt af blautum hundum, úldnandi selshræi. Þögnin í firðinum. Ilmur af lyngi. Stingandi heimþrá. Áfengisþefur. Hundgá. Endalaus hundgá og ýlfur. (bls. 24) 

Þær vangaveltur um minningar, sem ekki er hægt að flýja en lifa með manni hvort sem manni líkar betur eða verr, kallast á við grátbroslega tilvitnun í W. Houston í upphafi bókarinnar: „And if, by chance, that special place that you‘ve been dreaming of leads you to a lonely place. Find your strength in love.“ Ljóð Heiðrúnar eru umfram allt grátbrosleg; þau tifa af kímni og birta meinfyndið og stundum hæðnislegt sjónarhorn á tilveruna. En undir niðri krauma aðrar sárari tilfinningar, söknuður og jafnvel eftirsjá, sem ljóðmælandi óskar að gleyma: „innst inni óskar þú þess að rykið setjist á allan þinn innri veruleika.“ (bls. 14)

Af hjaranum er áhugaverð ljóðabók, ekki síst fyrir þær sakir að hún fjallar um áhugavert efni sem íslenskir lesendur hafa ekki fengið að gefa mikinn gaum né íslenskir höfundar fjallað um. En það er Grænland og Grænlendingar; nágrannaþjóðin sem á ýmislegt sameiginlegt með Íslendingum (stórbrotna náttúru og nálægð við sjó), þó ef til vill sé fleira sem skilur að. Ljóðin eru vel samin og meitluð. Prósaljóðin eru í formi ferðadagbókar, sem er vel uppbyggð af athugasemdum um hið innra og ytra, og lesandanum er boðið að fylgja með á ferðalaginu. Ég vona að Fjöruverðlaunatilnefning hvetji Heiðrúnu Ólafsdóttur og Ungmennafélag hennar til að halda áfram skrifum og útgáfu.

Vera Knútsdóttir, janúar 2014